136. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[14:31]
Horfa

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Jósef H. Þorgeirsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri og alþingismaður, lést 23. september. Hann var 72 ára að aldri.

Jósef Halldór Þorgeirsson fæddist á Akranesi 16. júlí 1936. Foreldrar hans voru hjónin Svanlaug Sigurðardóttir húsmóðir og Þorgeir Jósefsson forstjóri. Jósef átti ævilangt heimili á Akranesi.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1956 og eftir ársnám í Dartmouth College í Bandaríkjunum hóf hann að lesa lög í Háskóla Íslands og lauk lögfræðiprófi 1963. Síðar fékk hann réttindi sem héraðsdómslögmaður.

Jósef H. Þorgeirsson starfaði við fyrirtæki föður síns, Dráttarbraut Akraness og vélsmiðjuna Þorgeir og Ellert hf., á Akranesi eftir að námi hans lauk og rak jafnframt þá, og eins síðar, lögfræðiskrifstofu á Akranesi.

Áhugi Jósefs á stjórnmálum og félagsmálastörfum hófst þegar á unga aldri. Hann var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta 1958–1959 og varð síðar virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi allt til dauðadags. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi þar 1966 og sat í fjögur kjörtímabil, eða 16 ár. Sat hann í fjölmörgum nefndum og stjórnum á vegum Akranessbæjar. Hann var árin 1975–1979 í stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf. og í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar frá 1979 þar sem hann beitti sér fyrir þeirri mikilvægu framkvæmd að tryggja virkjun jarðvarma Deildartunguhvers til hagsbóta fyrir íbúa héraðsins. Það var því á grunni reynslu úr atvinnulífi og löngu flokksstarfi að hann vann til sætis ofarlega í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi haustið 1977 og var svo í kosningunum sumarið 1978 kosinn á Alþingi sem landskjörinn alþingismaður. Hann var endurkjörinn í kosningunum í desember 1979 en kaus að draga sig í hlé og var ekki í framboði á ný við kosningarnar vorið 1983. Hann sat á sex þingum alls.

Eftir að þingmennsku lauk varð Jósef á ný framkvæmdastjóri hjá Þorgeiri og Ellerti hf. fram til ársins 1991. Hann var á þeim árum formaður Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, formaður Sambands málm- og skipasmiðja og sat í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands. Síðustu starfsár sín, frá 1995 til 2004, var hann deildarstjóri í samgönguráðuneytinu.

Jósef H. Þorgeirsson var áberandi í atvinnulífi á Akranesi og átti góðan hlut í þeim umsvifum sem þar voru í skipasmíðaiðnaði, einkum á 7., 8. og fram á 9. áratug síðustu aldar, samfellt um aldarfjórðungsskeið. Hann var mælskur á fundum, einstaklega orðheppinn, ágætlega ritfær og öflugur forustumaður síns flokks í bæjarfélaginu. Vinsælda og trausts samferðarmanna sinna naut hann, var einstakur sögumaður, hrókur alls fagnaðar á mannamótum og var lengi forustumaður Lions-hreyfingarinnar á Íslandi. Í störfum sínum fyrir samgönguráðuneytið, ráðuneyti siglingamála, naut hann reynslu sinnar af vettvangi skipasmíðaiðnaðarins og margháttaðra samskipta við sjómenn og útvegsmenn.

Ég bið þingheim að minnast Jósefs H. Þorgeirssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

 

[Strengjakvartett flutti lagið Ísland ögrum skorið.]