136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:04]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem liggur nú fyrir er ekki alveg jafnánægjulegt og það sem við ræddum fyrir ári síðan þar sem boðaður var tekjuafgangur upp á 38 milljarða og leit allt mjög vel út með rekstur ríkissjóðs fyrir líðandi ár. Þvert á móti boðar frumvarpið halla, eitthvað sem ég held að allir hafi búist við. Hallinn er líka talsverður, um 57 milljarðar. Það er alltaf spurningin þegar við stöndum frammi fyrir samdrætti í því ástandi sem nú er hversu mikið við eigum að draga saman í fjárlögunum fyrst tekjur hafa dregist saman. Það er alveg augljóst á fjárlagafrumvarpinu að ekki er dregið mikið saman. Það er auðvitað gert í þeim tilgangi að fjárlögin verði liður í að við getum siglt í gegnum þann öldugang sem nú dynur á okkur. Frumvarpið vinnur gegn því að núverandi ástand hafi keðjuverkandi áhrif þannig að fólk og fyrirtæki hefðu minna fé sem gæti síðan leitt til þess að atvinnuleysi færi vaxandi eins og við höfum séð í löndunum í kringum okkur. Því viljum við sporna gegn og þess vegna er frumvarpið með þessum hætti. Hins vegar er alveg ljóst að þrátt fyrir að ríkissjóður sé sterkur og eigi í kringum 170 milljarða í kornhlöðunum, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur orðað það, þolum við ekki mörg ár með slíkum halla. Það er þá ánægjulegt að sjá í frumvarpinu að um er að ræða tímabundið ástand og ekki á að þurfa að taka lán vegna hallans nú eða næstu ára í ljósi þess hversu mikið hefur verið lagt fyrir.

Það er einnig gott að vita til þess að þær framkvæmdir sem boðaðar voru í síðasta fjárlagafrumvarpi hafa ekki gengið eins hratt fram og menn höfðu reiknað með þannig að þær færast aftur á síðara hluta ársins eða í byrjun næsta árs sem er mjög gott því að ég held ekki veiti af því miðað við ástandið sem við stöndum nú frammi fyrir.

Það er ánægjulegt fyrir marga að skattleysismörk munu hækka talsvert mikið um áramótin. Þau munu hækka um 18%. Það er hátt hlutfall sem er til komið vegna þess að hér er verðbólga. Verðbólgan bankar því miður á dyrnar hjá okkur og þar sem skattleysismörkin eru nú vísitölutryggð hækka þau þannig. Það tryggir þó að skattleysismörkin sem slík draga ekki úr þeim kaupmætti sem ella hefði orðið ef því hefði verið breytt á síðasta ári.

Í frumvarpinu er framkvæmdaátak þannig að sú eyðsla sem bætist við milli ára er talsvert bundin við framkvæmdir en ég undirstrika þó að þarna er heilmikill vöxtur í þáttum sem ekki er hægt að snúa til baka með eins og leiðrétting bóta til ýmissa þjóðfélagshópa sem á því þurftu að halda. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir að leiðrétta það. Þar með er verið að auka útgjöld til velferðarmála og til heilbrigðismála sem er nokkuð sem kallað hefur verið á og þá hefur líka verið tryggð afkoma eldri borgara umfram það sem var fyrir ári síðan.

Það sem er kannski alvarlegast fyrir okkur þegar við horfum upp á hallann á næsta ári er verulegur samdráttur tekna á líðandi ári þannig að rekstrarafgangurinn fer úr því að vera 38 milljarðar, tel að sé rétt munað hjá mér, niður í að vera 3 milljarðar. Jafnvel gæti það endað svo að yfirstandandi ár verði rekið með halla. Þá komum við að því sem mikið hefur verið rætt um, það er sjálfvirk sveiflujöfnun sem er í hinu sjálfvirka fjárlagafrumvarpi eða í fjárlögum okkar, þ.e. að tekjur í þjóðfélaginu aukast hratt þegar mikið er umleikis og þá hækka tekjur ríkisins mjög skarpt. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á hafa það verið kallaðar skattahækkanir. Það sem gerist nú er að tekjur ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu fara lækkandi og eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á er hann þar af leiðandi að lækka skatta. Það er þó ekki þannig. Í mínum huga eru skattar lækkaðir með því að lækka skattprósentu. Það þýðir að mínu mati að þegar við fáum niðursveiflu munu tekjurnar jafnframt lækka mjög hratt. Eins og tekjur hækka mjög hratt í uppsveiflunni lækka þær mjög hratt í niðursveiflunni. Þess vegna óttast ég að það gat sem er í fjárlagafrumvarpinu upp á 57 milljarða geti orðið enn stærra. Þess vegna er það, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á áðan, mjög mikilvægt að gætt sé aðhalds í rekstrinum því að sú staðreynd að tekjurnar lækka hraðar og meira en gert er ráð fyrir er mjög alvarlegt mál fyrir okkur og mun e.t.v. þýða að stíga verði enn þá fastar á bremsurnar á næsta ári en við vonum auðvitað það besta. Afleiðing þess sem við stöndum frammi fyrir í dag er þessi blessaða lánsfjárkreppa sem allt ætlar að drepa núna og farinn er af stað einhvers konar spírall sem er ekki góður og við vonum svo sannarlega að fari að leysast úr. Ef það gerist ekki þýðir það að við getum búist við meira atvinnuleysi en ráð er fyrir gert og þá verða tekjur ríkissjóðs fljótar að dragast saman. Þá eru líka fljótar að hækka þær upphæðir sem við þurfum að reiða fram vegna atvinnuleysis. Það er nokkuð sem við viljum ekki horfa upp á, alls ekki.

Hvað er til ráða? Það er auðvitað engin töfralausn til. Ég held að allir geri sér grein fyrir því. Það róa allir í sömu átt til að reyna að vinna sig út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, ráðamenn þjóðarinnar vinna að því hörðum höndum. Það sem gátum ekki séð fyrir var að hið mikla hrun bankanna, að svo margir bankar skyldu fara á hausinn erlendis, við gátum einfaldlega ekki séð það fyrir. Við það stoppast lánalínur héðan frá Íslandi. Það er lokað á þær og veldur því að við erum stödd þar sem við erum í dag varðandi gjaldeyrismálin.

Eitt af því sem ýmsir hafa sagt er að efla þarf skuldabréfaútgáfu og gera það meira freistandi fyrir lífeyrissjóði og aðra sem eiga peninga erlendis að flytja þá heim. Það er örugglega eitt af því sem hægt er að gera. Seðlabankinn verður, og vonandi tekst honum það, að afla aukins gjaldeyris með lántöku. Þar sem krónan er svona veik hefur útflutningur (Forseti hringir.) af tækjum og bílum frá Íslandi aukist að undanförnu. (Forseti hringir.) Eitt af því sem við gætum gert er að breyta skatta- og innflutningslöggjöfinni þannig að endurgreiddir verði ákveðnir tollar (Forseti hringir.) eða skattar sem eru við útflutning á venjulegum fólksbílum sem standa í röðum (Forseti hringir.) allt í kringum okkur fyrir milljarða. (Forseti hringir.) Þá gætum við komið í veg fyrir rýrnun á þeim og jafnframt fengið (Forseti hringir.) einhvern gjaldeyri inn í landið.