136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:40]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þjóðin er slegin yfir stöðu mála í landinu og kvíði og áhyggjur eru gestir í hverju húsi. Hlutverk stjórnmálamannanna er að róa almenning með aðgerðum og almennri uppörvun en umfram allt að horfast í augu við staðreyndir. Hæstv. forsætisráðherra hefur hér í kvöld flutt þjóðinni stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Ég gat enga stefnu fundið. Missti ég af einhverju, einhverri aðgerðaáætlun sem forsætisráðherra setti fram eða hvað?

Hæstv. forseti. Þúsundir Íslendinga sitja nú daprir og ráðalausir í stofunni heima. Stefnuræðan var um ekki neitt. Um víða veröld eru ríkisstjórnir og þjóðþing að ná saman um björgunaraðgerðir til að bjarga sínu fólki, koma sínu fjármálakerfi í gang til þess að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og fjöldaatvinnuleysi og gjaldþrot ríði yfir. Þessar aðgerðir fara fram fyrir opnum tjöldum, ekki í felum. Hér hefur almenningur tilfinningu fyrir því að verið sé að vinna myrkraverk í skjóli nætur, leynifundir sem vekja tortryggni og illdeilur eru haldnir. Bandaríkjaþing hefur allt sest undir árar til að róa lífróður til að verja sína þjóð. 700 milljarða dala björgunarleiðangur vitnar um vilja forsetans og ríkisstjórnarinnar þar. Vinaþjóðir kasta á milli sín líflínu. Ísland er ekki á blaði.

Hæstv. forseti. Fyrir ári síðan gerðu allar þjóðir heimsins sér grein fyrir því að mikill vandi var í aðsigi, þá var fjármálakreppa að búa um sig. Gjafvextir heimsins voru að breytast í okurvexti og fjármálaþurrð. Bandaríkjamenn sögðu þá að ógnin væri svo stór að nokkrar milljónir manna gætu misst hús sín og eignir. Hér vöruðu margir við því sama, þar á meðal helgirit sjálfstæðismanna, Morgunblaðið. Við framsóknarmenn töldum vandann risavaxinn. Ég ræddi þjóðstjórn og þjóðarsáttarborð þar sem allir lykilmenn þjóðarinnar ættu sér samstarf. Hæstv. forsætisráðherra brosti þá í sakleysi sínu og sagði að allt mundi fara á besta veg, botninum væri náð, sagði hann á þorra. Reyndist hann spámaður?

Hver er staðan nú, hæstv. forseti? Mesta verðbólga í áratugi. Gengi íslensku krónunnar er kolfallið, verðgildi hennar er helmingi minna en fyrir ári síðan. Stýrivextir Seðlabankans hafa verið keyrðir upp og eru þeir hæstu á byggðu bóli. Fólkið í landinu horfir agndofa á eignir sínar brenna upp, unga skulduga fólkið okkar ræður ekki við afborganir sínar sem hafa hækkað í tugum þúsunda um hver mánaðamót. Heimili og fyrirtæki loga því miður stafnanna á milli. Hvar er slökkviliðið? Hvar er björgunarsveitin? Hún situr alla vega ekki á bekkjum ráðherranna, því að hér er hnípin þjóð í vanda án úrræða og forustu, því miður.

Ég hef aldrei efast um mannkosti hæstv. forsætisráðherra. Þeim mun sárara er að sjá hann úrræðalausan, stefnulausan í alvarlegasta efnahagsróti Íslendinga fyrr og síðar. Samfylkingin er hætt störfum, hún er ekki með. Ríkisstjórnin er setustjórn með hendur í skauti. Ég skil svo sem vandræði forsætisráðherra, það er ekki róið í takt, það er engin stefna uppi, þjóðarskútan er á reki. Þið hafið öll fylgst með aðgerðaleysinu, seint í rassinn gripið, engin alvara nema þá helst að koma Íslandi í öryggisráðið. Þar er hvorki sparað fé né ferðalög.

Hæstv. forseti. Í kvöld ætlaðist íslenska þjóðin til að stefnuræðan boðaði úrræði og samstöðu, nýjan þjóðarvilja. Það eru allir að tapa í aðgerðaleysinu, margir tapa miklu af miklum efnum, aðrir tapa miklu af litlum en dýrmætum efnum alþýðumannsins sem stritað var fyrir með svita og erfiði. Þessi staða er þyngri en tárum taki. Maturinn, bensínið, vextirnir, nauðþurftirnar upp úr öllu valdi, kjarasamningar launafólksins að engu orðnir, atvinnuleysi blasir við íslensku samfélagi, atvinnuleysi sem Framsóknarflokkurinn hafði útrýmt. Vaknið, stjórnarliðar, vaknið. Samviska ykkar má ekki sofa við þessar aðstæður þegar við öll verðum að spyrja okkur: Hvað get ég gert til að bjarga efnahag fólksins í landinu?

Við verðum að bjarga því sem bjargað verður. Hvar stæðu nú skuldugir íbúðareigendur ef við framsóknarmenn hefðum ekki staðið vörð um íbúðalánasjóð fólksins? Nú þarf að stækka hlutverk Íbúðalánasjóðs til að bjarga mörgum frá miklum erfiðleikum. Ég treysti hæstv. félagsmálaráðherra í þeim efnum. Við verðum að skipa strax hóp sérfræðinga til að vinna með okkur stjórnmálamönnunum, sérfræðinga sem geta greint flókna stöðu og hvaða ráð megi best duga. Við verðum að vita hvaða áhrif ein tiltekin aðgerð hefur í för með sér fyrir heildarstöðuna og einstaka þætti en það er ekki alltaf augljóst.

