136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 sem er 1. mál þessa þings. Hér á eftir mun ég rekja helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar og forsendur frumvarpsins.

Með frumvarpinu er í fyrsta sinn lagður fram rammi um umfang og forgangsröðun ríkisútgjalda til næstu fjögurra ára í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Sett er fram meginstefna í hagstjórn og viðmið um tekjuöflun og raunvöxt útgjalda ríkissjóðs.

Þjónustuverkefnum og framkvæmdum ríkisins er forgangsraðað til að koma áherslum í stefnuyfirlýsingunni í framkvæmd. Gert ráð fyrir fjárveitingum til mála sem þegar hafa verið ákveðin eða lögfest á Alþingi. Einnig er útfært nánar hver tekju- og útgjaldaþróunin verður á næstu árum vegna einstakra málaflokka og verkefna í ljósi efnahagsforsendna og lýðfræðilegrar þróunar.

Breyttar forsendur, svo sem forgangsröðun verkefna, hagræðing eða endurskoðun á núverandi rekstrarliðum, getur þó skapað svigrúm fyrir fleiri áherslumál ríkisstjórnarinnar á tímabili rammafjárlaganna.

Með því að setja fram fjárlagaramma með þessum hætti verða áherslumál næstu ára ljós og ráðuneyti og stofnanir hafa meiri tíma til að undirbúa verkefni sín. Þetta gerir meiri kröfur til þeirra um að vanda fjárlagaáætlanir sínar og að leysa úr rekstrarvanda áður en kemur til framlaga í ný verkefni. Meiri kröfur verða gerðar til rökstuðnings fyrir nýjum verkefnum og gerð krafa um að skoða fyrst alla aðra möguleika á að leysa málin en með auknum útgjöldum úr ríkissjóði. Með öðrum orðum verður gerð krafa um forgangsröðun útgjalda innan þess ramma sem ráðuneytin hafa.

Mikil umskipti eru að verða í þjóðarbúskapnum um þessar mundir. Eftir eitt lengsta og mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er nú fram undan nokkur lægð en ef horft er fram til nokkurra ára stefnir í að hagkerfið færist nær jafnvægi á ný. Stefnan í ríkisfjármálum eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu endurspeglar það. Gert er ráð fyrir að samdráttur í þjóðarútgjöldum sem hófst árið 2007 við lok stóriðjuframkvæmda haldi áfram í ár. Viðsjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem dregið hafa úr framboði ódýrara lánsfjármagns hér á landi og háir stýrivextir Seðlabankans hafa leitt til þess að íbúðafjárfesting og atvinnuvegafjárfesting hafa tekið að lækka á árinu. Veiking á gengi krónunnar á árinu og samdráttur í kaupmætti ráðstöfunartekna hafa einnig haft þau áhrif að dregið hefur hratt úr einkaneyslu heimila. Aukin framleiðslugeta áls ásamt samdrætti í innflutningi hafa hins vegar framkallað viðsnúning í vöru- og þjónustuviðskiptum sem áætlað er að skili 1,7% hagvexti í ár. Árið 2009, þegar aukning útflutnings verður að mestu afstaðin í bili en einkaneysla og fjárfesting halda áfram að dragast saman, er spáð að hagvöxtur verði neikvæður og að landsframleiðslan dragist saman um 1,6%. Eftir að slaki hefur myndast í efnahagslífinu er spáð að innlend eftirspurn taki við sér á ný árið 2010 og að hagvöxtur það ár verði 1%. Jafnframt er gert ráð fyrir hóflegum og vaxandi hagvexti árin 2011–2012 samhliða lágri verðbólgu og litlum viðskiptahalla. Það er því búist við niðursveiflu í hagkerfinu á næsta ári en hægum uppgangi árin þar á eftir.

Þó ber að gæta þess að á tímum erfiðleika og viðsjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum gætir mikillar óvissu í öllum áætlunum og spám. Ríkið hefur hlaupið undir bagga með innlendri fjármálastofnun og vonir standa til að það dragi úr óvissu. Vonandi þarf ríkissjóður þó ekki að gera slíkt aftur í lengd og bráð.

