136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:14]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fjárlagafrumvarpið sem við ræðum nú fyrir árið 2009 er að mínu viti í besta falli spádómur. Ég segi ekki að við hefðum getað sett niður sama texta með því að leita til spákonu eins og sagt var hér í gær en í frumvarpinu er auðvitað mikil óvissa vegna þess hvernig málum er háttað. Þessi mikla óvissa er m.a. vegna stöðunnar á fjármálamörkuðum og í fjármálakerfinu í landinu og það er í raun og veru óvíst hvaða fyrirtæki eða fjármálastofnanir halda velli í atvinnulífinu til næsta árs.

Afkoma launafólks og fjölskyldna er í algjöru uppnámi sökum verðbólgu, verðtryggingar og gengisfalls íslensku krónunnar. Það er næsta víst að margir missa atvinnu sína eins og nú horfir og atvinnuleysisbætur munu engan veginn bæta skaðann, þær eru aðeins neyðarlausn sem hjálpar í skamman tíma. Tekjur ríkisins í sköttum gætu hrunið enn frekar á næsta ári eins og nú horfir, ekki aðeins um 40 milljarða eins og spáð er í frumvarpinu, heldur jafnvel um 60 milljarða ef málin þróast á versta veg. Það er fátt sem nú vekur bjartsýni um þróun mála.

Spáð er neikvæðum hagvexti á næsta ári en síðan vaxi hagur okkar að nýju. Í fjárlögum þessa árs, 2008, standast ekki áætlanir um skatttekjur. Þar munar verulegum upphæðum. Ég tel að óvissa næsta árs sé mun meiri eins og ég gat um áður hvað varðar skatttekjur ríkisins árið 2009. Ég sagði í ræðu minni um fjárlög síðastliðið haust að varasamt væri að treysta á vöxt fjármagnstekna á þessu ári og skatttekjur gætu einnig dregist saman. Hæstv. fjármálaráðherra fannst lítið til um þau aðvörunarorð þá enda var alls staðar bjart hjá honum í lok nóvember síðastliðins.

Við þingmenn hljótum í núverandi stöðu að hugleiða vandlega hvar hægt er að efla atvinnulífið og afla nýrra eða meiri tekna. Ég bendi alls óhræddur á auknar veiðar, einkum auknar þorskveiðar. Það er nauðsynlegt að auka tekjur þjóðfélagsins eins og kostur er við núverandi aðstæður. Með auknum þorskafla upp á t.d. 90 þús. tonn gætum við aukið útflutningstekjur þjóðarinnar um 50–60 milljarða kr. strax á næsta vetri með tilheyrandi margfeldisáhrifum sem hefðu víðtæk áhrif til góðs í þjóðfélagi okkar. Ekki veitir af að auka tekjurnar í sjávarútvegi, því að þótt menn tali hér um að sjávarútvegurinn sé sterkur er samt líklegt er að skuldir sjávarútvegsins um þessar mundir nálgist 500 milljarða kr., m.a. vegna gengisfalls krónunnar undanfarnar vikur. Eru skuldirnar því orðnar um fjórfaldar tekjur sjávarútvegsins á hverju ári. Ég tel að veðsetning aflaheimilda sé komin út fyrir öll skynsemismörk.

Það var rétt hjá forsætisráðherra í gærkvöldi að þjóðin sjálf er mesta auðlindin og að eiginleikar hennar hafa á undanförnum áratugum og öldum skilað okkur í fremstu röð. Við byltum auðvitað þjóðfélaginu á síðustu öld. Hvar fundum við undirstöðu til þess? Við fundum undirstöðu í sjávarútveginum til að gera þá atvinnu- og lífskjarabyltingu sem orðin er hér á landi. Hins vegar er fólki nú meinuð atvinnusókn vegna ákveðinna kvótakerfa bæði í sjávarútvegi og eins til sveita. Það þarf því engan að undra að í núverandi stöðu sé landsbyggðin í vörn og fólki fækki þar. Það eru lögð höft á atvinnufrelsið.

Hæstv. forseti. Um hvað er þjóðin að tala? Þjóðin er ekki að tala um fjárlagafrumvarpið. Þjóðin er að fjalla um þann vanda sem við blasir í fjármálakreppunni í landinu og það ástand sem núna er uppi. Í venjulegu árferði þegar fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram fer fram mikil umræða í þjóðfélaginu um frumvarpið og skoðanaskipti milli fólks. Svo er ekki nú. Við erum á ögurstundu í sögu þjóðar okkar og við verðum að grípa til gjaldeyrisskapandi auðlinda okkar og nýta þær, bæði með tilliti til hagsældar og jafnræðis að leiðarljósi.

