135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:07]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem farið hefur fram um þetta mál og nefndarmönnum fyrir afskaplega góða og sannfærandi vinnu í málinu, þeir höfðu hraðar hendur og stóðu sig ákaflega vel. Ég gat því miður ekki verið við 1. umr. og flutt málið, eins og ég hefði svo sannarlega kosið að gera, þar sem ég var staddur í Gautaborg sem samstarfsráðherra Norðurlandanna, sem er verkefni sem ég tók að mér að tillögu forsætisráðherra í ríkisstjórn og gat ekki vikist undan því og því flutti staðgengill málið. Ég fylgdist vel með umræðunum og hef lesið ræðurnar sem voru athyglisverðar og margar góðar og kem ég inn á helstu álitaefni sem einnig hafa verið nefnd hér áðan af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.

Hér hefur verið rakið að það vildi svo til að það var á síðasta degi Alþingis sem skjálftarnir riðu yfir og það var ljóst að hér var um að ræða gríðarlegt tjón á innbúi þúsunda heimila, sérstaklega af því að skjálftarnir núna riðu yfir miklu þéttbýlla svæði en skjálftarnir gerðu 17. júní árið 2000 þegar svipað sterkur skjálfti, þó heldur sterkari, reið yfir mun dreifbýlla svæði og tjón því ekki næstum því eins mikið og varð í skjálftunum núna. Ég sat íbúafundi í fjórum sveitarfélögum dagana eftir jarðskjálftana, fyrst á Selfossi og Eyrarbakka á sunndeginum tveimur dögum eftir skjálftana, og það komu strax fram ábendingar um að eigið tjón, áhætta vegna tjóns á lausafjármunum sem bæta skyldi úr viðlagatryggingu væri óeðlilega há. Mér fannst besti samanburðurinn sem kom í ljós vera að eigin áhætta innbústrygginga hjá vátryggingafélögunum er yfirleitt á bilinu 10–20 þús. kr., og eins og hv. formaður viðskiptanefndar nefndi hérna áðan er það miklu, miklu hærra. Fyrir utan það að vísitölubindingin við byggingarvísitölu vegna innbús er að sjálfsögðu óeðlileg skoðað í þessu ljósi og á ekki við og hefur sjálfsagt ekki verið hugsuð til þrautar á sínum tíma þegar lögin voru sett út frá þessu og því ekki hægt að bera það saman að innbústryggingarnar hafi hækkað í samræmi við byggingarvísitölu þó svo að lágmarksfjárhæð vegna tjóna á fasteignum hafi hækkað í takt við byggingarvísitölu, það er ekkert óeðlilegt við það.

Annar samanburður sem er eðlilegur þar er sá að sjálfsábyrgð tjóna á fasteignum samanborið við sambærilegar sjálfsábyrgðir erlendis í svipuðum tilvikum er miklu, miklu lægri hjá okkur en nokkurs staðar annars staðar þannig að sú upphæð þótti einfaldlega ekkert óeðlilega há t.d. hvað varðar innbúið. Innbústryggingarlágmarkið þótti einfaldlega allt of hátt og hærra en eðlilegur samanburður leiddi í ljós og það kemur líka augljóslega langmest niður á þeim sem hafa minnst fé milli handanna og mega við mjög litlum skakkaföllum. Þó að okkur mörgum þyki þetta kannski ekki verulegar upphæðir sem þarna er um að ræða skipta þær mjög marga miklu máli, yngra fólk og eldra fólk. Þarna er um að ræða tjón á sjónvörpum og ýmsum slíkum hlutum sem ramba á barmi þess að fara upp fyrir eða niður fyrir 80 þús. kr. markið og fólk hefur kannski ekki fyrir að kynna inn ef um 80 þús. kr. er að ræða og það áttar sig ekkert nákvæmlega á því hvers virði hluturinn er í mati. En svo ég svari spurningu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, um hvort brýna nauðsyn hafi borið til, þá tel ég svo vera afdráttarlaust.

