135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni, við höfum ákveðið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hlutans í þessu máli og ágreiningurinn stendur um austurrísku leiðina. Við hefðum hins vegar viljað að nefndin hefði unnið málið betur í sumar þannig að við hefðum getað tekið endanlega afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að lögreglan hafi heimild til þess að setja nálgunarbannið og að andmælaréttur fari þá fram fyrir dómi. Við áteljum það sleifarlag sem varð á málinu í vinnu nefndarinnar líka.

Mér finnst síðan skipta máli, hæstv. forseti, að meiri hluti nefndarinnar, og við styðjum það líka, vill að þessi skoðun fari fram úr því sem komið er. Það er ekkert óeðlilegt og það var gott að fá þá brýningu frá allsherjarnefnd að dómsmálaráðherra eigi að láta þessa skoðun fara fram.

En ég tek fram að það er ekki í fyrsta skipti sem allsherjarnefnd biður þennan dómsmálaráðherra að láta slíka skoðun fara fram. Af hverju vísuðum við málinu vorið 2007 til ríkisstjórnarinnar? Til þess að láta þessa skoðun fara fram. Af hverju hefur allsherjarnefnd aldrei hreyft neinum mótmælum við því að Björn Bjarnason, hæstv. dómsmálaráðherra, lét aldrei skoða málið? Ég reyndi í tvígang á síðasta vetri að ræða þessi mál við hæstv. ráðherra og hef ekki fengið mikinn stuðning hjá öðrum þingmönnum í allsherjarnefnd í þeirri viðleitni minni.

Mér finnst fullóljóst á hvern hátt nefndin leggur það til við ráðherrann að skoðunin fari fram. Það er ljóst að nefndin óskar eftir því að skoðun á austurrísku leiðinni eigi að fara fram í ráðuneytinu. Það er hins vegar ekki eins ljóst af nefndarálitinu að skoðunin varðandi nálgunarbannið eigi að fara fram í dómsmálaráðuneytinu því að orðalagið er fullalmennt. En mér þykir gott að vera búin að fá þá yfirlýsingu í ræðum hv. formanns nefndarinnar að hann sé að beina þeirri skoðun sömuleiðis til dómsmálaráðuneytisins. Ég hvet þá líka hv. þingmenn og aðra til þess að ganga eftir því að þessari skoðun í dómsmálaráðuneytinu verði hraðað.