136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:14]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég var ekki að spyrja hæstv. fjármálaráðherra spurninga sem ég vissi fyrir fram hvernig hann mundi svara en ég tel það ekki svo sjálfgefið að þessi atriði séu öll utan þess sem hæstv. fjármálaráðherra getur með góðu móti tjáð sig um. Ég tel í þessu samhengi að þegar kemur að því hvaða áhrif hlutirnir hafi haft, og er þar með algjörlega komið út fyrir ákvörðunarferli samtímans en skiptir nokkru máli til að meta ástæðuna fyrir þeim ógöngum sem við höfum lent í, þá sé fjármálaráðherra fullheimilt og í rauninni algjörlega skylt að leggja þar mat á vegna þess að þetta er það sem mestu máli skiptir, að við áttum okkur á því hvers vegna við erum lent þar sem við erum, til þess að við höfum möguleika á að komast þaðan til baka því að sú vá sem steðjar nú að þjóðarbúinu er öllu meiri en mér finnst mega lesa út úr frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra.

Vegna þess sem hæstv. fjármálaráðherra svaraði mér um að það væri matsatriði hvort æskilegt hefði verið að draga úr hagvexti á öðrum og þriðja ársfjórðungi þessa árs þá vil ég ítreka spurningu mína. Ég er sammála honum um að það geti verið matsatriði eftir því hvaða afstöðu menn hafa t.d. til velgengni íslensks þjóðarbús. En ég kalla hér eftir því að fá á því mat fjármálaráðherra hvort hann telji að það hafi verið æskilegt eða á einhvern hátt forsvaranlegt að stjórnvöld hafi beinlínis stuðlað að því að draga úr hagvexti og hægja á hjólum atvinnulífsins á yfirstandandi ári.