Það voru allar forsendur fyrir hendi til að bregðast strax við sanngjörnum og málefnalegum ábendingum um að eigin áhætta vegna tjóns á lausafjármunum væri óeðlilega há með þessum hætti. Þarna þurfti að bregðast strax við, tafarlaust, og gera þetta annaðhvort strax eða ekki og því var gripið til þess að setja bráðabirgðalög um málið sem núna hafa komið til baka frá viðskiptanefnd, alveg hreint prýðileg og ég felli mig mjög vel við þau og tek undir þá breytingu sem á því er gerð hvað varðar reglugerðarheimildina, sérstaklega þar sem endurskoðun laganna hefur nú þegar hafist. Við skipuðum nefnd til að endurskoða lög um Viðlagatryggingu Íslands í kjölfarið á bráðabirgðalagasetningunni eftir að við settum lögin og þar er mjög eðlilegt að sú vinna leiði það fram hvernig sé best að ákvarða, annaðhvort með árlegri ákvörðun frekar en einhverri vísitölubindingu hugsanlega, hvernig sú upphæð uppreiknast frá einum tíma til annars. Það er því hin ágætasta niðurstaða og gerir lagasetninguna betri fyrir vikið.

Markmiðið var það eitt að tjónþolum yrði bætt með sanngjörnum hætti og þess vegna var þessi leið lögð fram. Eins og fram hefur komið áður er um að ræða tjón hjá mjög mörgum. 28. ágúst höfðu borist á fjórða þúsund tjónatilkynninga, tæplega 3.800, 2.000 vegna íbúðarhúsa, 2.200 vegna tjóns á innbúi og svo mætti áfram telja. Það hafa verið skoðaðar 976 eignir og 830 millj. kr. verið greiddar nú þegar vegna innbústjóna en 822 millj. kr. vegna 314 fasteignatjóna. Þetta eru því verulegar upphæðir enda eins og nefnt var hérna áðan er þetta líklega mesta eignatjón sem hefur orðið á Íslandi í einu vetfangi.

Við höfum skipað nefnd nú þegar til að fara yfir hlutverk og semja frumvarp til nýrra laga um viðlagatryggingu og nefndinni er ætlað að hraða því starfi þannig að unnt verði að leggja það frumvarp fram núna fyrir áramótin. Forsætisráðherra hefur skipað nefnd, að tillögu okkar í ríkisstjórn, sem hefur það hlutverk að meta hvernig skuli fara með ótryggð tjón einstaklinga og fyrirtækja og hvernig haga skuli fjárhagslegum stuðningi við sveitarfélög vegna endurreisnarstarfsins o.fl. Það kom líka strax í ljós að það eru margir sem lenda á einhverjum jaðri þess sem viðlagatryggingin tryggir og margt af því sem eftir á þykir ósanngjarnt að láta fólk sitja uppi með óbætt og aðstoð við fólk sem lendir í alls konar skörunum og á gráu svæði þarna og þá er það umræddrar nefndar að fara yfir það hvernig á þeim málum verði tekið, hvernig er farið með ótryggð tjón einstaklinga og fyrirtækja, fólk sem lendir í sérstökum tilfellum sem er erfitt að bregðast við en eðlilegt að bregðast við hins vegar af hálfu ríkisvaldsins. Hið opinbera á að koma þeim sem lenda í náttúruhamförum og alvarlegum atburðum til hjálpar, að sjálfsögðu, um það er breið samstaða hér og ekki um það deilt.

