136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er eiginlega með hálfum hug að ég fer í ræðustólinn og reyni að ræða um fjárlagafrumvarpið 2009 eins og aðstæður eru í okkar þjóðarbúskap og þjóðmálum um þessar mundir. Það er svo sem ekki mikið sem maður segir á þeim tíu mínútum sem manni eru skammtaðar, ef ég hef tekið rétt eftir, það er ekki einu sinni sá ræðutími sem hin nýju þingsköp leyfa. Það er þá væntanlega á grundvelli einhvers samkomulags um að það sé yfrið nóg að hver þingmaður hafi tíu mínútur til að ræða fjárlög ríkisins fyrir næsta ár. Kannski er allt svo einfalt og liggur svo ljóst fyrir að það sé ástæðulaust að eyða meira púðri í það.

Það eru orðin mikil veðrabrigði í efnahagslífi okkar. Eru þau óvænt? Nei. Hvernig eru menn undir það búnir? Gamalt máltæki segir að fáir kunni sig að heiman í fögru veðri að búa. Að vísu verður það ekki að öllu leyti sagt um ríkissjóð. Vissulega hefur staða hans skánað á veltiárunum að undanförnu. Skárra væri það nú að ríkissjóður hefði rétt úr kútnum og verið með afgangi þegar þær miklu þenslutekjur flæddu inn sem viðskiptahallinn og síðan vaxandi verðbólga leiddu af sér. Vissulega hafa peningarnir verið notaðir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og borga inn á lífeyrisskuldbindingarnar og er það vel. Það hef ég alltaf viðurkennt og tekið fram að það er pínulítið ljós í myrkrinu að ríkissjóður er þetta vel staddur, svona á yfirborðinu a.m.k.

Nú er að versna í því. Nú stefnir í umtalsverðan halla á ríkissjóði strax á næsta ári upp á 57 milljarða ef ég man rétt, um 3,7% af þjóðartekjum. Hvers vegna skyldi þessi halli verða svona snögglega og afgangurinn á þessu ári um það bil gufaður upp? Sennilega verður nokkur halli á ríkissjóði árið 2008 þegar upp verður staðið. Það rifjar upp fyrir mér að ég stóð í þessum ræðustól og var nokkuð undrandi á umræðum sem þá höfðu staðið fyrir ári síðan um, ef ég man þetta rétt, að menn vanmætu afganginn sem yrði á ríkissjóði. Það voru allmiklar umræður, ef minni mitt svíkur ekki, fyrir um það bil ári síðan eða var það við 2. umr.? Þá var talið að af því að menn höfðu vanmetið afganginn á ríkissjóði árinu á undan væri líklegt að það mundi gerast aftur. Ég fór þá í ræðustólinn á undan og bað menn að hafa ekki miklar áhyggjur af því. Færi svo vel að ríkissjóður yrði rekinn með svo myndarlegum afgangi eða meiri væri það ekki vandamál. Hins vegar óttaðist ég mjög að að þessu sinni ofmætu menn tekjur ríkissjóðs vegna þess að þá var öllum hugsandi mönnum löngu ljóst að við værum á leiðinni ofan í djúpan öldudal í efnahagsmálum okkar. Froðutekjurnar hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar innflutningur snarminnkar og það er nákvæmlega það sem hefur gerst.

Hver er stærðargráða hallans sem spáð er á næsta ári, 57 milljarðar? Ætli hún sé ekki mjög nálægt því að vera, framreiknuð á núvirði, skattalækkunin á kjörtímabilinu 2003–2007? Ég tel að hún sé mjög nálægt því þannig að ef ríkissjóður hefði haldið þeim tekjum inni í grófum dráttum gæti hann sennilega staðið með afgangi eða núlli á næsta ári. Eru þá ógleymdar tekjurnar sem við hefðum fengið inn á árunum 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008 ef skattar hefðu ekki verið lækkaðir t.d. á hátekjufólki. Þá ættum við þær innstæður núna í Seðlabankanum, inni á lífeyrisskuldbindingunum og svo víðar. Ég var örugglega einn örfárra manna sem leyfðu sér þann munað þegar menn lækkuðu skatta í gleðivímunni, að minna menn á að ríkissjóður kynni að sakna vina í stað þar sem væru t.d. tekjurnar af hátekjufólki, eignafólki, fjármagnstekjuhöfum og gróðafyrirtækjum sem ríkið af örlæti sínu slakaði út á síðasta kjörtímabili. Nú stefnir í að við þurfum að reka ríkissjóð Íslands með umtalsverðum halla næstu árin. Það er vissulega ekkert annað að gera en það hefði verið gott að eiga annars staðar inni innstæður upp á fleiri tugi ef ekki um hundrað milljarða vegna þess að við hefðum látið hátekjufólkið borga skatta á meðan það skammtaði sér sjálft ofurlaun. Væri nokkuð að því að eiga þá peninga í dag sem bankastrákarnir hefðu þá borgað til samneyslunnar, fjármagnstekjuhafar sem engar launatekjur telja fram og lifa á sveitarfélögum sínum eins og beiningamenn á meðan þeir berast á? En það er eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og nú ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vilja greinilega hafa þetta og eru sjálfsagt stoltar af því.

