135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

starfsemi Íslandspósts.

[11:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá þessa fyrirspurn um Íslandspóst frá hægri hluta salarins, hin fyrri var frá vinstri hlutanum ef við förum út í samlíkingu við franska þingið, en svona er þetta. Ólíkt hafast menn að, eins og hv. þingmaður sagði er fyrirspurnin um Íslandspóst á talsvert öðrum forsendum en frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni áðan.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að stjórn Íslandspósts ákvað fyrir nokkuð mörgum árum, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var en alla vega á síðasta kjörtímabili Alþingis, að útvíkka og breyta svolítið starfsemi Íslandspósts í takt við tímann. Eins og við ræddum um áðan hefur hinn hefðbundni útburður á bréfum minnkað og þá þarf fyrirtækið sem slíkt að bregðast við en fyrirtækið var auðvitað líka alltaf að flytja böggla og pakka. Það er því ekki rétt sem kom fram í Fréttablaðinu — það vill nú stundum verða þannig að fyrirsagnir eru svolítið öðruvísi en innihald í greinunum — að ríkið undirbúi samkeppni í flutningum. Pósturinn hefur verið töluvert lengi í því og verið með frábæra þjónustu hvað það varðar. Pakkar og bréf sem koma inn fyrir klukkan fjögur á daginn eru yfirleitt komin á leiðarenda daginn eftir í flestöllum landshlutum. Það er ekki rétt sem komið hefur fram í fjölmiðlum og annars staðar að pósturinn sé að byggja pósthús sem séu ekkert annað en flutningamiðstöðvar. Svo er ekki, þetta eru nútímaleg hús sem koma í staðinn fyrir gömul úrelt hús sem þarfnast mikils viðhalds og eru kannski þannig að ganga þarf upp tröppur og inn um einfaldar dyr með pakka og vörur. Pósturinn er eingöngu að byggja nútímaleg hús, 10 pósthús. (Forseti hringir.) Það er ekki rétt, virðulegi forseti, að það sé eingöngu gert til að efla flutningastarfsemi í samkeppni við einkaaðila.