Lægð í efnahagslífinu leiðir óhjákvæmilega til þess að tekjur ríkissjóðs minnka og útgjöld aukast. Eftir tæplega 89 milljarða kr. afgang árið 2007 er áætlað að tekjujöfnuður ríkissjóðs dragist saman og að afgangurinn nemi 3 milljörðum kr. árið 2008. Rýrnandi tekjuafkoma ríkissjóðs ber þess merki að aðlögun þjóðarbúskaparins er hafin í átt til meira jafnvægis á sama tíma og erfiðleikar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þrengja að hagkerfinu. Þannig var í fjárlögum fyrir árið 2008 áætlað að rekstur ríkissjóðs skilaði afgangi sem næmi um 39 milljörðum króna. Sú áætlun hefur nú verið endurskoðuð í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda málaflokka og með hliðsjón af nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Endurmatið felur í sér talsverðar breytingar á helstu stærðum ríkisfjármálanna frá fyrri áætlun. Nú er talið að heildartekjur verði um 10 milljörðum króna minni en reiknað var með í fjárlögum og að útgjöldin verði 26,3 milljörðum meiri. Er því áætlað að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 3 milljarðar króna eða því sem næst liðlega 36 milljörðum minni en í fjárlögum.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 ber þessari þróun merki en gert er ráð fyrir að afkoman á næsta ári versni til muna og að 57 milljarða króna halli verði á ríkissjóði. Miðað við óbreyttar áherslur í rekstri ríkissjóðs er því spáð að ríkissjóður verði rekinn áfram með nokkrum halla árin 2010 og 2011 en að afgangur verði á ný á ríkissjóði á árinu 2012. Mjög mikilvægt er að sjá að spár gera ráð fyrir að sú niðursveifla sem nú er fram undan verði aðeins tímabundin og ríkissjóður verði rekinn með afgangi á nýjan leik á síðasta ári tímabilsins.

Eftir áralangt tímabil mikils afgangs í ríkisfjármálum er tímabundinn hallarekstur í efnahagslægð í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um að afkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi til lengri tíma litið, þ.e. að ríkissjóður sé hallalaus yfir hagsveifluna. Þessi stefna byggir á því að sjálfvirkri sveiflujöfnun ríkisfjármála er leyft að eiga sér stað. Ríkið minnkar á samdráttartímum það sem það tekur til sín í formi skatttekna en um leið eru aukin framlög til hagsveiflutengdra útgjaldaliða eins og atvinnuleysisbóta. Með því hefur ríkissjóður áhrif til að draga úr niðursveiflu í efnahagslífinu og jafnframt takmarka aukningu atvinnuleysis. Við þær aðstæður þegar tekjuhalli myndast á ríkissjóði er mikilvægt að viðhalda aðhaldssamri stefnu sem leggur áherslu á hagkvæmni og varfærni í ríkisrekstri til að tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma litið.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á ábyrga efnahagsstjórn sem forsendu kraftmikils efnahagslífs og aukinnar velferðar. Markmið hagstjórnar er að tryggja stöðugleika með lágri verðbólgu, lágu vaxtastigi, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jöfnum og öflugum hagvexti og áframhaldandi traustri stöðu ríkissjóðs.

Staða ríkisfjármála á Íslandi er mjög góð til að takast á við efnahagslægð hvað varðar skuldir ríkissjóðs og stöðu lífeyrismála. Hrein eign ríkissjóðs er jákvæð eftir margra ára tekjuafgang og tekjur af einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þá eru framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs á Íslandi vegna öldrunar samfélagsins minni en víðast hvar annars staðar vegna þess hve lífeyrissjóðakerfið er öflugt hér á landi en það er að verulegu leyti byggt á sjóðasöfnun en ekki gegnumstreymi. Þá er miðað við að gengið verði á innstæður ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands við að fjármagna tekjuhalla á komandi árum og því komi ekki til aukinnar skuldsetningar vegna hallans.