Nei, ég held að það væri ekkert að því að hér væri 4–6% hátekjuskattur, álag á tekjur yfir hálfa milljón á einstakling, eina milljón á hjón. Af tekjunum þar fyrir ofan borguðu menn aðeins meira til samneyslunnar af mánaðartekjum og vonandi verða einhverjir sem hafa slík laun á Íslandi á næstu árum, þ.e. í þeim skilningi að efnahagslífið fari ekki þannig niður að það hverfi.

Horfurnar eru mjög dökkar. Þó að við tækjum ekkert nema viðskiptahallann sem á að verða á þessu ári og er spáð út kjörtímabilið er það dálagleg summa. Við erum með um 200 milljarða viðskiptahalla á árinu 2007 ef við reiknum kosningaárið á þessa ríkisstjórn. Við erum með tæplega 250 milljarða halla á þessu ári, 247 milljarða held ég. Við erum með 126 milljarða áætlaðan halla á árinu 2009 og tæplega 100 milljarða, 97 milljarða áætlaðan viðskiptahalla á árinu 2010, í viðskiptahalla, frú forseti, svo að fjármálaráðherra hafi það á hreinu. Það gerir litla 670 milljarða kr. í viðskiptahalla á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar ef hún situr það og ef við reiknum kosningaárið hið fyrra til hennar en það seinna til þeirra sem tækju kannski við. Það er talsvert á önnur fjárlög. Svo stendur í plagginu þessi roknabrandari að hagvaxtarskeið sé á enda og að hagkerfið færist nær jafnvægi. Er það eitthvert viðunandi jafnvægi að ætla að reka þjóðarbúið með þótt ekki sé nema með 8 eða 6% viðskiptahalla eins og ætlað er á árunum 2009 og 2010 svo að maður tali ekki um 16% í ár og 15% í fyrra eða 26% eins og var 2006, viðskiptahalli upp á 300 milljarða kr.? Auðvitað er þetta búið að vera svo glórulaust að það hálfa væri nóg og er það enn. Hvað er þetta? Þetta er ávísun á áframhaldandi skuldsetningu þjóðarbúsins og eyðslu langt umfram efni, þannig er það. Horfur eru á halla á ríkissjóði, 57 milljarða sem verða kannski 80–100 milljarðar, að ég spái, á árinu 2009 og að kaupmáttur muni skerðast. Nú skjóta menn á að lífskjararýrnunin á næsta ári verði 5%. Horfur eru á að atvinnuleysi fari að láta á sér kræla og viðskiptahalli eins og ég fór yfir áðan. Það kalla ég ekki að hlutirnir leiti jafnvægis. Það er því miður mjög langt frá því ef þær þjóðhagsforsendur ganga eftir.

Ég vil gera eina athugasemd við landafræðiþekkingu fjármálaráðuneytisins. Það er ekki stórt mál, frú forseti, en rétt skal vera rétt. Það stendur á bls. 9 að fjármálaráðherra skuli hafa heimild til þess að selja íbúðarhús á Sauðanesi í Svalbarðshreppi. Síðast þegar ég vissi var Sauðanes í Langanesbyggð sem heitir nú, var áður í Sauðaneshreppi og þar með leiðréttist það.

Að öðru leyti vil ég aðeins nefna tvennt af efnisatriðum frumvarpsins: Mér finnst sorglegt að í aðstæðum eins og þeim sem við stöndum frammi fyrir í þjóðarbúskap okkar skuli menn telja sig hafa efni á að henda hátt í einum og hálfum milljarði í hernaðarútgjöld suður á Keflavíkurflugvelli. Ég er reyndar einnig hugsi yfir þeim miklu útgjöldum sem fara til utanríkisþjónustunnar þegar ég skoða þann þátt. Ég hef heldur reynt að bera blak af því að við byggðum upp okkar utanríkisþjónustu, það þurfum við auðvitað að gera. En ég er farinn að velta æ meira fyrir mér: Höfum við t.d. efni á því að reka öll þessi sendiráð og þurfum þess? Þurfum þess innan ESB-svæðisins? Geta ekki færri eða jafnvel bara eitt sendiráð séð um tengsl okkar á Evrópusvæðinu?

Síðan verð ég að lokum, frú forseti, að segja að mér finnst dapurlegt að sjá að svelta á Landspítalann áfram með nákvæmlega sama hætti (Forseti hringir.) á næsta ári og gert hefur verið á þessu ári, stofnun sem skuldar birgjum sínum stórfé. (Forseti hringir.) Lyfjafyrirtækin, framleiðendur og heildsalar fjármagna Landspítalann (Forseti hringir.) og hann greiðir þeim 25% vexti af skuldinni. Hvers konar steypa er þetta? (Forseti hringir.) Takið þið nú til þarna, fjárlaganefndarmenn.