135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:57]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að bæta lögin um nálgunarbann til muna með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur hér fram.

Varðandi austurrísku leiðina tek ég fram að ég get vel tekið undir að það er margt sem mælir með því að við tökum hana upp en við erum einfaldlega ekki tilbúin að taka það skref núna. Þetta mál hefur t.d. ekki farið til umsagnar á þessu þingi. Framsögumaður Vinstri grænna viðurkenndi í umræðunni í gær að lítið væri af gögnum um þetta mál.

Þegar kemur að lagasetningu, sérstaklega í þessum málaflokki, þurfum við að hafa allar staðreyndir á hreinu, við þurfum að hafa orðalagið skothelt, við höfum það því miður ekki. Við erum hins vegar í meiri hlutanum að kalla eftir að ráðuneytið fari í könnun á því hvernig reynslan hefur verið á hinum Norðurlöndunum, hvernig þetta úrræði muni aðlagast eða hvernig þetta úrræði muni falla að íslensku réttarfari og síðan á dómsmálaráðuneytið að leggja afrakstur þeirrar vinnu fyrir allsherjarnefndina. Við erum því ekki að loka málinu, við erum að taka skref fram á við hvað þetta varðar þannig að því miður getum við ekki stutt breytingartillögu Vinstri grænna því að hún hefur ekki fengið þá umfjöllun sem henni ber. Við þurfum að vanda lagasetninguna, við þurfum að sýna lögunum ákveðna virðingu, við þurfum að sýna breytingartillögum ákveðna virðingu. (Forseti hringir.) Þessi vinna er bara einfaldlega eftir, hv. þingmenn.