136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það er alls ekki sjálfgefið að fjármálaráðherra taki þá afstöðu sem ég hef tekið varðandi það að tjá mig um vaxtaákvarðanir Seðlabankans. Ég trúi því hins vegar ekki að hv. þingmaður, eins vel og hann fylgist jafnan með, hafi ekki vitað að ég hefði þessa afstöðu.

Eins og ég segi er ekkert sjálfgefið (Gripið fram í.) að þetta sé afstaðan. Ég hef út af fyrir sig tekið eftir því að Seðlabankinn hefur ekki þessa afstöðu gagnvart því hvernig hann fjallar um ríkisfjármálin. En ég tel ekki skynsamlegt að þessir tveir aðilar sem hafa þetta hlutverk, annars vegar að leiða ríkisfjármálin og hins vegar að ákvarða vextina, kallist á í fjölmiðlum um ágæti ákvarðana hvor annars. Ég held að það kalli á allt aðra hluti en við höfum þörf á.

Ég hef hins vegar svarað spurningum hv. þingmanns um hvaða áhrif vaxtahækkanirnar hafa haft og ég held að hann sé ekki ósammála mér um það. Ég minnist þess hins vegar að í fjárlagaumræðu síðasta árs hafi hv. þingmaður haft mestar áhyggjur af því að þau fjárlög væru of þensluhvetjandi fyrir hagkerfið á árinu 2008. Nú hefur hann mestar áhyggjur af því að vaxtastefna Seðlabankans hafi dregið of mikið úr þenslu á yfirstandandi ári.