135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bráðabirgðalögin eru sett níu dögum eftir jarðskjálftana, níu dögum. Ég spyr: Var málið ekki svo brýnt að það hefði þurft að setja lög fyrr? Ef málið þoldi þó þessa bið, níu daga, hvers vegna gat það þá ekki þolað t.d. tveggja daga bið sem mundi leiða af því að kalla þing saman og leggja málið fyrir þingið? Hvers vegna gat ráðherrann ekki á sjöunda degi farið fram á það við forsætisráðherra að hann kallaði þingið saman? Þá hefði það væntanlega verið búið að afgreiða málið tveimur dögum síðar eða sama dag og bráðabirgðalögin voru sett. Þetta eru spurningar sem þarf auðvitað að bera fram og ráðherra þarf að gera grein fyrir svörum við.

Það er freistandi fyrir mann sem fær völd í hendurnar að nota þau. Þess vegna er þessi togstreita milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, og ég er ekkert að beina málinu sérstaklega til viðskiptaráðherra í þessu máli, en þetta er almenn togstreita og almenn tilhneiging og fyrir því höfum við sögulega reynslu hér á Alþingi, almenn tilhneiging hjá ráðherrum að nýta, nota heimildina og teygja fyrir sjálfum sér rökin lengra og lengra til að réttlæta notkunina. Það er tilhneigingin, og það er okkar hlutverk hér á þingi á meðan þessi heimild er í stjórnarskránni, að halda henni sem þrengstri og sem næst því sem stjórnmálaflokkarnir náðu samkomulagi um árið 1991 og ég las hér upp úr framsöguræðu Margrétar Frímannsdóttur sem þá flutti málið í neðri deild Alþingis fyrir hönd allra stjórnmálaflokka og skýrði það. Ég veit að ráðherrann er búinn að lesa þá forskrift og ég er ekki viss um að honum gangi vel að samræma þá skilgreiningu Margrétar (Forseti hringir.) og eigin skilgreiningu nú.