135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

umhverfismerki fyrir ábyrgar fiskveiðar.

[11:06]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að það er vinna í gangi varðandi þessi mál og ánægjulegt að það sé að gerast á næstu vikum eða mánuðum. Ég ítreka það að auðvitað ráða hinir erlendu markaðir mjög miklu um það hvernig sjávarafurðir okkar flæða inn og þegar farið er að gera kröfu um álíka merkingar og MSC-merkingar eða aðrar umhverfismerkingar þá þurfum við að standa saman að því, stjórnvöld og innlendir framleiðendur, að slík umhverfismerki séu sett á okkar vörur. En umhverfismerkin ein og sér duga auðvitað ekki, þau verða að byggja á trúverðugleika og trausti og hugsanlega kröfulýsingum eða leiðbeiningum frá FAO eða Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um verklag og ég tel að trúverðugleikinn aukist til muna ef faggildar vottunarstofur koma að því, því að þær eru viðurkenndar á erlendum mörkuðum. Þetta er stórmál gagnvart sjávarafurðum okkar og ég fagna því að málið er í þessum farvegi.