136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:11]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki í stuttu andsvari að gera sjálft efni fjárlagafrumvarpsins að miklu umfjöllunarefni en ég hjó eftir orðum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann vék að áhrifum stýrivaxta á efnahaginn. Allt er þetta nú mjög samhangandi í hagstjórninni hvernig við högum fyrirkomulagi peningamála, stýrivöxtum og fjárlögum. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ég hafi skilið orð hans rétt — því að þannig bárust þau hér aftast í salinn til mín — að hann teldi að háir stýrivextir Seðlabankans hefðu einkum haft þau áhrif að undanförnu að auka á og flýta fyrir samdrætti í þjóðarbúinu. Ég vil einnig spyrja hvort hann telji þá að það hafi verið rétt að hafa stýrivexti svo háa sem raun ber vitni nú undanfarna mánuði, og svo ég komi með þriðju spurninguna á stuttum tíma, hvort hann telji tímabært að hefja tafarlausa og hraða lækkun stýrivaxta eins og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum raunar lagt áherslu á.

Ég þarf ekki að taka það fram að það hefur verið mikil umræða um stýrivextina og um það hlutverk sem Seðlabankinn hefur í þeim efnum og ég hygg svo sem að skoðanir manna hér séu þvert á flokka ekki svo ólíkar í þeim efnum að stýrivaxtavopnið hefur orðið okkur Íslendingum svolítið undarlegt í hendi þar sem því var upphaflega ætlað að draga úr þenslu en varð síðar meir notað til þess að halda uppi háu gengi.

Þess vegna ætla ég að bæta við fjórðu spurningunni til hæstv. fjármálaráðherra, hvort hann telji mögulegt að stýrivaxtavopnið virki virkilega enn þá til þess að halda hér uppi gengi íslensku krónunnar.