Í febrúar 2006 skipaði ég nefnd sem hafði það hlutverk að fara yfir skattkerfið og varpa ljósi á hvaða þættir það eru sem gera Ísland samkeppnishæft og skilvirkt. Nefndin skilaði skýrslu með niðurstöðum sínum um miðjan september þar sem m.a. kemur fram að íslenska skattkerfið gegni meginhlutverki sínu með ágætum. Það er einfalt í samanburði við skattkerfi annarra landa, byggir í meira mæli á tekju- og veltusköttum en annars staðar en vægi launatengdra gjalda er lágt. Álagning tekjuskatts á einstaklinga er einföld: aðeins eitt álagningarhlutfall og fastur persónuafsláttur. Jaðarskattur á lágar tekjur og meðaltekjur er fremur hár í alþjóðlegum samanburði, en sé tekið tillit til bótagreiðslna er meðalskattur tiltölulega lágur í alþjóðlegum samanburði. Lítill munur er á launakostnaði fyrirtækja og því sem launþegar fá í vasann þannig að áhrif skattkerfisins á vinnumarkaðinn eru tiltölulega lítil. Fjármagnstekjuskattur er lágur miðað við launatekjur. Samanlögð áhrif tekjuskatts félaga og fjármagnstekjuskatts af arði eru hér tiltölulega lítil sem virkar hvetjandi fyrir fjárfestingar í atvinnurekstri. Skattkerfið er því samkeppnishæft og skilvirkt þegar litið er til þessara þátta.

Helsta viðmið varðandi tekjuöflun ríkissjóðs er að tekjuafkoma ríkissjóðs sé í jafnvægi yfir hagsveifluna og stuðli að efnahagslegum stöðugleika á hverjum tíma. Nokkrar skattbreytingar hafa verið ákveðnar sem hafa veruleg áhrif á tekjuhlið frumvarpsins á næstu árum.

Þannig hækkar persónuafsláttur í áföngum um 7 þúsund krónur á mánuði umfram almenna verðuppfærslu árin 2009 til 2011 og munu þær breytingar strax verða áberandi um næstu áramót þegar gert er ráð fyrir að skattleysismörk hækki um ríflega 18%.

Tekjuskattar fyrirtækja lækka úr 18% í 15% frá og með tekjuárinu 2008.

Stimpilgjöld vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign hafa verið felld niður sem óumdeilanlega hefur orðið til hagsbóta fyrir nýja húsnæðiseigendur.

Miðað er við að hagrænar breytingar á tekjum komi fram í breytingum á afkomu ríkissjóðs næstu ár í samræmi við vænt umsvif í efnahagslífinu samkvæmt þjóðhagsspá. Þannig er reiknað með að skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu lækki úr ríflega 31% árið 2007 í 28% árið 2008 og tæplega 26% árið 2009. Slík lækkun er óvenjumikil og helgast af ofangreindum skattbreytingum og spá um minnkandi umsvif, aukið atvinnuleysi, minni hagnað, samdrátt í kaupmætti launa og lækkun fasteignaverðs að raunvirði. Þegar efnahagslífið tekur við sér á ný árið 2010 er gert ráð fyrir að hlutfallið taki að aukast á ný og verði nær 28% af landsframleiðslu árið 2012.

Í umræðu um skattamál undanfarinna ára hefur nokkuð verið gagnrýnt að ríkisvaldið taki til sín of stóran hluta landsframleiðslunnar og að það hlutfall hafi vaxið á undanförnum árum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir verulega lækkun skatthlutfalla bæði einstaklinga og lögaðila. Margoft hefur sá sem hér stendur svarað því til að það sé hluti af hinu sjálfvirka sveiflujafnandi hlutverki ríkissjóðs sem tekur til sín hærra hlutfall landsframleiðslunnar þegar vel árar en dregur úr þegar harðnar á dalnum. Þeir sem dregið hafa í efa þau svör á hagvaxtarskeiði undanfarinna ára ættu nú að fá það staðfest að þetta er raunin þegar skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu lækka um 6,4% á aðeins þremur árum. Þeir hinir sömu sem kallað hafa vaxandi skatthlutfall sem hlutfall af landsframleiðslu skattahækkanir ættu þá nú að geta glaðst yfir stórkostlegri lækkun skatta á almenning og fyrirtæki á þessu og næsta ári.

