135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:27]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gáum aðeins að því hvaða mál er hér til umræðu, til einnar umræðu. Það er tillaga um frestun funda Alþingis. Þá tillögu flyt ég í samræmi við skýr ákvæði reglna þingsins, þingskapanna. Við höfum komið okkur saman um það og það er í nýju þingskapalögunum að þingið hittist hér í hálfan mánuð í byrjun september, ljúki síðan störfum og komi aftur til starfa 1. október. Það er ekkert annað sem felst í þessari tillögu. Það er óvenjulegt, verð ég að segja, að blanda inn í umræður um hana alls kyns málum sem eru í gangi í þjóðfélaginu. Það er hægt að ræða, og var gert í morgun, undir öðrum efnisliðum á dagskrá þingsins.

Ég vil hins vegar svara spurningu þingmannsins alveg skýrt. Ekki hefur komið til álita, hefur ekki verið rætt og engin áform um það, að beita bráðabirgðalagavaldinu í kjaradeilu ljósmæðra. Ég skal endurtaka þetta svar, svarið er: Nei, ekkert slíkt stendur til eða kemur til álita að mínum dómi.

Ég vil bæta því við, virðulegi forseti, að það er hlutverk samningsaðilanna að leysa þessa deilu. Ábyrgð þeirra er mikil, þeir geta ekki vikið sér undan henni og allra síst með því að skáka í skjóli bráðabirgðalagavalds ríkisstjórnarinnar. Þessi deila er á viðkvæmum punkti. Umræður á Alþingi hjálpa ekki til við að leysa þessa deilu frekar en aðrar kjaradeilur og ég höfða til samningsaðilanna sjálfra að leysa málið undir traustri og öruggri forustu sáttasemjara ríkisins.