135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem leiðir af því að samþykkja frestunartillögu er að ríkisstjórnin fær heimild til að beita bráðabirgðalagavaldi. Ég vil því, í ljósi þess að á síðasta sumri beitti ríkisstjórnin því úrræði fremur að setja bráðabirgðalög en að kalla þing saman, inna hæstv. forsætisráðherra eftir því — sem er sá, ef ég skil rétt, sem kveður þingið saman við slíkar aðstæður — hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar, ef eitthvert það tilvik kemur upp á þar til þing kemur næst saman, að velja þá frekar útgáfu bráðabirgðalaga en að kveðja þingið saman.

Ég vil segja, virðulegi forseti, og leggja á það áherslu — ég veit að hæstv. forsætisráðherra var hér á þingi 1991 þegar breyting var gerð á stjórnarskránni og m.a. á ákvæðum um bráðabirgðalagaheimild einstakra ráðherra — að ríkisstjórnin haldi sig innan þess ramma sem stjórnmálaflokkarnir komu sér þá saman um að gilda ætti um útgáfu bráðabirgðalaga. Mér finnst einsýnt að ríkisstjórnin hafi farið út fyrir þann ramma árið 2003, árið 2007 og aftur árið 2008. Mér finnst vera í gangi þróun í þá veru að einstakir ráðherrar freistist til að leysa mál sem þeir telja nauðsynlegt að bregðast við með breytingu á lögum á þann hátt að þeir sjálfir setji lögin en ekki Alþingi.

Ég held að við verðum að sameinast um þá niðurstöðu sem varð 1991 að hafa það á hinn veginn að menn leggi sig fram um að leggja málin fyrir þingið og ætli því að setja lögin.