135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

staðgöngumæðrun.

[10:52]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar og fagna því að málið verði nú sett í þann farveg sem ráðherra boðaði hér. Ég ítreka það að mér finnst afar nauðsynlegt að málið verði skoðað frá öllum hliðum vegna þess að þetta er ekki mál sem neitt okkar getur fullyrt að óathuguðu máli að eigi að heimila eða eigi ekki að heimila.

Ég treysti mér alla vega ekki til þess að setja mig í það dómarasæti að meina fólki sem þráir að eignast barn að fara þessa leið út frá einhverjum sjónarmiðum sem ekki hafa verið fullkönnuð. Eins og í ljós kom í auglýsingunni í Morgunblaðinu í fyrra leitar fólk sér leiða til þess að komast fram hjá þessu vegna þess að staðgöngumæðrun er ekki leyfileg hér. Það er því nauðsynlegt að við hér á hinu háa Alþingi ræðum þetta og að samfélagið allt taki afstöðu til þess hvort þetta eigi að vera heimilað eða ekki. Því fagna ég svari (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra.