135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ljúka þessu á því að fagna þeim orðum hv. formanns allsherjarnefndar að hann skuli hafa þennan áhuga á því að austurríska leiðin verði skoðuð rækilega með opnum huga og að hann skuli ekki ætla sér að leggjast gegn því að það verði unnið hratt og vel.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og við höfum aldrei deilt um það, að við erum að tala um tvö ólík úrræði, nálgunarbannsúrræðin varðandi það annars vegar og austurrísku leiðina hins vegar. Þessi úrræði gagnast í ólíkum málum og það sem mér svíður er að þar sem heimilisofbeldi brennur, þar sem austurríska leiðin getur virkað sem hemill gegn heimilisofbeldi, að þar skuli enn þurfa að bíða eftir niðurstöðum.

Og það er það sem ég hef verið að gagnrýna hér að við eigum auðvitað á hverjum tíma að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að konur og börn þurfi að flýja heimili sín undan ofbeldi fjölskyldumeðlims. Austurríkismenn sögðu: Það er ekki hægt að gera konur og börn að flóttamönnum í eigin heimalandi í stórum stíl. Við verðum að breyta þessu. Fyrir því höfum við Vinstri græn talað árum saman og nú fagna ég því að það skuli mögulega styttast í að við náum árangri í þessari umræðu og við fáum niðurstöðu sem endar með því að austurríska leiðin verði innleidd hér. Því það á eftir að gagnast þeim konum og þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi, fólki sem ekkert hefur til saka unnið og á ekki að þurfa að flýja heimili sitt.