135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi svör rökstyðja það enn frekar að kalla hefði átt þing saman. Í upphafi máls liggur fyrir að það tekur nokkra daga að undirbúa málið. Þá gátu menn tekið þá ákvörðun að kveðja þing saman viku síðar eða svo. Það var nógur tími til þess að kalla þingið saman ef menn hefðu viljað það.

Í öðru lagi hefði verið fyllilega eðlilegt að kalla þing saman til þess að gera því grein fyrir afleiðingum skjálftans. Hér voru náttúruhamfarir á ferðinni og ekkert óeðlilegt við að Alþingi sé gert grein fyrir málum. Mér finnst nánast að þetta hefði átt að vera á hinn veginn, að menn þurfi að rökstyðja af hverju þeim fannst ekki rétt að kalla þingið saman þó ekki væri nema til að gera því grein fyrir stöðu mála án þess að lagabreytingar væru þá í undirbúningi. Það ásamt hinu gefur mér tilefni til þess að vera enn sannfærðari um að menn hefðu átt að kalla þing saman.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar sú ákvörðun var tekin að breyta lögunum, hvert var mat ráðherrans á áhrifum breytingarinnar? Hvað mundi hún kosta sjóðinn, Viðlagatryggingu? Hver var ávinningur tjónþolanna af lögunum? Menn hljóta að hafa lagt eitthvert mat á málið, tjónið og annað slíkt, sem þyrfti þá að bregðast við. Hvert var mat ráðherrans á þeim tíma á því hve tjónið væri mikið og hver áhrif laganna væru þá til þess að draga úr áhrifum tjónsins hjá einstökum tjónþolum?