Margir óvissuþættir geta haft áhrif á niðurstöðu þjóðhagsspár og tekjur ríkissjóðs, ekki síst framvinda á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Óvissa í alþjóðlegu efnahagslífi umlykur nú tekjuspár fyrir ríkissjóð. Undanfarin ár hefur fjármálaráðuneytið unnið að rannsóknum sem miða að því að bæta tekjuspágerðina, til að gera hana sem nákvæmasta. Það eyðir þó ekki þeirri óvissu sem nú er til staðar í efnahagslífinu og gæti birst að hvað mestu leyti í þróun tekna af fjármagnstekjuskatti eða tekjuskatti lögaðila á komandi missirum. Við gætum verið að sigla inn á ókunn mið hvað þá tekjustofna varðar. Þróun umsvifa hefur einnig mikil áhrif á aðra tekju- og veltuskatta. Ef samdráttur verður minni en nú er spáð er líklegt að tekjurnar verði þeim mun meiri. Þá er einnig óvissa um það hve mikil framboðsáhrif lækkun skatta á einstaklinga og lögaðila hefur við þær aðstæður sem nú eru að skapast í efnahagslífinu. Í því sambandi má nefna að spár um aukið atvinnuleysi hafa ekki gengið eftir undanfarin ár. Að einhverju leyti má líklega rekja það til jákvæðra framboðsáhrifa. Við þurfum þó um sinn að búa við verulega óvissu hvað alla áætlanagerð varðar.

Ríkissjóður hefur sett sér margvísleg viðmið sem ganga undir nafninu fjármálareglur. Rammafjárlög til fjögurra ára ásamt slíkum viðmiðum eru mikilvæg verkfæri til að tryggja að sá árangur sem stefnt er að í ríkisrekstrinum náist. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sett markmið um að ríkisútgjöld aukist ekki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu frá því sem nú er. Einnig eru markmið um áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs og markvissan ríkisrekstur sem meðal annars felur í sér ráðdeild og varfærni í fjármálum. Markmiði um að viðhalda traustri stöðu ríkissjóðs verður náð með því að stefna að því að reka ríkissjóð í jafnvægi yfir hagsveifluna. Tímabundnum tekjusamdrætti verður mætt með því að ganga á inneignir. Á þessum grunni hefur ríkisstjórnin samþykkt eftirfarandi viðmið varðandi þróun útgjalda ríkissjóðs:

Árlegur raunvöxtur rekstrargjalda án óreglulegra liða verði ekki umfram 2,0% að meðaltali árin 2009–2012.

Árlegur raunvöxtur tekjutilfærsluútgjalda verði að meðaltali ekki umfram 3,5% árin 2009–2012 og lækki á síðustu tveimur árum tímabilsins undir 2%.

Fjárfesting verði að meðaltali ekki umfram 2,5% af landsframleiðslu árin 2009–2012 en til framtíðar litið verði hún um 2% af árlegri landsframleiðslu.

Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu hækki ekki á tímabilinu.

Taka ber fram að nokkrir óreglulegir liðir eru ekki felldir undir framangreind viðmið vegna þess að erfitt er að meta og ákvarða útgjöld til þeirra fram í tímann. Þar er um að ræða ýmist reikningshaldslega eða kerfislæga gjaldaliði sem ráðast af ytri aðstæðum

Í fjárlagarömmum er tekið tillit til ákvarðana ríkisstjórnarinnar um ný verkefni í samræmi við stefnuyfirlýsingu hennar sem jafnframt leiðir til aukinna útgjalda á tímabilinu. Samtals er varið um 77 milljörðum króna til áhersluverkefna ríkisstjórnarinnar á tímabilinu, þar með talið vegna aðgerða í tengslum við kjarasamninga í febrúar 2008 umfram það sem annars hefði orðið. Í rammafjárlögunum er einnig tekið tillit til fyrirliggjandi skuldbindinga um útgjöld sem breytast samkvæmt lögum eftir mannfjölda eða hagstærðum. Áætlað er að útgjöld sem bætast við af þessum sökum nemi í heildina 90 milljörðum króna á tímabilinu.

Í áætluninni eru útgjöld flestra fjárlagaliða framreiknuð miðað við forsendur um tiltekinn raunvöxt þar sem bæði er tekið mið af spám um kerfislægar eða lýðfræðilegar breytingar og áherslum um forgangsröð í uppbyggingu málaflokka. Algengast er að miða við 1% raunhækkun milli ára í rekstri stjórnsýslustofnana og í þjónustu sem ræðst einkum af fólksfjölgun en tilteknir málaflokkar eru látnir njóta meiri forgangs og hækka umfram þetta. Dæmi um það eru 2% árlegur raunvöxtur í málefnum fatlaðra, sjúkrastofnana, slysatrygginga og dvalarrýma, 3% vegna hjúkrunarrýma og um 5% vegna lyfja.