Við höfum hins vegar deilt um það hér hvort aðstæðurnar sem sköpuðust við náttúruhamfarirnar á Suðurlandi 29. maí sl. og afleiðingarnar sem urðu af því uppfylli skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn. Það er matsatriði. Mat mitt og ríkisstjórnarinnar var það að aðstæðurnar uppfylltu afdráttarlaust skilyrði um brýna nauðsyn og því var gripið til þess ráðs að setja bráðabirgðalögin. Aðrir geta haft aðra skoðun en þá — og svo er það Alþingi sem hefur síðasta orðið í málinu — hvort Alþingi sé sammála því mati ríkisstjórnarinnar að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða. Þetta getur aldrei verið með öðrum hætti. Þessi heimild er til staðar, það verður alltaf matsatriði og alltaf í hverju einasta tilfelli verður það umdeilanlegt hvort rétt hafi verið að grípa til heimildar um bráðabirgðalagasetningu eða ekki.

Það var gert, eins og hér var nefnt áðan, út af lax- og silungsveiði fyrir fimm árum og það hefur verið gert af og til í gegnum tíðina, með ábyrgðum við flugfélög eftir 11. september, eins og þingmaðurinn nefndi áðan, og vegna annarra hluta. Þetta verður alltaf matsatriði, við getum alltaf deilt um hvort það hefði átt að gera þetta og af hverju þetta var gert og hvort það hefði átt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi, en ég er algjörlega sannfærður um að við gripum til þess ráðs sem rétt var í vor með því að setja þessi bráðabirgðalög strax og bregðast við áður en viðlagatrygging greiddi út nánast eina einustu krónu úr sjóðum sínum. Þeir voru búnir að meta og greiða út örfá tjón af því að tryggingamennirnir brugðust mjög hratt við og unnu þetta mjög vel og voru þá þegar byrjaðir að greiða út tjón vegna innbústrygginga því að það þótti mikilvægt að gera það strax. Þess vegna þurfti að setja lögin áður en lengra væri haldið. Ég held því að þarna höfum við farið fullkomlega rétt að með aðgerðum okkar fyrr á árinu. Eins og ég sagði áðan þá er svo fjarri því að gjörningur eins og bráðabirgðalagasetning sé hafin yfir gagnrýni, slík lagasetning verður alltaf seld undir gagnrýni í hvert einasta sinn sem henni er beitt og það er ekkert óeðlilegt við það svo lengi sem sú umræða er málefnaleg og upplýst út frá öllum hliðum.

Svo er að sjálfsögðu hægt að hafa umræðu um það hvort menn eru efnislega sammála eða ósammála inntaki lagasetningarinnar eða gjörningnum sjálfum eins og við höfum aðeins verið að blanda saman, finnst mér, í umræðunni hérna núna en hvað varðaði lagasetninguna frá 2003 þá var Samfylkingin einfaldlega á því á þeim tíma að það réttlætti ekki efnislega setningu bráðabirgðalaga. Það var ekki prinsippafstaða gegn því að það ætti aldrei að setja bráðabirgðalög — því fór víðs fjarri — en í því tilfelli voru forsendur ekki efnislega til staðar. Það er matsatriði hverju sinni, bæði fólks og flokka, þegar tekin er afstaða til þess hvort réttlætanlegt sé að setja bráðabirgðalög, hvort það uppfylli stjórnarskrárákvæði um brýna nauðsyn hverju sinni. Það er ekki deilt um það hvort þetta ákvæði sé til staðar af okkar hálfu eða hvort það eigi að vera til staðar. Við teljum afdráttarlaust að þetta ákvæði eigi og þurfi að vera til staðar þegar grípa þarf til þess með afgerandi hætti af því að það er alveg skýrt að bráðabirgðalögin skuli koma inn í Alþingi örfáum dögum eftir að Alþingi kemur saman næst til umfjöllunar með málið þannig að Alþingi hefur um þetta að segja um leið og það kemur saman aftur.

