136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Án þess að ég ætli að fara að gefa ræðum einkunnir þá var ræða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um margt athyglisverð. Það er sérstaklega einn þáttur sem ég vil taka undir og það er um breytt vinnulag við gerð fjárlaga og aðkomu framkvæmdarvaldsins að fjárlagagerð og samskipti við þingið. Ég hef flutt um það tillögur nokkur undanfarin ár að þingið verði miklu meira afgerandi þáttur í fjárlagagerðinni en sé ekki eins og hálfgerður stimpilpúði fyrir ákvarðanir framkvæmdarvaldsins. Við höfum búið við ráðherraræði. Ég vil benda á að tvær stofnanir sem eru gælustofnanir í þessu fjárlagafrumvarpi fóru í gang án fjárlagaheimilda. Varnarmálastofnun, sem fór í gang fyrir ári síðan án fjárlagaheimildar og er núna komin með 1,5 milljarða. Burt séð frá hvaða skoðun við höfum á þessu fór hún í gang utan samþykktar þingsins og með fjárskuldbindingar utan samþykktar þingsins. Sama á við um Sjúkratryggingastofnun, einkavæðingarstofnun eða innkaupastofnun heilbrigðisþjónustunnar, hún fór líka í gang og fjárveitingar eða fjárráðstöfun til hennar á þessu ári án samþykkis Alþingis. Fleiri slík stór verkefni mætti nefna, síðast en ekki síst meint kaup á bankanum Glitni, og ég vil spyrja hv. þingmann: Er það mat hans að staðið hafi verið á fyllilega lýðræðislegan (Forseti hringir.) og löglegan hátt og með eðlilegri aðkomu Alþingis að þeim gjörningum eins og þeir liggja nú fyrir?