Á móti áformuðum hækkunum er gert ráð fyrir að ráðuneytin undirbúi aðhaldsaðgerðir sem dragi úr framangreindum útgjaldavexti sem skili árlega fjárhæð er svarar til 1,2% lækkunar á rekstrargjöldum hvers ráðuneytis.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 er áætlað að verja auknum útgjöldum til fjölda mála. Þar á meðal til að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar, hækka skerðingarmörk barnabóta og viðmiðun um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Lögð er áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, m.a. með átaki í uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og fjölgun einbýla. Þá hefur verið dregið stórlega úr tekjutengingu í almannatryggingum. Starfsendurhæfing verður aukin og átak gert í búsetumálum geðfatlaðra. Stefna ríkisstjórnarinnar er að á Íslandi verði veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða og verður auknu fé varið til sjúkratrygginga, lækniskostnaðar, lyfja og hjálpartækja, húsnæðis sjúkrastofnana og vegna reksturs nýrra hjúkrunarheimila.

Ríkisstjórnin hefur í frumvarpinu náð því markmiði að auka framlög til þróunarsamvinnu í 0,35% af landsframleiðslu. Hún mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar ásamt því að bæta kjör námsmanna enn frekar. Framlög til vísinda- og tæknisjóða hækka árlega í áföngum og stórauknu fé verður varið til framhaldsskóla á tímabilinu, aðallega vegna nýrra framhaldsskólalaga. Í fjárlagarömmum tímabilsins er miðað við að framlög til reksturs og uppbyggingar Vatnajökulsþjóðgarðs verði stóraukin. Einnig verður lagt verulegt fjármagn til atvinnumála á tímabili rammafjárlaga einkum til þess að styrkja atvinnulíf á þeim svæðum þar sem hagvöxtur hefur verið lítill eða samdráttur og aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna mótvægis við samdrátt í þorskafla verður fylgt eftir. Sérstök áhersla verður lögð á að efla þróun hátækni og sprotafyrirtækja um land allt, ekki síst í tengslum við áframhaldandi uppbyggingu innviða á sviði samgangna og fjarskipta og að byggja upp þróttmikið markaðsstarf ferðaþjónustunnar. Gert er ráð fyrir auknum útgjöldum vegna áframhaldandi eflingar Landhelgisgæslunnar með nýrri flugvél og þyrlum og auknum umsvifum. Einnig er áhersla á eflingu innviða samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta. Breytingar á framlögum til samgönguverkefna árin 2009–2012 taka að mestu leyti mið af viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 og samgönguáætlun 2007–2018. Að lokum má nefna að ríkisstjórnin telur mikilvægt að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeim. Eftirlitsstofnanir ríkisins verða efldar með auknum fjárveitingum á tímabili rammafjárlaga auk þess sem unnið verður að betri nýtingu fjármuna til eftirlits með markaðsstarfsemi, m.a. með skipulagsbreytingum.

Eins og áður segir eru horfur á að afkoma ríkissjóðs versni til muna og verði neikvæð sem nemur um 57 milljörðum króna á árinu 2009. Áætlað er að handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 53 milljarða króna og lánsfjárjöfnuður verði neikvæður um tæpa 48 milljarða króna. Til samanburðar var 89 milljarða króna tekjuafgangur árið 2007 en í áætlunum um niðurstöðu ársins 2008 er nú gert ráð fyrir að afgangur þessa árs verði um 3 milljarðar króna. Í þessari þróun gætir áhrifa af tímabundnum samdrætti í tekjum og auknum útgjöldum sem leiða m.a. af versnandi efnahagshorfum.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs árið 2009 verði 450,5 milljarðar króna, sem er 23 milljörðum króna minna en í áætlun fjárlaga 2008. Skýrist það af lakari þjóðhagshorfum fyrir árið þar sem nú er spáð 2,5% samdrætti þjóðarútgjalda á næsta ári. Áætlað er að skatttekjur dragist saman milli ára um 8,2% að raunvirði. Skattar á tekjur og hagnað minnka milli ára, einkum fjármagnstekjuskattar sem eru mjög háðir framvindu á fjármálamörkuðum. Hækkun persónuafsláttar, um 24 þús. kr. á árinu 2009, auk verðtryggingar á honum, leiðir til talsvert minni tekna en ella af tekjuskatti einstaklinga. Áætlað er óbeinir skattar dragist saman um 2,8% að raunvirði.

