135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fram hefur komið í umfjöllun málsins að nægur tími var fyrir ríkisstjórnina til að kveðja saman Alþingi frá því að hún taldi nauðsynlegt að setja ný lög. Það hefur líka komið fram að óverulegar breytingar voru gerðar á löggjöfinni um Viðlagatryggingu Íslands sem höfðu engin áhrif á tjón þeirra sem urðu fyrir mestu tjóni og aðeins óveruleg áhrif á tjón þeirra sem urðu fyrir litlu tjóni á innbúi. Í þriðja lagi hefur þróunin síðan lögin voru sett verið þannig að laun hafa hækkað meira en byggingarvísitala þannig að menn eru betur í stakk búnir til að bera þá sjálfsábyrgð nú sem var ákveðin á sínum tíma.

Öll þessi atriði leiða til þeirrar niðurstöðu að ekki er fyrir hendi sú brýna nauðsyn sem getur réttlætt það að ríkisstjórnin setji bráðabirgðalög. Þess vegna greiði ég atkvæði (Forseti hringir.) gegn þessum lögum. Það hefði átt að kalla Alþingi saman til þess að leggja frumvarp fyrir það.