136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:36]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar í morgun gerðum við hv. þm. Ögmundur Jónasson grein fyrir því að við teldum rétt að fresta þessari umræðu. Við höfðum að vísu ekki nema stuttan tíma til þess að gera grein fyrir því af hverju en við töldum rétt að fresta umræðunni vegna þess að það væri ekki hægt að tala um fjárlagafrumvarpið miðað við aðstæður í þjóðfélaginu í dag.

Fyrst hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gengur í salinn má nefna að hann blandaði sér í umræðurnar og hélt því fram að þessar umræður yrðu að fara fram og vísaði til stjórnarskrár. Hvernig sem lúsar er leitað í stjórnarskránni verður þó ekki séð að neitt hald sé í tilvísun í stjórnarskrá hvað þetta varðar. Þar er eingöngu talað um að umræður um fjárlög skuli fara fram og þau skuli afgreidd með ákveðnum hætti en ekki að umræður um fjárlög skuli fara fram á ákveðnum tíma, þ.e. á öðrum þingdegi eða þingdegi eftir að stefnuumræða forsætisráðherra liggur fyrir.

Þá sagði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson í umræðunni áðan að þeir sem vildu fresta umræðunni töluðu af miklu ábyrgðarleysi. Í hverju felst það ábyrgðarleysi, mér er spurn? Er ábyrgðarleysi að fara fram á og gera kröfu til þess að hægt sé að fjalla um fjárlögin og fjárlagafrumvarpið miðað við þann raunveruleika sem er fyrir hendi? Raunveruleikinn sem kann að vera til staðar árið 2009 blasir því miður ekki við. Það sem um var að ræða og sett var fram þegar það frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir var útbúið — forsendur þess eru gjörsamlega brostnar. Þær breytast með hverjum klukkutíma sem líður miðað við það stórviðri sem gengur á í okkar efnahagsmálum, því miður — það er bara staðreyndin í málinu.

Eitt atriði er stórmál og hefði átt að vera fyrsta mál sem hefði verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga, þ.e. yfirtaka ríkisins á Glitni banka. Þar er um að ræða að verja á um 100 milljörðum af fé ríkisins til þeirrar yfirtöku og það er mál sem var aðkallandi að Alþingi ræddi. Ég gerði að umtalsefni í umræðunum í gærkvöldi að nauðsynlegt væri að við færum í gegnum nauðsynlega pólitíska umræðu varðandi ríkisvæðingu þessa banka. Hvert stefnir? Hvað hyggst ríkisstjórnin gera? Ætlar ríkisstjórnin að grípa til sömu ráða og gert hefur verið t.d. í Grikklandi og Írlandi? Er það yfir höfuð mögulegt miðað við ofurstærð bankakerfisins, þá þjóðarframleiðslu og þjóðarauð sem við búum yfir og þá miklu erlendu hluti sem bankarnir standa fyrir?

Þessi atriði hljóta að koma til skoðunar og verða viðfangsefni á næstu dögum. Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir í dag og gerir að verkum að umræða um fjárlagafrumvarp verður mjög ómarkviss er að við vitum ekki hvernig gjaldmiðillinn sveiflast. Það höfum við í raun aldrei vitað síðan gjaldmiðillinn var settur á flot árið 2001. Þá var um að ræða breytingu á stefnu varðandi almenn gjaldmiðilsmál. Hópur hagfræðinga hafði talað fyrir því að það yrði gert, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnir gætu með ábyrgðarlausum hætti prentað peningaseðla og þannig stuðlað að verðbólgu. Hugmyndin var sú að gera breytingar á gjaldmiðilsmálum til að koma í veg fyrir þá miklu verðbólgu sem hafði orðið, sérstaklega á árunum upp úr 1970. Þá voru ríkissjóðir reknir með miklum halla eins og reyndar er ráðgert samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Átrúnaðargoð hæstv. fjármálaráðherra og ýmissa fleiri, Milton Friedman, benti sérstaklega á að það væri gjörsamlega út í hött að afgreiða fjárlög með halla; slíkt væri ekkert annað en ávísun á seðlaprentun sem mundi enda í verðbólgu og gengisfellingu gjaldmiðils. Nú erum við stödd mitt í mikilli verðbólgu, því sem við mundum kalla óðaverðbólgu, og gengisfelling gjaldmiðils á hverjum degi er meiri en nokkur hefði búist við.