Ástandið nú er grafalvarlegt og þeim fjölgar því miður í hverjum mánuði sem sækja um frest á afborgun húsnæðislána hjá Íbúðalánasjóði. Þetta sýnir skýrt að vandi fólks vex með hverjum mánuði og fjöldi þess fólks sem er með íbúðarlán hjá bönkum í erlendum gjaldeyri sækir nú um að borga aðeins vexti og fresta afborgunum. Það er ljóst, hæstv. forseti, að nú þarf að flýta löggjöf um greiðsluaðlögun fyrir þá sem lenda í vanskilum. Kaupmáttur fólks hefur hrunið og umsamdar kauphækkanir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði horfnar í verðhækkunarskriðu, vexti, verðtryggingu og gengisfall krónunnar. Verðugasta verkefnið nú væri auðvitað að við næðum að taka höndum saman um að stöðva eins og kostur er frekari verðhækkanir m.a. á orku, rafmagni og hita til heimilis, sem og einnig aðrar hækkanir sem fara beint út í verðlag og viðhalda verðbólgunni.

Þegar litið er til skatttekna í fjárlagafrumvarpinu vekur eitt sérstaka athygli mína og er ég þó ekki búinn að fara mjög gaumgæfilega í gegnum frumvarpið við þessa umræðu nú. Ástæðan er ekki síst árferðið sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Í þessu árferði ætlar ríkisstjórnin að ganga á undan með kostnaðarhækkanir. Ég nefni kílómetragjaldið sem leggst á bifreiðar sem eru yfir 10 tonn og á að hækka um 11,5% frá næstu áramótum að telja. Þessi kostnaður mun að sjálfsögðu koma inn í vöruverð sérstaklega á landsbyggðinni. Ég vek einnig athygli á því að í fjárlagafrumvarpinu er sagt að jöfnun kostnaðar við vöruflutninga sem var á fjárlögum þessa árs upp á 150 millj. eigi að falla niður á næsta ári. Framlag til að ná fram niðurgreiðslu við vöruflutninga út á landsbyggðina.

Ef ég man rétt hygg ég að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, hafi unnið að skýrslu um þetta mál á sínum tíma og lagt til skynsamlegar tillögur um það hvernig hafa mætti áhrif á þann mikla flutningskostnað sem leggst á landsbyggðina, einkum þau svæði sem eru lengst frá höfuðborginni. Ég harma það, hæstv. forseti, að sú vegferð sem lagt var af stað í með jöfnun flutningskostnaðar vegna vöruflutninga og niðurgreiðslu á þeim kostnaði til flutningsaðila, sem ætti að öðru jöfnu að hafa í för með sér lækkun á vöruverði í dreifðum byggðum landsins, skuli nú vera felld niður í fjárlögum næsta árs í stað þess að reyna að þróa þetta til þess vegar að koma upp flutningsjöfnunarkerfi sem hefði áhrif á það að fólk búi við sem sambærilegast vöruverð hvar sem er á landinu. Aðrar þjóðir hafa farið þessa leið að ég hygg með þokkalegum góðum árangri. Og ég held að það sé mjög vanhugsað að koma með frekari álögur á flutningageirann eins og boðað er í fjárlagafrumvarpinu og fella niður þá fjárveitingu sem hugsanlega hefði getað orðið vísir að því að jafna flutningskostnaðinn að einhverju leyti.

Það er auðvitað hægt að víkja að mörgu fleiru, hæstv. forseti, en þessu atriði sem er náttúrlega ekki stærsti liðurinn í fjárlagafrumvarpinu en getur að mínu viti haft veruleg áhrif á búsetu og afkomu fólks í hinum dreifðu byggðum landsins, sérstaklega þeim sem liggja lengst frá aðalvöruhöfninni í Reykjavík og þar sem þjónustuaðilarnir starfa og einnig á þau svæði þar sem vegirnir eru eins og þeir eru. Og við vorum því miður að upplifa það fyrir nokkrum dögum að dæmt var í undirrétti að vegagerð á Barðaströnd fengi ekki þann framgang sem stefnt var að. Ég tel það sorglega niðurstöðu að ekki sé litið til hagsmuna fólks á landsbyggðinni í þeim dómi. Ég tel hann reyndar afglöp eins og hann var kveðinn upp. Það er hins vegar líklegt að sú ályktun sem dregin er í fjárlagafrumvarpinu um að akstur flutningabíla um þjóðvegi landsins dragist saman kunni að vera rétt eins og kostnaðarþættir hafa þróast í landinu. Ég fagna því vissulega ef skipaflutningar komast aftur á til ákveðinna landsvæða. Ég held að það sé af hinu góða, bæði vegna kostnaðar og ekki síður vegna mikils álags á þjóðvegi landsins sem víða bera ekki þá flutninga sem boðið er upp á. Það var rétt hjá hæstv. forsætisráðherra í gærkvöldi að þjóðin sjálf er mesta auðlindin og við náum því vonandi að gera lífskjör þjóðarinnar allrar þannig að menn standi nokkurn veginn jafnfætis. Það hlýtur að vera markmiðið.

