136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:18]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er engu logið sem þingmenn hafa sagt hér í kvöld að þetta eru alvarlegir tímar og það eru erfiðleikar fram undan og það er hlustað á það sem þingmenn hafa að segja hér í kvöld. Það er ekki bara hlustað á okkur sem sitjum á bekkjum stjórnarinnar. Það er líka hlustað á stjórnarandstöðuna.

Ég hef hér setið í kvöld og hlustað á tvo formenn stærstu stjórnarandstöðuflokkanna og ég verð að segja það að þó að ég hafi ekki verið í hópi æstustu aðdáenda Steingríms J. Sigfússonar og kannski stundum fyrir hans smekk farið fulldult með þá aðdáun sem ég kann á stundum í leyni að hafa haft þá ætla ég að hrósa honum fyrir ræðu hans. Það var allt annað að hlusta á Steingrím Sigfússon en formann Framsóknarflokksins, Guðna Ágústsson, hérna áðan. Steingrímur talaði kjark í þjóðina. Guðni Ágústsson talaði kjarkinn úr þjóðinni. Steingrímur Sigfússon bauð upp á samráð, Guðni Ágústsson réðst með svigurmælum að forsætisráðherra. Það er honum ekki til sóma. Lægst komst þó formaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni þegar hann dylgjaði um það að ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi Glitni hefði kallað yfir þjóðina þá fjármálakreppu sem hugsanlega er að ríða yfir núna.

Formaður í stjórnmálaflokki getur ekki talað í dylgjum. Hann verður að tala skýrt. Hvað vildi Guðni Ágústsson gera? Vildi Guðni Ágústsson kannski láta Glitni fara í þrot með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefði kallað yfir íslensku þjóðina eða vildi Guðni Ágústsson bregða sér í gervi manns sem stendur við spilavíti í Mónakó og leika rúllettu með 85 milljarða úr sjóðum skattborgara? Vildi hann veita Glitni lán án trygginga sem Seðlabankinn taldi gildar? Það er þá kannski það eina sem formaður Framsóknarflokksins hefur verið sammála Valgerði Sverrisdóttur um því að hún er eini alþingismaðurinn fram að ræðu formanns Framsóknarflokksins sem vildi velja leið rúllettunnar.

Staðreyndin var sú að ríkisstjórnin þurfti að tefla hraðskák þegar atburðarásin með Glitni gekk yfir. Hún tókst á við það verkefni af festu og með ábyrgð. Hún var að hugsa um hagsmuni almennings og hún var að treysta fjármálalegan stöðugleika í landinu og ekki síst var hún að vernda sparifjáreigendur.

Af því að vinur minn, Steingrímur J. Sigfússon, spurði áðan hvað verði um innstæður sparifjáreigenda þá lýsi ég því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þær verða varðar. Við þekkjum öll í þessum sölum að þegar erfiðleikar ganga yfir þá birtast oft óvæntar lausnir. Ég tel að núna þurfi að skapa víðtæka sátt um nýtt siglingarkort við þessar gjörbreyttu aðstæður. Þar þurfa að koma að ríkisstjórnin, Samtök atvinnurekenda, ASÍ, BSRB og það þarf allt að vera undir, Seðlabankinn og peningastefnan, myntin og Evrópa, og allt þarf að lúta því lögmáli sem forsætisráðherra hefur lagt, þar sem allt ræðst af bláköldu hagsmunamati.

Það kann vel að vera að sú staða sem nú er komin upp breyti sýn fjölmargra til dæmis á það hvert beri að stefna varðandi Evrópu. En þó að hrikti í rá og reiða, herra forseti, og þó það sé rétt hjá Steingrími J. Sigfússyni að sennilega hafi íslenska þjóðin ekki áður siglt svona ólgusjó er undirstaðan samt sem áður traust. Aflvélar atvinnulífsins sem skapa beinharðan gjaldeyri hafa sennilega aldrei verið betur á sig komnar en núna. Svo vill líka til að ríkisstjórnin hefur verið að leggja góða vaxtarsprota inn í framtíðina og þó að það séu erfiðleikar er þessi ríkisstjórn í dag að verja meiri peningum á öllum stigum skólakerfisins undir forustu öflugs menntamálaráðherra en nokkru sinni hefur verið gert áður. Sömuleiðis er verið af hálfu ríkisstjórnarinnar að ráðast í umfangsmeira átak í samgöngumálum undir forustu öflugs samgönguráðherra en nokkru sinni fyrr. Það er verið að ráðast í gjörbyltingu á fjarskiptakerfunum, háhraðatengingum um allt land og sömuleiðis er verið að ráðast í meiri og umfangsmeiri uppbyggingu á raforkukerfinu en nokkru sinni fyrr.

Það vill svo til að kraftvélarnar sem ég nefndi áðan eru betur á sig komnar en oft áður, meðal annars vegna þess að þar birtist þó jákvæð hlið á þeim breytingum sem hefur orðið á genginu. Það vill svo til að í sjávarútvegi hafa tekjur miðað við afla upp úr sjó sennilega aldrei verið meiri. Ferðamannaiðnaðurinn sem vinnur kraftaverk á hverjum degi við að búa til gjaldeyri hefur sennilega aldrei verið þróttmeiri. Það sýnir kannski framfarahug þessarar ríkisstjórnar að þrátt fyrir erfiðleikana sem allir tala hér um er hún að setja fimmfalt meira í markaðssókn fyrir ferðaþjónustuna en áður.

Sömuleiðis erum við að leggja inn í framtíðina sprota sem skipta máli. Þessi ríkisstjórn er að gjörbreyta umhverfi sprotafyrirtækjanna sem eru mjólkurkýr morgundagsins. Hún siglir hraðbyri í að tvöfalda framlög til Vísindasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Hún hefur þegar gengið frá umfangsmiklum fjárfestingasjóði sem á að liðsinna þessum sprotafyrirtækjum og er upp á 4,6 milljarða. Á morgun mun ég ásamt tveim öðrum ráðherrum taka þátt í að stofna hátæknivettvang sem á að skýra sýnina til næstu tíu ára.

Ágætu landsmenn. Það eru erfiðleikar en við eigum ekki að láta tala úr okkur kjarkinn. Aflvélarnar ganga vel. Undirstaðan er traust og við höfum líka vaxtarmikla sprota sem læsa sig inn í framtíðina. Auðvitað munum við vinna okkur út úr þessu. Það tekur tíma en það gerist.