136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:45]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Góðir landsmenn. Heimilin og almenningur í landinu eru nú að súpa seyðið af óheftri markaðshyggju og óábyrgri einkavæðingu. Þessi blinda stefna Sjálfstæðisflokksins síðustu 17 ár er gjaldþrota. Nú verðum við að stokka upp á nýtt.

Ég ræddi nýlega við þrjá bændur á Vestfjörðum sem fóru út í það fyrir fjórum árum að endurbyggja fjósin sín, taka upp nýja tækni. Það gerðu þeir að eindregnum ráðleggingum sérfræðinga. Nú fer ríflega helmingur af árstekjum þeirra í vexti og verðbætur. Áburðarverð, öll aðföng og flutningskostnaður hafa hækkað stórlega. Þeir, eins og svo fjölmargir aðrir, eru komnir í þrot. Sama gildir um smábátasjómenn með skertan kvóta, þeir og fjölmargir aðrir eru komnir í þrot. Fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, sérstaklega á landsbyggðinni, hefur verið kollvarpað. Þau geta ekki sinnt skyldum sínum ef ekkert verður að gert.

Það vita allir sem vilja vita að ofurauðmenn fleyttu rjómann af svonefndu góðæri, góðæri sem stórir hópar samfélags okkar fengu engan skerf af, ekki nokkurn. Þessir ofurauðmenn hirtu úr samfélaginu milljarða í eigin vasa og fengu síðan skattalækkanir í kaupbæti. Almenningur situr nú hins vegar eftir með sárt ennið, býr við óðaverðbólgu, okurvexti og kaupmáttarrýrnun. Íbúðakaupendur standa frammi fyrir því í dag að mánaðarlegar afborganir þeirra hafa hækkað um 30–60%. Við blasa gjaldþrot og nauðungarsölur ef ekkert verður að gert.

Nú verðum við að snúa bökum saman og byggja upp á nýtt á algjörlega nýjum forsendum þar sem fólk er í fyrirrúmi og heimilin í landinu hafa forgang. Það gerum við eingöngu með því að styrkja velferðarkerfið verulega, hækka persónuafslátt láglaunafólks og meðaltekjufólks, barnabætur og vaxtabætur og við verðum að aflétta okurvöxtunum. Peningamálastefna ríkisins er gjaldþrota.

Við verðum líka að stöðva frekari stóriðjuáform. Nýjar erlendar lántökur til virkjana eru glórulausar rétt eins og þau umhverfisspjöll sem þau valda. Það verður líka að stórefla Íbúðalánasjóð til endurfjármögnunar og Byggðastofnun til að aðstoða bændur og smábátasjómenn. Leiðir verða að skilja núna. Við skulum segja skilið við græðgina, skilið við sjálftökuna, skilið við misréttið og skilið við umhverfisspjöllin — og vel á minnst, við skulum líka útrýma kynbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi, þeirri þjóðarskömm.

Við getum og við skulum koma okkur í gegnum þær manngerðu hamfarir sem á okkur dynja, hamfarir sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og fjárglæframenn bera ábyrgð á. Það er svo einfalt. Það er kominn tími til að byggja upp á nýtt, byggja upp á nýjum forsendum, byggja upp á réttlæti og félagslegri ábyrgð. Félagsleg ábyrgð á að vera lykilorðið. Félagsleg ábyrgð og velferð fólksins og heimilanna í landinu, þar eigum við að forgangsraða í stað þess að forgangsraða í þágu fjárglæframanna. Það er kominn tími til að byggja upp, byggja upp á réttlæti og félagslegri ábyrgð og okkar kynslóð ber skylda til þess að byggja upp betra samfélag fyrir komandi kynslóðir, samfélag sem byggir á sanngirni en ekki sjálftöku. — Lifið heil.