135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vekur máls á mikilvægu efni, sem er heimild til útgáfu bráðabirgðalaga. Hæstv. forsætisráðherra svarar því með sama hætti og hann hefur áður gert þegar þessi mál hefur borið á góma, nefnilega á þann veg að ríkisstjórnin geti ekki ekki gefið frá sér bráðabirgðalagaheimildina enda sé hún ákveðin í stjórnarskrá og slíkar aðstæður geti komið upp í samfélaginu að nauðsynlegt geti reynst að gefa út bráðabirgðalög enda beri brýna nauðsyn til eins og sagt er.

Um þetta er út af fyrir sig og þarf ekki að vera ágreiningur en ég held þó að menn geti mjög oft greint á um það hver skilgreiningin er á þessari brýnu nauðsyn, hvort það þurfi að vera hálfgert þjóðargrand sem blasir við og að ríkisstjórnin þurfi þess vegna að grípa til þessa ráðs eða hvort mönnum sé heldur laus höndin, ef svo má segja, við að nota bráðabirgðalagaákvæðið.

Staðreyndin er sú að í dag er mjög auðvelt að kveðja Alþingi saman. Við erum í nýjum aðstæðum. Þingið hefur verið að störfum í septembermánuði og ekki er nema rétt rúmur hálfur mánuður þar til reglulegt þing kemur saman á nýjan leik. Ekki ættu að vera nein vandkvæði á að kveðja þingið saman til fundar ef einhverjar slíkar aðstæður koma upp nema um hreint neyðarástand sé að ræða.

Við höfum rætt í morgun um málefni sem brennur á mörgum í samfélaginu og það er staðan í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins. Þær fréttir bárust okkur í gærkvöldi eða í morgun að fjármálaráðherra hefði ákveðið að stefna ljósmæðrum fyrir það sem hann kallar ólögmætar uppsagnir. Það er framlag hans og innlegg inn í þessa kjaradeilu sem var líka rædd hér fyrir nokkrum dögum og þá stóð upp úr hverjum manni sem tók til máls, jafnt úr stjórnarandstöðuflokkum sem stjórnarflokkum, að staðan væri grafalvarleg og að samúð allra væri með ljósmæðrum í þessari deilu — að brýnt væri að rétta hlut þessarar stéttar og þegar verið væri að tala um að vinna bug á kynbundnum launamun væri ekki síst mikilvægt að taka á málefnum stéttar eins og ljósmæðra sem er alfarið kvennastétt.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði það hér í svari í morgun að ekki væri allt fengið með því að setja viðbótarfjármagn inn í kjarasamninga því að ekki væri víst að það mundi skila sér til kvennastétta eða kvenna í viðkomandi stétt. Nú vill svo til að þau rök eiga ekki við í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir við ljósmæður, sem eru að fullu kvennastétt. Ég fæ því ekki betur séð en að hægt sé að vinna á þeim kynbundna launamun sem ríkir m.a. með því að taka til hendinni og semja við ljósmæður.

Ég tek þetta mál hér upp í tengslum við umræðuna um hugsanlega notkun bráðabirgðalagavaldsins. Þegar fjármálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að fara með þetta mál fyrir dómstóla er stutt í að menn velti því fyrir sér hvort ríkisstjórnin muni hugsanlega grípa til lagasetningar í þessari kjaradeilu.

Nú, þegar þessi tillaga er til umfjöllunar, um heimild til að fresta fundum Alþingis, og að Alþingi komi þá saman aftur 1. október, er þetta áleitin spurning. Ég vil af því tilefni inna hæstv. forsætisráðherra eftir því — hann sagði reyndar í svari sínu áðan við máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að ríkisstjórnin hefði engin áform á prjónunum um að beita bráðabirgðalagavopninu eða valdinu en hann vildi ekki útiloka að slíkar aðstæður gætu komið upp. Ég vil því inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort það hafi verið til umræðu og hvort það komi yfirleitt til álita af hans hálfu að beita bráðabirgðalagavaldinu í kjaradeilunni við ljósmæður á þeim tíma sem líður þar til þing kemur saman á nýjan leik. Eða mundi hann frekar beita sér fyrir því að þingið yrði einfaldlega kallað saman ef slíkar aðstæður koma upp að með einhverjum hætti þurfi að hlutast til um þessa kjaradeilu — við vonum svo sannarlega að ekki þurfi að koma til þess.

Fjármálaráðherra starfar ekki einn — hann er ekki eyland — heldur á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna beggja, þar með talið Samfylkingarinnar. Þó að samningsumboðið sé ekki hjá hæstv. utanríkisráðherra, eins og hún tók fram hér í morgun, er gjörningur ráðherrans að sjálfsögðu á ábyrgð beggja stjórnarflokka, hlýtur ávallt að vera svo því að enginn ráðherra getur starfað ef hann hefur ekki stuðning og traust þingmeirihlutans — (Gripið fram í: … málssóknin líka …) og málssóknin líka. Málssóknin er að sjálfsögðu á ábyrgð beggja stjórnarflokkanna og menn geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð þó að samningsumboðið sé hjá fjármálaráðherra.

Ég vil því inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort til álita komi að hans dómi að beita bráðabirgðalagavopninu til að höggva á hnútinn í kjaradeilu ríkisins og ljósmæðra. Ég tel mjög mikilvægt, ef við ætlum að samþykkja hér að fresta fundum Alþingis, að svar fáist við þeirri spurningu.