135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi mat á eiginfjárstöðu sjóðsins af þessari breytingu þá er ekki nóg að líta til kostnaðar sjóðsins af breytingunni í þessu einstaka tilviki í sumar. Það verður þá að reyna að meta hvaða áhrif þetta hefur á útgjöld sjóðsins til lengri tíma í komandi tjónum.

Ef það er mat ráðherrans að ekki þurfi að bregðast við þessum útgjöldum til lengri tíma litið með neinum nýjum tekjustofnum þá segir það mat mér að hann telur áhrifin vera mjög lítil í fjárhæðum talið. Og mjög lítil áhrif af breytingu segir manni að spurningunni um brýna nauðsyn sé auðvitað bara svarað með því. Henni er bara svarað með því mati.

Varðandi hitt að ráðherrann er ósammála mér um hvort brýna nauðsyn hafi borið til þá getur hann ekkert annað. Hann setti bráðabirgðalögin með þessari skírskotun í að brýna nauðsyn bæri til. Ráðherrann fer aldrei að viðurkenna hér í ræðustóli að hans mat hafi ekki verið rétt. Hann mun standa við það fram í rauðan dauðann þannig að ég er ekkert hissa á því að mér takist ekki að telja honum hughvarf í þessu máli. En ég er nokkuð viss um að ég er búinn að telja honum hughvarf svo að hann mun varla beita bráðabirgðalagavaldi meira á þessu kjörtímabili.