136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:50]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Góðir landsmenn. Vetur fer í hönd og heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir mesta umróti á fjármálamörkuðum fyrr og síðar. Án efa upplifum við nú mestu viðburði hagsögunnar og munum líklega aldrei gleyma þeim dögum sem núna eru að líða. Margir hafa haft uppi varnaðarorð hin síðustu ár um að ójafnvægi og ofþensla í efnahagslífinu væri ávísun á alvarlegan samdrátt og óstöðugleika. Engan óraði þó fyrir því hversu alvarlegar aðstæður mundu skapast úti um allan heim.

Það var óhjákvæmilegt að fjármálakreppan teygði anga sína til Íslands. Tugir banka úti um allan heim hafa farið í þrot og ríkið hefur tekið yfir rekstur þeirra. Röð atvika og brotsjóir á alþjóðlegum mörkuðum urðu til þess að nú stöndum við frammi fyrir því að ríkið hefur neyðst til að veita þriðja stærsta banka landsins gríðarlega umfangsmikla aðstoð í formi hlutafjárframlags sem mun hafa í för með sér að hann verður að 3/4 í eigu ríkisins. Sú aðgerð er vissulega umdeild enda var hún afar sársaukafull fyrir alla hlutaðeigandi og þar virtust allir kostir vondir. Samkvæmt mati Seðlabanka voru tryggingar þær sem Glitnir lagði fram ónógar og á því byggðist niðurstaðan. Höfuðmarkmið stjórnvalda og leiðarljós eru þau ein að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í landinu, vernda hagsmuni viðskiptavina bankans og innstæður almennings. Innstæður almennings eru tryggðar og þar er ekkert að óttast.

Nú er unnið að samstilltu átaki stjórnvalda, stofnana og samfélagsins alls um aðgerðir til að skjóta nýjum undirstöðum undir þjóðfélagið, eins og kom fram í ræðu forsætisráðherra, og koma þjóðinni út úr þeim alvarlegustu aðstæðum sem við höfum upplifað á síðari tímum. Það er alveg ljóst að við erum komin að krossgötum og við verðum að taka fastar á til að skapa öryggi fyrir atvinnulífið og til að íslenskur almenningur, íslenskir neytendur njóti hliðstæðra kjara og íbúar nágrannalanda okkar.

Til að skapa stöðugleika til langframa í íslensku þjóðlífi og efnahagslífi þarf mjög margt að breytast. Í því felst að sjálfsögðu engin uppgjöf heldur ábyrg afstaða byggð á raunsæju mati á hagsmunum þjóðarinnar. Við verðum að láta af karpi um brýnustu hagsmunamálin, ræða alvörulausnir af hreinskilni og hispursleysi. Slík umræða er hvorki skrum né nokkrum til skammar. Þar vegur þyngst afstaðan til Evrópusambandsins í framtíðinni. Þetta tekst ekki nema með samstilltu átaki þar sem verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins taka á með öllum stjórnmálaöflum í landinu. Þetta tekst ekki nema með víðtækri sátt í samfélaginu, sátt um stóru skrefin sem við verðum að stíga og með órofa samstilltu átaki okkar allra mun okkur takast það.

Fjármálastofnanir þurfa líka að vera með í þeirri sátt og tryggja þarf að íslenskir íbúðakaupendur séu ekki fastir í sjálfvirkri ofurvaxtavél. Það er siðferðisleg skylda bankanna að veita lántakendum allt það svigrúm sem unnt er að veita, m.a. með frestun á greiðslu höfuðstóls lána. Nú skiptir miklu að þegar í stað verði settur aukinn kraftur í aðgerðir til að aðstoða og leiðbeina fólki sem lendir í greiðsluerfiðleikum, erfiðleikum vegna breyttra forsendna í tekjum, eignum og skuldum. Fólki sem nú horfir fram á erfiða tíma í lífi sínu og örvæntir á stundum um hag fjölskyldu sinnar. Það er afar brýnt að hratt verði unnið, t.d. úr tillögum sem forsætisráðherra kynnti fyrr á árinu og nefndi áðan í ræðu sinni um lögfestingu á ákvæði um greiðsluaðlögun einstaklinga sem af óviðráðanlegum orsökum ráða ekki lengur við fjárhagsstöðu sína, greiðsluaðlögun sem gerir þeim kleift að vinna sig út úr erfiðri stöðu án þess að fara í gjaldþrot. Að því er nú unnið í ráðuneytum dómsmála og viðskipta.

Kæru landsmenn. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi ráðherra, sagði einu sinni að markaðurinn væri þarfur þjónn en afleitur herra. Það er augljóst að yfirstandandi atburðir kalla á heildarendurskoðun á umgjörð fjármálamarkaða. Markaðir eru mannanna verk og þeir skila aðeins tilgangi sínum ef þeir eru mótaðir skýrum, áþreifanlegum og áreiðanlegum leikreglum sem byggja undir stöðugleika og traust í þjóðfélaginu. Það er grundvallarafstaða Samfylkingarinnar og leiðarljós í öllum okkar störfum í ríkisstjórn.