136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

efnahagsmál og umræða um fjárlög 2009.

[10:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að umræðan um fjárlögin verður mjög ómarkviss og ómarktæk á þessari stundu. Það sést kannski best á því að þegar skoðað er hvað stendur um efnahagsstefnuna og markmið fjárlaga kemur fram að eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að nálgast jafnvægi. Það er svo fjarri sanni þannig að frumvarpið endurspeglar alls ekki raunveruleikann.

Það má segja að þetta frumvarp sé skrifað með ósýnilegu bleki af því að það mun gufa upp. Það mun koma allt öðruvísi til baka frá fjárlaganefndinni. Við sjáum þó engar ástæður til þess í Framsóknarflokknum að biðja um að umræðunni verði frestað. Við gerum okkur grein fyrir því að hún verður ómarktæk en við teljum að hún eigi að fara fram eigi að síður í ljósi aðstæðna og að málið eigi að fara til fjárlaganefndar. Þar verða örugglega gerðar grundvallarbreytingar á fjárlagafrumvarpinu. Við biðjum því ekki um að umræðunni verði frestað, virðulegi forseti.