Áleitin spurning hefur vaknað, hvort inngrip ríkisvaldsins í fjármálakerfið um síðustu helgi sé þess valdandi að yfir Ísland sé skollin fjármálakreppa. Við verðum að kalla saman að einu borði verkalýðshreyfinguna, samtök atvinnurekenda og fjármálafyrirtækja, stjórnmálamenn og aðra aðila. Fyrsti fundur ætti að vera á morgun og síðan á hverjum degi. Þetta verður ekki leyst á einum fundi, menn verða að stíga skref fyrir skref, hönd styðji hönd og fótur fót. Þetta er vandasamt verk. Það ríkir nefnilega hálfgert neyðarástand, því miður.

Menn halda kannski að þetta séu óþarfar áhyggjur og vonandi er það, en menn héldu líka að staðan í dag mundi aldrei líta dagsins ljós og ef menn gera ráðstafanir er það alltaf til góðs. Brýnt verkefni sem þarf að vinna að mínu mati er að endurskoða strax peningastefnuna — það er hún sem er gjaldþrota í höndum ríkisstjórnar og Seðlabanka — endurskoða grundvallarstefnu Seðlabankans um verðbólgumarkmiðin og flotgengið, hefja tafarlausar aðgerðir í samráði við erlenda seðlabanka og vinaþjóðir um að margfalda gjaldeyrisvarasjóðinn. Tryggja þarf streymi erlends gjaldeyris inn í landið strax, hæstv. forsætisráðherra, það vantar gjaldeyri. Í því liggur mesti áfellisdómur yfir störfum ríkisstjórnarinnar. Ef sá vandi verður ekki leystur brestur á kransæðastífla í atvinnulífinu, það yrði alvarlegur jarðskjálfti í efnahagslífi Íslendinga. Við framsóknarmenn teljum að nú verði að spýta í lófana og róa lífróður, að allur heimur skilji að við ætlum að róa í takt, róa lífróður til að bjarga fólki og fyrirtækjum á Íslandi.

Hæstv. forseti. Í raun hefur Ísland góða möguleika til langframa til að vinna sig út úr vandanum. Þar er ég sammála hæstv. forsætisráðherra. Við höfum sem betur fer haldið uppi framleiðslu- og útflutningsstefnu á síðustu áratugum. Afturhaldsmenn hafa ekki stýrt þjóðarskútunni. Hvar værum við stödd með gjaldeyrisöflun ef ekki hefði verið virkjað og ráðist í stóriðnað? Ætli Samfylkingin í ríkisstjórn sé nú ekki fegin þeim gjaldeyri sem fæst fyrir álið í dag?

Ég hef sannfærst um það á ferðalagi mínu um landið að tillögur Hafrannsóknastofnunar orka tvímælis. Sjómenn hafa sagt mér að hafið sé fullt af þorski, hægt sé að veiða 200 þús. tonn af ýsu, segja þeir, og 200–300 þús. tonn af þorski. Fiskifræði sjómannsins er grundvölluð á reynslu og þekkingu.

Ísland er grænasta land heimsins, að vísu ekki vinstri grænt. Í orkulindum og fallvötnum eigum við ómældan auð fyrir komandi kynslóðir. Við Íslendingar þurfum ekki að kvíða myrkri og kulda eins og þjóðir sem eru háðar olíu og gasi. Við getum enn fremur treyst á sterkan íslenskan landbúnað og öfluga bændur sem sjá okkur fyrir mjólkurvörum, kjöti og grænmeti, við eigum sæti við háborð gæðanna í matvælum hvað sem gerist á erlendum mörkuðum. Fæðuöryggi er stórmál eyþjóðar, enn er það svo að hollur er heimafenginn baggi.

Við núverandi aðstæður í peningamálum eigum við Íslendingar aðeins einn kost, að skapa jafnvægi og stöðugleika, skapa traust á íslensku efnahagslífi. Evra og gjaldmiðilssamstarf er svo ákvörðun sem tekin verður síðar. Brýnast af öllu er að lækka stýrivexti Seðlabankans úr 15,5% niður í 5% fyrir jól. Ég tel að Maastricht-skilyrðin sem ríki verða að uppfylla til að taka upp evru sé hagsældarleið horft til framtíðar. Við eigum enga aðra leið nú en að verja krónuna. Hins vegar eigum við að vinna í okkar peningamálastefnu eins og við séum á leið inn í myntbandalagið. Öll þau atriði eru grundvöllur batnandi lífskjara. Ísland setji sér metnaðarfull áform um lága verðbólgu, lítinn sem engan fjárlagahalla, skuldir ríkissjóðs í lágmarki, stöðugleika í gengisskráningu, að stýrivextirnir hér verði ekki hærri en í bestu löndum Evrópu. Þegar þessu marki verður náð eigum við alla möguleika og frjálst val um framtíðina. Slík markmið eiga að vera okkar leiðarljós í peningamálastefnunni. Í styrkleika eru okkur allar leiðir opnar, í veikleika erum við fórnarlömb. Það þekkja Glitnismenn í sínum erfiðleikum, lánsfjárskorturinn getur velt fleiri fyrirtækjum en Glitni, krónan er enn í frjálsu falli.

Góðir Íslendingar. Við framsóknarmenn skorumst ekki undan ábyrgð. Við viljum vinna Íslandi allt það gagn sem réttir þjóðarbúskapinn af. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er grafalvarlegt mál. Samvinna og samstarf er nú ákall frá öllum aðilum og forustumönnum. Snúum vörn í sókn, það gera allar sigursælar þjóðir. — Góðar stundir.