Nefndin gerir því í sjálfu sér ekki athugasemdir við meðferð málsins að öðru leyti en leggur til þá breytingu eins og ég nefndi áðan um reglugerðarheimild til viðskiptaráðherra hverju sinni um að ákveða þessa lágmarks eigin áhættu. Ég held að það sé breyting til bóta og að málið verði betra á eftir, sérstaklega þar sem, eins og ég sagði áðan, að nefnd er að störfum sem á að fjalla um málið heildstætt. Það er nauðsynlegt að fara yfir lög um viðlagatryggingu og það er alveg ljóst hafandi fylgst ágætlega með þessum ferli síðustu þrjá, fjóra mánuðina að það eru fjöldamörg atriði sem teljast til álitaefna og þarf að skýra og skerpa og betrumbæta upp á framhaldið. Við vitum aldrei hvenær reynir á lögin næst. Það reyndi svo sannarlega á þau með mjög ófyrirsjáanlegum og harkalegum hætti eins og við munum frá þessum eftirminnilega degi í vor, þegar margir héldu fyrst að tjón væri enn þá alvarlegra og fólk hefði stórslasast eða jafnvel látist, enn þá alvarlegri atburðir gerst og ýmislegt leit úr fyrir það svona fyrstu klukkutímana á eftir meðan brýr og mannvirki voru lokuð og fjarskipti um farsíma lágu meira og minna niðri, en svo reyndist sem betur fer ekki vera. Eingöngu var um eignatjón að ræða en það var gríðarlega umfangsmikið.

Það var líka ævintýri líkast að fylgjast með því vikurnar eftir jarðskjálftana hvað almannavarnir og sveitarfélögin á þessu svæði öllu héldu einstaklega vel utan um þessa hluti og hvað ferlarnir allir, jafnflóknir og þeir eru við svona aðstæður, en oft skapast mikil óþreyja og ákafi í samfélaginu, hvað allir ferlar gengu frábærlega vel og sveitarfélögin héldu einstaklega vel utan um þetta. Sama má segja í öllum þeim viðkvæmu málum eftir á þegar það blasir við að töluverður fjöldi fólks er í óíbúðarhæfum húsum. Nokkuð margir lentu þarna á ákveðnum jaðri þess að teljast með altjón eða hús sem væri hægt að gera við o.s.frv. Viðlagatrygging og fólkið sem fyrir henni fór reyndist vera afskaplega sveigjanlegt og mat hefur í langflestum tilfellum gengið afskaplega vel og það hefur gengið vel að koma þessum erfiðu og viðkvæmu málum fyrir, það hefur gengið vel að útvega fólkinu sem varð húsnæðislaust í skjálftunum húsnæði, það hafa sveitarfélögin séð um algjörlega. Svo hefur verið starfrækt sérstök miðstöð allan þennan tíma sem fyrrverandi þingmaður Ólafur Örn Haraldsson veitir forustu og hefur gert með myndarbrag og afskaplega jákvæðum hætti frá því að hann var ráðinn. Þarna skiptir náttúrlega mestu máli að við stjórnvölinn sé fært og lipurt fólk sem valdi vel aðstæðum og tilefninu og það hefur svo sannarlega verið á öllum stigum þessa máls.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta mál kemur svona frá viðskiptanefnd. Breytingin sem lögð er til er til bóta að mínu mati. Þetta var það sem við lögðum til á sínum tíma til að ljúka málinu með einhverjum skýrum og afdráttarlausum hætti af því að við vorum að afnema vísitölutengingu við byggingarvísitölu, sem mér fannst algjörlega fráleit og það var niðurstaða okkar. Nú leggur nefndin til að þetta bíði endurskoðunar viðlagatrygginganefndarinnar og það er hið besta mál og eingöngu jákvætt. Ég ítrekaði það áðan að það bar brýna nauðsyn til þess að breyta lögum um viðlagatryggingu með bráðabirgðalögum og ég held að það hafi fengið mjög farsæla úrlausn, þetta mál allt saman í heild sinni. Það var þannig að eigin áhætta vegna tjóns á lausafjármunum var óeðlilega há, hana þurfti að lækka og átti að lækka, viðmiðið var til staðar alveg skýrt og afdráttarlaust, það lágmarkseigináhættuviðmið vátryggingafélaganna, annars vegar vegna tjóna á lausafjármunum og þau voru þetta 10–20 þúsund þannig að viðmiðið var skýrt og til staðar og þess vegna var auðvelt að velja töluna. Hún var ekki úr lausu lofti gripin heldur eingöngu út af því að samanburðurinn leiddi í ljós að eigin áhætta innbústrygginga hjá vátryggingafélögunum er á þessu bili 10–20 þúsund og því miklu lægri.

