135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

lyfjalög.

662. mál
[18:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um að fresta gildistöku umdeilds ákvæðis lyfjalaga sem var samþykkt í vor um bann við afslætti yfir búðarborð í apótekum. Við fulltrúar Vinstri grænna í heilbrigðisnefnd vöruðum eindregið við þessu, sérstaklega gildistökuákvæðinu. Mig langar til að vísa til nefndarálits okkar hv. þm. Þuríðar Backman þar sem fjallað er um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenskur lyfjamarkaður einkennist af fákeppni sem bitnar harkalega á þeim sem síst skyldi, þ.e. sjúklingum sem hafa lítið val um hvaða lyf þeir kaupa eða hvort þeir yfir höfuð verða að kaupa lyf. Minni hlutinn telur miður að stjórnvöld skuli ekki telja aðra leið færari til að lækka lyfjaverð á þessu stigi en að banna alla afslætti sem sjúklingar fá nú yfir borðið í apótekum. Einkum er þetta bagalegt fyrir örorku- og ellilífeyrisþega og þá hópa sjúklinga sem eru háðir tilteknum lyfjum ævilangt og hafa jafnvel fyrir atbeina hagsmunasamtaka sinna náð fram afsláttum í lyfjabúðum á tilteknum lyfjum. Eins hafa apótekin fram til þessa veitt slíkum sjúklingum einhvers konar magnafslátt.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur víst að mörgum muni bregða við þegar lyfjaverð hækkar 1. október nk. við gildistöku laganna og hefði talið rétt að vísa þessu ákvæði frumvarpsins til frekari vinnslu í nefnd þeirri sem nú hefur lyfjakostnað landsmanna til skoðunar og kennd er við Pétur H. Blöndal alþingismann.“

Auk þeirrar sem hér stendur skrifaði hv. þingmaður Þuríður Backman undir þetta nefndarálit 28. maí sl.

Með því frumvarpi sem liggur fyrir á þskj. 1326 hefur heilbrigðisnefnd í raun fallist á það sem minni hlutinn lagði eindregið til þótt það sé ekki sagt berum orðum. Batnandi mönnum er best að lifa. Kannski er þetta undantekningin sem sannar regluna um að tillögur og hugmyndir frá stjórnarandstöðu séu aldrei samþykktar. Úr því að þetta var tilefni deilna síðastliðið vor vil ég lýsa því yfir að við styðjum þetta frumvarp og þá breytingu á gildistöku banns við afslætti á lyfjum sem hér er lögð til.

Auðvitað hefði verið eðlilegt að draga þetta ákvæði algjörlega til baka og falla frá því en vel kann að vera að meiri hlutinn komi aftur með tillögu um að fresta gildistökunni. Við sjáum hvað setur en við styðjum þessa frestun.