135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

launamunur kynjanna.

[10:43]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst er kannski rétt að segja frá því að hæstv. utanríkisráðherra semur ekki við ljósmæður, fer ekki með samningsumboð og er ekki við það samningaborð, heldur fer fjármálaráðherra með samninga við opinbera starfsmenn.

Varðandi launamuninn er það rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, óútskýrður launamunur milli kynja er að vaxa. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að það sé að gerast og að það dragi í sundur með konum og körlum hjá ríkinu en á sama tíma sé það ekki að gerast hjá a.m.k. Verslunarmannafélaginu. Ef marka má kannanir er það ekki að gerast á almenna markaðnum, a.m.k. ekki hvað varðar þá félagsmenn. Meira veit ég svo sem ekki um aðra. Þetta segir okkur auðvitað að það eitt skilar ekki árangri að semja í gegnum kjarasamninga þó að auðvitað sé mjög mikilvægt að taka á málum kvennastétta og vonandi er sammæli um það í samfélaginu að það þurfi að lyfta hefðbundnum kvennastéttum. Þá verða auðvitað aðrir líka að bíða á meðan vegna þess að maður gerir ekki allt í einu. Það á að lyfta kvennastéttunum og þá verða aðrir að bíða á meðan og láta sér það lynda.

Hins vegar þarf auðvitað að gera það eftir öðrum leiðum líka. Það eitt að setja peninga inn í kjaramálin er engin trygging fyrir því að þeir lendi hjá konum. Það þarf að gera það með öðrum leiðum líka vegna þess að í gegnum stofnanirnar og fyrirtæki ríkisins eykst launamunurinn. Konur fá ekki í sinn hlut jafnmikið af ýmsum gæðum sem þar eru til úthlutunar og karlarnir. Þetta er tvíþætt mál, annars vegar í gegnum kjarasamningana og hins vegar með sértækum aðgerðum hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins og það er einmitt unnið að því núna (Forseti hringir.) á vegum félagsmálaráðuneytisins að benda á leiðir til að takast á við þetta.