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2009 eru áætluð 507,4 milljarðar króna, sem er hækkun um 73,2 milljarða króna eða 16,9% frá fjárlögum 2008. Þar af eru 40,6 milljarðar króna vegna kjarasamninga við stéttarfélög ríkisstarfsmanna, aukinnar verðbólgu, gengislækkunar krónunnar og hækkunar á bótum velferðarkerfisins. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 11,5% hækkun verðlags á milli áranna 2007 og 2008. Fjárlög 2008 gerðu hins vegar ráð fyrir 3,8% hækkun. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að bæta þennan mismun upp að fullu til viðbótar við spá um verðlagshækkun til ársins 2009. Þetta felur í sér að fjárheimildir vegna annarra rekstrargjalda en launa og framlög sem eru tengd við vísitölu neysluverðs hækka óvenjumikið eða alls um 13,2%. Til viðbótar þessum verðlagshækkunum er gert ráð fyrir töluverðri raunaukningu útgjalda í frumvarpinu sem er samtals nálægt 33 milljörðum króna. Verulegur hluti þeirra útgjalda er vegna ákvarðana um áform sem fram komu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hækkun rekstrargjalda kemur fram í heilbrigðismálum og öldrunarþjónustu vegna sjúkrastofnana, heilsugæslu og stofnunum á sviði öldrunarmála, auk þess sem aukið er við rekstur málefna fatlaðra. Þá aukast framlög til menntamála vegna háskóla, rannsókna og framhaldsskóla. Löggæslu- og öryggismál hækka vegna aukins reksturs Landhelgisgæslunnar með tilkomu nýs varðskips og flugvélar.

Vaxtagjöld ríkisins aukast verulega, eða sem nemur um 13 milljörðum króna frá áætlun fjárlaga 2008, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans og til að styðja við vaxtamyndun á innlendum fjármagnsmarkaði. Á móti koma einnig umtalsverðar vaxtatekjur af innstæðum ríkisins í Seðlabankanum þannig að áhrif á afkomu ríkissjóðs eru ekki veruleg.

Mesta aukningin verður í útgjöldum sem flokkast undir neyslu- og rekstrartilfærslur en þau hækka um 28 milljarða króna frá gildandi fjárlögum eða um tæpa 22 milljarða miðað við endurskoðaða áætlun fyrir yfirstandandi ár. Hækkunin á að mestu leyti rætur að rekja til aukinna tilfærslna í frumvarpinu. Talsverður hluti af þeim hækkunum skýrist af því að gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki óvenjumikið á næsta ári eða um 9,6%. Þar er tekið mið af spám um þróun á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til 7,4% hækkunar á bótunum sem gerð var snemma á þessu ári. Þegar þessar og aðrar verðlagshækkanir eru frátaldar og að undanskildum nokkrum óreglulegum liðum þá telst aukningin í tilfærslunum vera um 12 milljarðar króna miðað við áætlaða útkomu 2008 en það svarar til 7,1% að raunvirði. Ef miðað er við gildandi fjárlög er raunaukningin metin á sama hátt um 18 milljarðar, eða 11,3%. Aukningin frá síðustu fjárlögum kemur að stórum hluta fram í almannatryggingum vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um ýmsar breytingar á lögum sem flestar hafa nú þegar komið til framkvæmda og fela meðal annars í sér að verulega er dregið úr tekjutengingum og að frítekjumörk hækka. Þá hækka framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs á milli ára í samræmi við endurskoðaða spá um atvinnuleysi. Atvinnuleysisbætur hækka í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka þær með hliðsjón af hækkun lágmarkslauna í almennum kjarasamningum. Framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækka vegna endurskoðaðrar áætlunar um fjölgun lánþega og framlagsþörf úr ríkissjóði á grundvelli nýrra úthlutunarreglna. Útgjöld til sjúkratrygginga aukast milli ára aðallega vegna hærri kostnaðar við lyf og hjálpartæki. Greiðslur í Fæðingarorlofssjóð hækka vegna fleiri fæðinga en reiknað hafði verið með. Skerðingarmörk barnabóta hækkuðu samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og er gert ráð fyrir meiri útgjöldum vegna þess. Þá aukast vaxtabætur af sama tilefni vegna 35% hækkunar á eignaskerðingarmörkum. Á móti lækkar framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem framlög sem veitt voru tímabundið renna út. Ég minni á að þessi auknu tilfærsluútgjöld koma í kjölfar mikillar aukningar á framlögum til almannatryggingakerfisins sem fram kom í fjárlögum 2008.

