135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að bregðast við síðari ræðu þingmannsins þá greinir okkur algjörlega á um það hvort tilefni hafi staðið til að setja bráðabirgðalög eða ekki. Ég er sannfærður um að tilefnið var nægilegt og til staðar og að brýna nauðsyn hafi borið til.

Þingmaðurinn spurði beint um tekjustofna sjóðsins og útgjöld. Sú tala sem ég nefndi áðan, 100 milljónir, var gróft mat tryggingamanna hjá Viðlagatryggingunni á því hvað þetta gæti kostað sjóðinn. Þá lágu þær upplýsingar sem nú liggja fyrir ekki fyrir. Ég er samt á því að þessi tala sé nokkuð nærri lagi en það á eftir að reyna á það.

En miðað við umfang og stöðu og getu sjóðsins til að bregðast við tjóni hefur þessi breyting ákaflega lítil áhrif á stöðu hans. Það var líka mat framkvæmdastjóra og forustumanna stjórnar sjóðsins, sem fundaði strax um þetta og tók afstöðu til málsins, að ekki þyrfti nýja eða aðra tekjustofna til að mæta þessum auknu útgjöldum sjóðsins sem við mátum vera, eins og ég sagði áðan, upp undir 100 millj. Burðir sjóðsins og geta er mjög mikil sem betur fer. Það er mjög öflugur og glæsilegur sjóður sem við höfum þarna byggt upp til að bregðast við tjóni af völdum náttúruhamfara og þetta hafði afskaplega lítil áhrif á stöðu, stærð, umfang og getu sjóðsins til að bregðast við þessu tjóni eða öðrum.

Að mínu mati var ekki farið út fyrir rammann frá 1991 með neinum hætti. Hann er skýr og afdráttarlaus. En það verður alltaf matsatriði hvort tilefni sé til að setja bráðabirgðalög og hvort við förum út fyrir rammann í hvert skipti. Þingmaðurinn taldi það ekki gert með lax- og silungsveiðinni árið 2003. Við töldum það þá. En við teljum tilefnið fullkomlega til staðar nú.