135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

launamunur kynjanna.

[10:47]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það rangt sem hv. þingmaður hélt hér fram áðan í sinni fyrri ræðu að ekki hefði verið unnið að því að leiðrétta laun hinna lægst launuðu í síðustu kjarasamningum. Það er beinlínis rangt vegna þess að þeir samningar miðuðu sérstaklega að því að lyfta launum hinna lægst launuðu.

Það var hins vegar ekki tekið í þeim samningum á þeim óútskýrða launamun sem er á milli kynjanna og það er verkefni sem við þurfum að vinna að og við höfum einsett okkur að vinna að samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Það er ekkert verið að tala inn í framtíðina þegar um það er að ræða. Það er verið að tala um að gera eitthvað í þessum málum og ná verulegum ávinningi þar á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í.)

Það dugir ekki eins og sumir hafa sagt að setja bara peninga inn í kjarasamningana vegna þess að það er engin trygging fyrir því, eins og ég sagði hér áðan, að þeir rati endilega til kvenna. (Gripið fram í.)Það þarf því að setja fram skýrar áætlanir um hvernig við ætlum að vinna á þessum launamun á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og það er það sem unnið er að.