Stofnkostnaður hækkar að raungildi um 1,7% frá fjárlögum 2008. Hér er fyrst og fremst um að ræða aukningu verkefna til samgöngumála í samræmi við viðauka við samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Á yfirstandandi ári voru framlög til samgönguframkvæmda stóraukin og í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að framkvæmdastigið haldist álíka hátt. Aukinn stofnkostnaður skýrist einnig af niðurgreiðslu vaxta vegna lána til kaupa á leiguíbúðum sem ákveðin var til að styrkja markaðinn fyrir leiguhúsnæði. Að lokum hækkar framlag til að ljúka kaupum á nýju varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ýmsum aðhaldsaðgerðum til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2009 frá því sem annars hefði orðið. Rekstrargjöld ráðuneyta voru þannig lækkuð um 2 milljarða króna við fjárlagagerðina frá upphaflegum áætlunum eða almennt um 1,2%. Er hér fyrst og fremst um að ræða ýmsar aðhaldsaðgerðir sem ráðuneytin útfærðu í samvinnu við stofnanir á þeirra vegum. Ýmis tilfærsluframlög eru lækkuð um 500 millj. kr. frá því sem ella hefði orðið og tilfærsla verður í tímaröð framkvæmda sem leiðir til þess að stofnkostnaður á árinu 2009 lækkar um 7–8 milljarða króna frá upphaflegum áætlunum.

Herra forseti. Markmið ríkisstjórnarinnar í hagstjórninni er að stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með lægri verðbólgu, lægra vaxtastigi, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jöfnum og öflugum hagvexti og traustri stöðu ríkissjóðs. Fjárlagafrumvarp 2009 felur í sér að ríkissjóður sinnir hagstjórnarlegu hlutverki sínu til að jafna sveiflur í efnahagslífinu, til að mynda með aukinni fjárfestingu á meðan á niðursveiflu stendur en um leið samdrætti í tekjuöflun ríkissjóðs. Á gjaldahlið aukast útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu um 1,6% og á tekjuhlið lækka skatttekjurnar sem nemur 2,1%. Samanlagt má því segja að sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármála verði 3,7% af landsframleiðslu næsta árs.

Mikill tekjuafgangur ríkissjóðs á síðustu árum hefur leitt til þess að skuldir eru nú litlar og verulegum fjárhæðum hefur verið varið í að styrkja stöðu Seðlabanka Íslands og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en um leið hafa inneignir ríkissjóðs í Seðlabankanum vaxið tífalt á aðeins fjórum árum. Þessi sterka staða gerir okkur kleift að takast á við tímabundinn vanda komandi ára þar sem halli verður á ríkissjóði um þriggja ára skeið.

Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins kemur fram að efnahagslífið mun leita jafnvægis eftir mikinn hagvöxt á undanförnum árum. Eftir samdrátt á næsta ári er spáð að efnahagsstarfsemin taki að aukast á ný og að meira jafnvægi einkenni framvinduna með minni verðbólgu og viðskiptahalla. Af þessu leiðir að afkoma ríkissjóðs snýst tímabundið í halla en án þess að auka skuldir ríkissjóðs og að í lok tímabils rammafjárlaganna verði ríkissjóður einnig kominn í jafnvægi og rekinn með afgangi á ný.

Þrátt fyrir nokkra erfiðleika sem fram undan eru höfum við alla möguleika á að snúa vörn í sókn og nýta þau færi sem bjóðast. Við eigum mörg tækifæri í auðlindum hafs og lands og ef við nýtum þær auðlindir bæði vel og skynsamlega getur það fært okkur áfram veginn á næstu árum. Við eigum kraftmikið og vel menntað fólk og öflug fyrirtæki sem munu komast í gegnum þá tímabundnu niðursveiflu sem við horfum nú fram á.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og háttvirtrar fjárlaganefndar. Óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina, nú sem hingað til og að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við starfsáætlun þingsins eins og undanfarin ár.