Þegar við tókum upp þetta gjaldmiðilskerfi árið 2001 lét ég í ljós þá skoðun að þetta væri hið mesta óráð. Þótt það gæti verið gott fyrir stórþjóðir, t.d. Bandaríkjamenn og þess vegna Þjóðverja og ýmsa fleiri, að fara út úr því kerfi sem hafði verið við lýði í gjaldmiðilsmálum fram til þess tíma til þess að ná þeim árangri sem talað hafði verið um — til þess að draga úr verðbólgu — þá var þetta hið mesta óráð fyrir smáþjóð. Það var útilokað að smáþjóð gæti komist í gegnum slíkt; að hafa örmynt á floti eftir markaðsgengi hverju sinni þannig að stærstu markaðsaðilar í hverju þjóðfélagi gætu ráðið dagsgenginu eftir því sem þeim hentaði. Við höfum ítrekað horft upp á það að stórir innlendir markaðsaðilar geta fellt krónuna ef þeim sýnist svo og það þjónar þeirra hagsmunum. Þannig hefur það verið.

Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna árið 2003 úr 4% í 2%. Það var að mínu viti gjörsamlega glórulaus aðgerð á þeim tíma, þegar bankarnir tóku stórt stökk fram á við, þurfti virkilega að gæta aðhalds og sýna gætni og varúð. Það var ekki gert og við erum að súpa seyðið af því í dag, þeim mistökum sem hafa verið gerð í hagstjórn á Íslandi þennan tíma. Kerfi ofurstýrivaxta hafði í för með sér að erlendur gjaldeyrir streymdi inn og stuðlaði að hágengi sem engin innstæða var fyrir. Það magnaði enn vandann og gerði að verkum að undirliggjandi verðbólga kom ekki fram í hagkerfinu vegna þess að í raun var verið að handstýra gengismálum með ofurvöxtum.

Einhvern tíma hlaut að koma að lendingunni. Ég hafði vonast til þess að hún yrði með öðrum hætti og mildari en virðist vera að gerast í dag. Þeir sem hafa ofurtrú á hinum merka hagfræðingi Milton Friedman, sem ég met raunar mikils líka, hafa gleymt einu. Hann benti sérstaklega á að peningamagn í umferð mætti aldrei verða meira en sem næmi framleiðsluverðmætum hverrar þjóðar því að annað mundi leiða til verðbólgu. Einmitt það gerðist hjá okkur. Þenslan undanfarin ár hefur verið skuldsett. Þenslan hefur m.a. komið til vegna þess að við höfum haft aðgang að ódýru lánsfjármagni og við höfum haft möguleika á því með því að handstýra genginu og hafa hágengisstefnu. Það hefur í raun verið olía á eldinn vegna þess að fólk gerir sér alveg grein fyrir því að það getur verið hagkvæmt að gera hluti meðan hlutir eru á útsölu eins og erlendur gjaldeyrir var á sínum tíma. Með jöklabréfaútgáfunni var enn meiri olíu hellt á þenslueldinn. Þá var peningamagnið í umferð miklu meira en sem nam framleiðsluverðmætunum.

Þann 27. mars sl. skrifaði hið virta rit Financial Times að Ísland væri risastór vogunarsjóður. Öll þessi atriði og sjónarmið lágu fyrir í byrjun síðasta þings. Það er því með nokkrum fádæmum að virk raunhæf peningamálastefna skuli ekki hafa verið unnin af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er til verulegs vansa að ríkisstjórnin skuli ekki hafa brugðist við og gert ráðstafanir varðandi gjaldmiðilsmálin áður en við lentum í snjóflóðinu.