136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni hlý orð í minn garð og gott mat á ræðu minni. Við áttum saman ágæta vinnu í fjárlaganefnd á síðasta ári og kunnum ágætlega að skiptast á skoðunum.

Það er alveg hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að mikið hefur verið rætt um að reyna að gera bragarbót á samskiptum framkvæmdarvaldsins og þingsins við fjárlagaframkvæmdina og flestir sem tjá sig um þau mál hafa verið nokkuð sammála og samhljóða í afstöðu sinni til þess. Mér virðast vandræðin liggja í því að við séum á einhvern hátt ekki tilbúin til að gefa eftir hvort um sig, framkvæmdarvaldið og þingið, í þeirri viðleitni að ná samkomulagi um hvernig við getum bætt þetta verklag. Flestir virðast vera á því að bæta það. Til þess að það gangi eftir að mínu mati þurfa báðir aðilar að laga sig að nýjum veruleika. Að hluta til kann þetta að liggja í því að umhverfi okkar á hinu háa Alþingi er mjög stíft og það tekur langan tíma að afgreiða hluti og þá þurfum við að leita leiða til að breyta því. Hjá framkvæmdarvaldinu hafa menn aftur á móti vanist því á undanförnum mörgum árum að fá tækifæri til að vinna með þessum hætti.

Varðandi spurninguna sem beint var til mín um málefni bankans Glitnis þá hef ég ekki forsendur til að leggja eitthvert mat á þau lög sem um þetta gilda. Í mínum huga er það ekkert umskrafsmál að einfaldasti hluturinn til að eyða óvissunni um það mál er einfaldlega að leggja fram frumvarp á þinginu og afgreiða það.