135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:58]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í nefndaráliti meiri hlutans felast tvær orðsendingar. Önnur er til dómsmálaráðuneytis, að skoðuð sé reynsla af hinni austurrísku leið og hin er sú að skoðuð sé reynsla af því að vald til þess að leggja á nálgunarbann færist til lögreglu.

Ég stóð að þessu áliti meiri hlutans í nefndinni með fyrirvara. Fyrirvarinn var sá að ég hefði talið rétt að þetta vald færi til lögreglu, þannig kæmist það hraðar á og með skilvirkari hætti og að það færi beint til dómstóla þar á eftir og í því fælist andmælaréttur þess sem væri meintur brotamaður í þessu máli.

Ég vil þess vegna ítreka það að í þessu felast tvær orðsendingar og ég vil ítreka það að ástæða er til að leggja áherslu á að þessi skoðun fari fram hratt og örugglega í dómsmálaráðuneytinu, (Forseti hringir.) ekki bara á austurrísku leiðinni heldur líka á því að færa þetta vald til lögreglu (Forseti hringir.) svo að meintir brotamenn geti ekki viljandi haft lögin að engu með því að tefja málið með því að mæta ekki og fara í felur.