135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

staðgöngumæðrun.

[10:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er málið þess eðlis að tæknin er til staðar þegar um svona hluti er að ræða. Það sem er flókið í þessu ferli er annars vegar lagalegi þátturinn en kannski fyrst og fremst sá siðferðislegi. Vestrænar þjóðir hafa annaðhvort bannað þetta eða leyft að hluta. Það ber að hafa í huga að staðgöngumæður skiptast í tvo hópa, ef þannig má að orði komast: Annars vegar eru þær staðgöngumæður á viðskiptalegum grunni. Þá er það svo að þær fá greitt fyrir að ganga með börnin. Hins vegar verða þær staðgöngumæður af greiðasemi og þar er útlagður kostnaður oftar en ekki greiddur af verðandi foreldrum barnsins.

Þetta er hins vegar, eins og hv. þingmaður nefndi, mál sem við komumst ekki hjá að skoða hér á landi. Ég held að það sé mjög æskilegt að gera það og hef ákveðið að setja af stað hóp til þess að skoða þetta út frá þeim forsendum sem hv. þingmaður nefndi.

Það þarf að skoða málið út frá heilbrigðisþjónustuforsendum, lögfræði og siðfræði. Ég tel líka mikilvægt að kirkjan og almenningur komi að þessu máli. Það er mjög mikilvægt ef við ætlum að fara í breytingar í þessa veru að almenn sátt muni ríkja um þetta mál því að eins og ég nefndi er það fyrst og fremst viðkvæmt út frá siðferðilegum forsendum og mörg álitaefni þar. Þess vegna skiptir máli að sem flestir komi að því að skoða þessi mál og við getum þá náð víðtækri sátt í samfélaginu um breytingar — ef við viljum gera breytingar — til þess að þetta verði leyfilegt.