135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

staðgöngumæðrun.

[10:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis fyrir fyrirspurnina og innleggið í tengslum við þetta. Það er einn þáttur þessa máls sem er athyglisverður. Hv. þingmaður er búinn að fara vel yfir þau álitaefni og hvernig málið snýr að hinum ýmsu aðilum.

Einn þátturinn er sá að við Íslendingar komumst ekki hjá því að fara yfir málið vegna þess að það er í rauninni mögulegt fyrir Íslendinga að leyfa staðgöngumæðrun núna vegna þeirrar alþjóðavæðingar sem er í gangi. Þetta er bara ein birtingarmynd þess og við munum þurfa að taka á mörgum fleiri málum af þessu tagi. Alþingi verður auðvitað að axla sína ábyrgð á því eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins vegna þess að fólk hefur miklu meira val en áður og getur farið til annarra landa til að sækja þessa þjónustu ef svo ber undir.