Hæstv. forseti. Það stefnir í geysilega dýrtíð í landinu vegna verðbólgu og hruns á gengi krónunnar. Enginn vafi er á því að hækkun á flutningsgjöldum mun fara beint út í verðlagið sem bitnar svo á almenningi. Ég vil aðeins víkja að tekjunum. Við sjáum að tekjur ríkissjóðs af bensíni og dísilolíu hafa hækkað og þar gætum við haft áhrif til lækkunar með vinnu okkar við gerð fjárlaga fyrir árið 2009. Okkur þingmönnum ber nú skylda til að finna leiðir sem draga úr kostnaði heimilanna í landinu þar sem því verður við komið.

Þegar harðnar í ári og atvinna dregst saman er rétt að auka umsvif ríkissjóðs í arðbærum verklegum framkvæmdum og vinna þannig að verkum sem hvort eð er voru á áætlun næstu ára sé flýtt þegar niðursveifla er í atvinnulífinu. Samdráttur í verkum virkar illa eins og nú horfir í þjóðfélaginu. Þess vegna er rétt að reyna að hafa áhrif á vinnumarkaðinn og atvinnustigið í landinu með þeim sveiflujafnandi áhrifum sem við stefnum væntanlega að varðandi verklegar framkvæmdir. Við munum væntanlega fá góð tilboð í verklegar framkvæmdir og ríkissjóður ætti að hagnast á því sem verkkaupi. Það mun einnig hafa áhrif til góðs á atvinnustigið í landinu og ekki mun af veita.

Þótt ríkissjóður stefni í verulegan halla á næsta ári má alls ekki auka á vandann með víðtækum frestunum verklegra framkvæmda. Við verðum með öllum skynsamlegum ráðum að vinna gegn miklu atvinnuleysi á Íslandi. Ég þekki vel hvað gerist þegar atvinna og tekjur fólks dragast saman. Við sjáum það vel á svæðum eins og Vestfjörðum, þar fækkar fólki jafnt og þétt vegna þess að það fer í burtu þegar tekjur lækka og atvinna verður óviss. Sama mundi gerast á landsvísu ef hér á landi yrði mikið og almennt atvinnuleysi, fólk mundi flytja úr landi og flýja vandræðin sem þá væru orðin staðreynd. Allir eiga val, að vera eða fara. Duglegt fólk sem ekki þolir atvinnuleysið kýs með fótunum og það fer, hæstv. forseti.

Við þurfum einnig að huga sérstaklega að því hvernig við getum tryggt betur stöðu láglaunafólks í landinu nú þegar hækkanir í umsömdum kjarasamningum eru horfnar vegna hækkunar vöruverðs og annarra kostnaðarliða. Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum iðulega lagt það til í hv. Alþingi að taka upp sérstök skattleysismörk og hækkandi persónuafslátt fyrir fólk með lágar tekjur sem hyrfu svo út þegar tekjur fólks hækkuðu. Ég held að í núverandi stöðu þegar verkalýðssamtökin, heildarsamtök launamanna, eru að velta fyrir sér hvernig semja eigi á þessum óvissutímum ætti ríkisstjórnin ekki að slá þær hugmyndir út af borðinu sem verkalýðshreyfingin m.a. hafði uppi í síðustu kjarasamningum, að fá fram sérstakan persónuafslátt sem kæmi best þeim lægst launuðu. Þar settu menn fram hugmyndina um 150 þús. kr. skattleysismörk.

Við stöndum frammi fyrir þeim vanda, þingmenn og ríkisstjórn, að reyna að tryggja hag fólks við mjög erfiðar aðstæður, að reyna að koma í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota. Það er að mörgu að hyggja, hæstv. forseti, m.a. í því sem hæstv. félagsmálaráðherra vék hér að í gær um lánveitingar Íbúðalánasjóðs en þá þarf líka að hugsa um lánveitingar frá bönkunum.