135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

launamunur kynjanna.

[10:41]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ríkisstjórnin stefnir að því að minnka óútskýrðan launamun hjá ríkinu um helming fyrir lok kjörtímabils, að sérstaklega beri að endurmeta kjör kvenna, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Í vikunni var launakönnun SFR birt en í henni kemur fram að launamunur kynjanna hefur aukist um 3% á milli ára, herra forseti.

Í fyrsta lagi langar mig að benda á hið hróplega misræmi sem birtist í launum kvennastétta og karlastétta. Í öðru lagi kemur fram að launamunur er á milli sambærilegra starfa milli einstaklinga þar sem karlmenn njóta í mun meira mæli umbunar í formi aukagreiðslna og fleiri bónusa. Það er nöturlegt að þessar sláandi fréttir skuli birtast um leið og fréttir um að hæstv. fjármálaráðherra hafi ákveðið að stefna Ljósmæðrafélagi Íslands vegna þess sem hann kallar ólögmætar fjöldauppsagnir. Ljósmæður eru að leita leiðréttinga á kjörum sínum. Þær eru hrein kvennastétt sem konur þessa lands verða að geta treyst á þegar þær ganga með og fæða börn sín.

Hvað mega málaferli gegn ljósmæðrum kosta ríkissjóð? Er þetta launajafnréttisbarátta sem Samfylkingin vill sjá og ætlar jafnaðarmannaflokkur Íslands að láta draga ljósmæður fyrir dómstóla? Þetta er hætt að snúast einvörðungu um kynbundinn launamun og er farið að minna óþægilega á þvingunaraðgerðir, herra forseti. Í vor bauðst ríkisstjórninni gullið tækifæri til að leiðrétta laun þeirra lægst launuðu og hún afþakkaði. Hún lét það fram hjá sér fara.

Á hverju stendur í framkvæmd? Hver eru rökin fyrir því, hverjar eru útskýringarnar og hverjar eru afsakanirnar og réttlætingarnar? Þar sem er vilji, þar er vegur, hefur hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagt. Er bara vegur til að framkvæma, framkvæma, framkvæma í þessum málaflokki að mati Samfylkingarinnar? Eða ætlar hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og jafnaðarmannaflokkur Íslands að sitja undir þessum þvingunum þar sem er ætlast til þess að konur vinni á lægri launum og neita þeim svo um að hætta?

Frú forseti. Ég skora á ráðherrann um að semja strax við ljósmæður.