136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:47]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra tók sér orð í munn um sig og forsætisráðherra sem ég nefndi ekki — hann á það við sjálfan sig hvaða einkunn hann gefur sjálfum sér hvað það varðar. Það er alveg hárrétt að við erum hluti af hinu alþjóðlega fjármálaumhverfi, en vegna sérstöðu okkar verðum við miklu harðar úti. En við náum ekkert fram á við ef við viðurkennum ekki mistök okkar og reynum stöðugt að kenna öðrum um. Það er höfuðvandi ríkisstjórnarinnar, ráðherra fjármála og forsætisráðherra, að stinga stöðugt höfðinu í sandinn og kenna öðrum um en líta ekki í eigin barm.

Ég get rakið mjög ítarlega umsagnir — ég vakti athygli á umsögn Seðlabankans sem var þó miklu mjúkorðari en margir seðlabankar annars staðar í heiminum í miklu alvarlegri stöðu, þ.e. við stöndum frammi fyrir alvarlegri stöðu en þeir. Þær eru hér og ég get sýnt hæstv. fjármálaráðherra það. Ég vil því ítreka að það skiptir gríðarlegu máli að við viðurkennum mistökin. Það þýðir ekkert að segja við unga fólkið sem stendur frammi fyrir því að geta misst íbúðina sína að það sé allt útlendingum að kenna, að við verðum að bíða eftir því að útlendingar leysi málin áður en við komum að þeim. Nei, við verðum að líta í eigin barm. Það verður að snúa af brautinni sem ríkisstjórnin, undir forustu Sjálfstæðisflokksins í 17 ár, hefur keyrt á. Hún hefur keyrt á einkavæðingu almannaþjónustunnar, einkavæðingu og aftur einkavæðingu, frjálshyggju. Það speglaðist kannski best í orðum eins bankastjórans, frú forseti, þegar hann sagði að hver væri sinnar gæfu smiður. Það er ekki skoðun Vinstri grænna, við eigum að standa saman.