135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ráðherra beindi til mín fyrirspurn undir lok andsvaranna vitandi að ég gæti ekki svarað fyrirspurninni í andsvörum, ég yrði þá að gera það í ræðu. Ég vil gera stuttlega tilraun til að svara honum svo að það standi ekki eftir að ég hafi ekki svarað og menn haldi kannski að ég hafi ekki viljað svara.

Ég tel mig hafa gert skýra grein fyrir afstöðu minni í málinu, það á ekki að fara á milli mála. En ég get alveg undirstrikað það ef eitthvað er óskýrt í þeim efnum.

Ég hef efasemdir um að lækka sjálfsábyrgðina jafnmikið og gert er ráð fyrir í lögunum. Hún var 85 þús. en er orðin 90 þús. núna frá því í sumar, og það er býsna mikil breyting að fara niður í 20 þús. Ég held að þetta sé of neðarlega. Það muni gera það að verkum að mjög smá tjón verða núna gefin upp, gefin skýrsla og farið fram á bætur og annað slíkt, og umfangið aukist mjög mikið af litlu tilefni.

Hvar línan liggur í þeim efnum, milli þess að skapa ekki of mikið umfang og hins að hafa sjálfsábyrgðina það háa að það sé ósanngjarnt, skal ég ekki segja, en mér finnst þessi tala of lág. Mér finnst hins vegar finnst málið sem slíkt, að breyta sjálfsábyrgðinni, mál sem kemur inn með eðlilegum hætti, ekki vera af þeirri stærðargráðu að ég fari að leggjast í einhvern víking gegn tiltekinni tölu. Ef fyrir liggur einhver ákveðinn vilji í því tel ég einfaldlega ekki svara því að gera harðan ágreining um það. Ég lýsi einungis þeim almennu sjónarmiðum mínum að mér finnst þetta full lágt til þess að vera skynsamlegt að fara svona niður. En breyti menn lágmarki og auki þannig útgjöld tryggingarinnar verða menn samhliða að líta á tekjuhliðina og kanna hvort tekjustofnarnir standi undir þessum nýju útgjöldum og ef þeir gera það ekki verður að taka á því og hækka iðgjaldið. Iðgjaldið borgar tjónið.

Þarna er ráðherrann að leggja til breytingu sem eykur útgjöldin að hans mati um 100 millj. kr. án þess að leggja til neinn tekjustofn á móti því. Hann leggur raunverulega til að gengið sé á eigið fé sjóðsins. Það rýrir stöðu sjóðsins til að mæta tjóni í framtíðinni. Ég er ekki að segja að það rýri hana það mikið að hætta sé á að sjóðurinn sé neitt vanbúinn til að mæta tjóni. En þó er hann verr í stakk búinn til að mæta tjóni í framtíðinni ef gengið er á eigið fé. Mér finnst það almennt ekki skynsamlegt. Mér finnst vanta inn í málið hjá ráðherranum að gera ráð fyrir tekjum á móti útgjöldum. Það vil ég líka segja almennt um málið.

Varðandi matið á tjóninu, um 100 millj. kr. Þær upplýsingar sem ég gat fengið hjá Vátryggingu voru einfaldlega þær að mjög litlar upplýsingar væri að hafa. Málinu sé langt frá því að vera lokið og mjög erfitt sé að fá upplýsingar um hve mörg tjónin eru, hve mikið það sé og hver hlutur tjónþola er í málinu. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það og mér er sagt að þær muni ekki liggja fyrir fyrr en undir áramót. Það er enn ein ástæðan fyrir því að bráðabirgðalög voru kannski ekki það sem þurfti til þess að ákveða hlutina þegar hlutirnir ganga svona seint fyrir sig. Menn gátu alveg þolað einhvern tíma til þess að láta Alþingi um að vinna sitt verk.

Ég fékk þær upplýsingar að sjálfsábyrgðin í því tjóni sem búið væri að gera upp væri 72 millj. samtals. Ég er því ekki viss um, þó ég vilji ekki rengja mat ráðherrans hvað varðar þessar 100 millj., að það sé nákvæm tala. Ég held að áhrif laganna — það kemur í ljós þegar uppgjörinu er lokið — séu miklu minni. Ég held að þetta séu ekki nema nokkrar milljónir króna, kannski tveir, þrír tugir milljóna.

Það er það sem mér finnst vera áhyggjuefni í þessu. Af hverju fara menn þá leið að beita bráðabirgðalagavaldi stjórnarskrárinnar til að bregðast við máli sem er ekki stærra að umfangi en þetta? Jafnvel þó að það séu 100 millj., eftir því sem ráðherrann telur sig best vita, í tjóni sem er kannski talið að verði 5 milljarðar í heildina, er það ekki tilefni til þess að setja bráðabirgðalög af því að brýna nauðsyn beri til. Það get ég ekki séð. Ég get ekki séð að menn geti beitt þeirri röksemd á málið. Það er mín aðalathugasemd við þessi bráðabirgðalög og málsmeðferð að hún sýnir okkur inn í þann heim að ráðherrunum þykir svo þægilegt að geta afgreitt málið sjálfir með bráðabirgðalögum að þeir nota það tæki. Þeir eru komnir út fyrir þann ramma sem Alþingi setti þeim á sínum tíma.

Og þá segi ég, virðulegi forseti: Þetta getur aldrei þróast öðruvísi en áfram í þessa sömu átt. Það verða bara fleiri og fleiri ráðherrar sem leysa minni og minni mál með bráðabirgðalögum. Það er skelfileg framtíðarsýn ef mönnum finnst þetta tæki vera of freistandi og standast það ekki þegar eitthvað gerist að láta til sín taka, sýna vald sitt og sýna afstöðu sína í tilteknu máli. Mér finnst það ekki sú framtíðarsýn sem á að vera. Mér finnst það ekki vera sú þróun sem Alþingi markaði á sínum tíma heldur þvert á móti gegn henni, og ég vil tala gegn því. Ég vil halda ráðherrunum innan við þann ramma sem Alþingi setti árið 1991.

Vandinn er sá að ef þingmenn skrifa upp á þetta eru þeir að breyta því samkomulagi sem gert var árið 1991, og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vitnaði mjög vel til í þingræðu árið 2003. Þá eru þeir með samþykkt sinni að breyta þessu skref fyrir skref og víkka gáttirnar fyrir athafnasemi einstakra ráðherra til að leysa úr einstökum málum á sínu málasviði með því að kasta fram bráðabirgðalögum. Mér finnst sú þróun skelfileg og vil standa gegn henni. Og það á enginn ráðherra að geta búist við því, ef hann ætlar sér að beita bráðabirgðalagavaldi, að hann komist upp með það, komi því þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið. Hann á að þurfa að svitna undan því að þurfa að rökstyðja það að hafa notað þetta. Þannig á það að vera, virðulegi forseti, meðan við búum við þetta ákvæði í stjórnarskránni sem ég vil reyndar taka út úr henni. Ég er á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að taka þetta út. Það sé engin þörf á að Alþingi feli öðrum löggjafarvaldið, Alþingi er alltaf starfhæft. Ef upp koma þær aðstæður í veröldinni að Alþingi verður ekki starfhæft þá held ég að engin ráðuneyti verði starfhæf heldur.