136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson er talsmaður Sjálfstæðisflokksins í fjármálaumræðunni og í fjárlaganefnd og gagnvart þinginu leyfi ég mér að spyrja hann hvort von sé á frumvarpi um kaupin á bankanum Glitni og hvort hann sé sammála þeirri túlkun hæstv. forsætisráðherra sem kom fram í viðtölum og ég hef orðrétt afrit af þar sem það var mat hans að kaupin á Glitni hefðu engin áhrif á forsendur fjárlaga og kæmu aðeins til kasta þingsins ef þess væri þörf. Er hann sammála því mati forsætisráðherra? Ég er það ekki, ég tel, sama hvort hægt er að finna lagakróka fyrir þessum gjörningi eins og hann var framkvæmdur — ég ætla ekki að ræða hvort þörf var á honum eða ekki — að þá hafi þetta ekki verið lýðræðislegur gjörningur og enn þá verra að forsætisráðherra skyldi tjá sig um þetta með þeim hætti að þetta hefði engin áhrif á fjárlög og forsendur fjárlaga.

Varðandi hitt málið þá hef ég ítrekað lagt fram á Alþingi frumvarp um fjáraukalög að vori í lok þings þar sem farið væri yfir breytta stöðu sem hefði orðið í meðförum þingsins á fjárlögum o.s.frv. og þá væri tekið á því sem þá lægi fyrir. Það er fullkomlega óviðunandi að ríkisstjórnin, ráðherraræðið í ríkisstjórninni, komi með mörg af stærstu málunum, líka stefnumarkandi mál, og þau séu ákveðin án atbeina Alþingis. Ég nefndi, eins og ég sagði, hermálastofnunina eða Varnarmálastofnun, gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, Sjúkratryggingastofnun, (Forseti hringir.) og Tónlistarhús. Stærstu liðirnir hafa komið án heimildar Alþingis.