135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:18]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Já, herra forseti. Hvort þetta séu viljandi útúrsnúningar eða þá að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á ræðu mína áðan veit ég ekki. (JM: Ég hlustaði með athygli.) En það mátti og átti að skilja ræðuna á þann veg að ég var með tilvísun til þessa dóms að leggja áherslu á alvarleika þessa máls. Ég var að brýna þingið og löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og lögreglu og alla sem að þessu komu að vera á varðbergi vegna þess að þessi dómur var ekki kveðinn upp í fortíðinni. Hann var kveðinn upp á þessu ári. (Gripið fram í: Hann vísar til fortíðar.) Hann vísar til fortíðar en þarna var um að ræða málsatvik sem höfðu verið framin og mátti ætla að yrðu áfram.

Við skulum ekki fara að rífast um það hér hvernig komist var að þessari niðurstöðu eða hvernig þessi atvik voru, heldur skulum við sameinumst um það — ég endurtek það hér að ég held að þessi bragarbót á lögunum sé til bóta. Vonandi getur þá bæði þingið og almenningur áttað sig betur á því, dómstólarnir, hvað þarf að vera fyrir hendi þegar dómar eru kveðnir upp um það að nálgunarbann megi ríkja og gilda að því er varðar til varnar brotaþola undir slíkum kringumstæðum.