135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

starfsemi Íslandspósts.

[11:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki svo að árið 2008 sé samkeppni að hefjast. Eins og ég gat um áðan hefur pósturinn þjónað með bæði bréf og bögglasendingar alla sína tíð og hefur gert það vel þó að verið sé að breyta því núna með nútímalegum pósthúsum þar sem hægt er að taka vörur inn á hefðbundinn hátt eins og gerist hjá öðrum flutningsaðilum.

Ég held að það sé af því góða að meiri samkeppni sé í flutningastarfsemi á landinu. Þegar maður skoðar flutningsgjöld o.fl. hjá þeim flutningafyrirtækjum sem stærst eru sér maður t.d. að gjaldskrár eru mjög líkar. Ég hef ekki skoðað það gagnvart Íslandspósti en ég held að þetta sé ágætlega gert og sé í lagi. Það er rangt sem kemur fram í fjölmiðlum að Íslandspóstur noti skattfé almennings til að byggja upp eða niðurgreiða flutningastarfsemi. Svo er örugglega ekki, virðulegi forseti.