Svona rétt í lokin til að hafa sagt frá því, að sjálfsögðu ber ráðherra og ríkisstjórn að ganga úr skugga um það eins og hægt er að gera við slíkar aðstæður að meirihlutastuðningur sé við málið á Alþingi, það tek ég alveg afdráttarlaust undir. Áður en þetta mál var leitt til lykta og klárað af ríkisstjórn hringdi ég í formenn eða þingflokksformenn, eftir atvikum hvort ég náði í, allra flokkanna sem eiga þingmenn á Alþingi. Ég náði í fulltrúa frá þeim öllum nánast á augnabliki, á korteri náði ég að tala við þá alla. Ég man að ég talaði við hv. þingmenn Ögmund Jónasson, Siv Friðleifsdóttur, Guðjón Arnar Kristjánsson og að sjálfsögðu Arnbjörgu Sveinsdóttur og Lúðvík Bergvinsson eða hvort ég talaði við varaformann þingflokks Samfylkingar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, og gerði þeim grein fyrir fyrirætlunum mínum og ríkisstjórnarinnar. Þingflokksformenn stjórnarflokkanna eftir athugun í sínum röðum gátu fullyrt að stuðningur væri við málið í röðum stjórnarflokkanna.

Stjórnarandstöðuflokkarnir lýstu svo sem ekki afdráttarlausum skoðunum í málinu en enginn þeirra lagðist gegn því. Ég tek það hins vegar fram til að gæta fullkominnar sanngirni að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði ekki eða fullyrti ekkert um að hann og hans menn mundu styðja málið, hann bara þakkaði mér fyrir að upplýsa hann um málið áður en það yrði afgreitt og til lykta leitt. Sama gerðu formenn eða þingflokksformenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna, menn töldu það jákvætt að þeir væru upplýstir um það með þessum hætti, svo kæmi náttúrlega í ljós við vinnslu málsins hvernig úr því mundi spilast. Enginn þeirra tilkynnti mér það þá að þeir mundu leggjast gegn málinu enda kannski ekkert hægt að ætlast til þess að fólk hefði skýra og endanlega afstöðu til málsins á því augnabliki sem þarna var uppi af því að allir voru jafnkappsamir um að gera allt sem hægt væri til að létta fólkinu sem hefði lent í skjálftunum róðurinn, eins og unnt væri með sanngjörnum hætti þó að þeir tækju ekki afstöðu þar til umræddrar bráðabirgðalagasetningar. Ég gerði því mitt ýtrasta til að leita eftir því við forustumenn allra flokkanna á Alþingi, ekki bara stjórnarflokkanna heldur allra flokkanna fimm, hvort það væri stuðningur við málið á Alþingi. Ef upp hefðu komið efasemdir um, t.d. í þingflokki annars stjórnarflokksins, að það væri stuðningur við málið liti það allt öðruvísi út og okkur hefði ekki verið stætt á því að gera tillögu til forseta Íslands um að setja þessi bráðabirgðalög. Svo var ekki, það var afdráttarlaus stuðningur í stjórnarflokkunum og fínn stuðningur í flestum stjórnarandstöðuflokkunum þegar reyndi á málið og leið hjá. Þetta fór því allt eftir eins eðlilegu ferli, held ég, og hugsast gat á svo skömmum tíma. Þarna vorum við að vinna dagana tvo, þrjá og fjóra eftir jarðskjálftana. Við kláruðum þetta mál held ég á fimmta eða fjórða degi frá jarðskjálftum og það var til þess að undirstrika þá brýnu nauðsyn sem bar til að gera þetta.