136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við upphaf umræðunnar hér í morgun komu fram óskir um að henni yrði frestað en við framsóknarmenn höfum ekki tekið undir þá ósk. Við teljum að þrátt fyrir að fjárlagafrumvarpið sem við ræðum hér sé meingallað að því leyti að allar forsendur eru meira eða minna brostnar þjóni það engum tilgangi að fresta umræðunni, það er svo mikið að gerast í samfélaginu um þessar mundir að það mundi ekki hafa mikið upp á sig. Við teljum því að þessi umræða eigi að fara fram og málið eigi að fara til fjárlaganefndar og þar verði farið yfir það eins og venjulega. Ég lýsti því þannig í morgun að segja mætti að fjárlagafrumvarpið væri skrifað með ósýnilegu bleki af því að það mun bara gufa upp, það sem í því stendur mun að talsverðu leyti ekki standast hvað forsendurnar varðar. En auðvitað þarf að vinna þetta faglega, það er mikið verk að setja slíkt fjárlagafrumvarp fram, þetta er rammi, og hefð er fyrir því að fjárlaganefnd breyti því eftir því sem þörf þykir og að þessu sinni er, held ég, augljóst að því verður breytt verulega.

Við töldum að umræðan yrði langt fram á kvöld og því var heimilað að fara fram yfir klukkan átta í kvöld án teljandi vandræða hvað varðar störf þingmanna. En ég held að það sé augljóst miðað við mælendaskrá að umræðunni verður brátt lokið, það er því engin þörf á að vera svo lengi. Þetta lýsir ástandinu, það er uppnám í samfélaginu vegna stöðu bankamála. Þingmenn halda að sér höndum, menn vilja ekki rugga bátnum mikið, menn vita ekkert hvað er að ske og hvað mun ske og menn vilja ekki hafa slæm áhrif á markaðinn með því að fara geyst hér á Alþingi. Það er því mjög lýsandi fyrir stöðuna í samfélaginu að enginn kraftur er í umræðum um fjárlagafrumvarpið, það er ósköp lítið um að tala. Staðan er svo óviss og við vitum að forsendurnar eru brostnar að verulegu leyti varðandi frumvarpið.

Hér hefur líka komið fram að í frumvarpinu segir um efnahagsstefnuna og markmið fjárlaga, og það hafa þingmenn lesið upp, með leyfi virðulegs forseta:

„Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að færast nær jafnvægi á ný.“

Þetta stenst ekki enda sá hæstv. fjármálaráðherra sér ekki fært að fara með þessa setningu í framsöguræðu sinni heldur bætti hann því við að fram undan væri nokkur lægð o.s.frv. Hæstv. ráðherrar hafa því brugðist við, m.a. fjármálaráðherra, gagnvart stöðunni með orðum sínum hér. Þess mátti líka sjá stað í gær í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, ræðudrögin sem hann hafði dreift sem trúnaðarmáli til þingmanna tóku mjög miklum breytingum. Þar var alls ekki verið að breyta einhverjum örfáum setningum, eins og maður hélt kannski, heldur fuku þar heilu kaflarnir og aðrir kaflar komu inn. Ræðan var þar af leiðandi miklu meira í takt við það sem var að gerast í gær, þannig að nú eru menn að bregðast við þessari stöðu á mjög skömmum tíma.

Allir eru mjög uggandi yfir stöðunni. Mig langar, virðulegur forseti, að lýsa því að ungt fólk hefur miklar áhyggjur og tilgreini þá sérstaklega Samband ungra framsóknarmanna, sem eru ungliðasamtök í mínum flokki. Stjórn samtakanna kom saman í gær og ályktaði, og mig langaði að tipla á ályktuninni sem hún sendi frá sér í gær. Þar er ríkisstjórnin átalin fyrir að taka ekki strax á vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Tilgreint er að á þeim tíma sem liðinn er síðan flokkarnir tóku við stjórn landsmála hafa talsmenn þeirra ekki hlustað á varnaðarorð okkar framsóknarmanna né annarra í samfélaginu sem hafa bent á ýmis hagstjórnarmistök sem gerð hafa verið. Það er líka tínt til að staðan í efnahagslífinu sé alvarleg og tímabært að það verði viðurkennt og ef ekki verði strax ráðist í samhentar aðgerðir muni stærri skaði hljótast af. Það er sagt að aðgerðaleysisstefna ríkisstjórnarflokkanna hafi nú þegar stórskaðað trúverðugleika íslensks efnahagslífs og nauðsynlegt sé að ráðast strax í samhentar aðgerðir ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarstjórna, Seðlabanka og samtaka atvinnurekenda, launþega og fjármálafyrirtækja með það að markmiði að snúa við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin.

Það er líka tilgreint hér, virðulegur forseti, að ungir framsóknarmenn vilja greiða fyrir erlendri fjárfestingu í landinu til þess að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað, m.a. með uppbyggingu stóriðju, svo sem á Bakka, í Straumsvík og í Helguvík, í uppbyggingu hátækniþjónustu, t.d. gagnaverum, felast auk þess mörg sóknarfæri. Hér er sagt að auka þurfi gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar verulega til að styðja við fjármálakerfi landsmanna og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs og loksins þarf Seðlabankinn að hefja vaxtalækkunarferli enda ljóst að heimili og atvinnulíf í landinu geta ekki staðið undir núverandi vaxtabyrði. Unga fólkið okkar lætur þessi mál til sín taka og hefur áhyggjur eins og við hin sem eldri erum.

Framsóknarmenn hafa allt frá því í sumar varað við stöðunni. Við bentum á þetta, formaður flokksins, hv. þm. Guðni Ágústsson, hafði forustu um það strax í sumar að benda á stöðuna sem var að mörgu leyti fyrirsjáanleg. Þá var strax kominn óróleiki í fjármálalífið og bentum við á að mjög óvarlega væri farið í fjárlagafrumvarpi síðasta árs eða á síðasta ári, því fjárlagafrumvarpi sem var svo samþykkt og eru fjárlög í dag. Það var 20% þensla í því frumvarpi, sem var afar óeðlilegt miðað við að við vorum að koma úr kosningabaráttu og í slíku árferði leyfðu menn sér að spýta frekar inn í hagkerfið heldur en hitt. Það er hefðbundið að menn stígi á bremsuna eftir kosningar, en það var ekki gert. Áfram var gefið inn gas en ekki stigið á bremsuna og í fjárlagafrumvarpi síðasta árs var mjög óvarlega farið. Miðað við fjárlagafrumvarpið sem við erum með í höndunum sýnist manni að það sé upp á teningnum aftur, það er ekki nógu mikið aðhald í því.

Þó ber að fagna því að verið er að halda til haga fjárfestingum og reyndar verið að færa frá síðasta ári til ársins í ár. Við bentum á það líka, við framsóknarmenn, að fyrirsjáanlegt var að ekki yrði hægt að setja út alla þá fjármuni sem settir voru í samgöngumálin — að ekki væri hægt að koma þeim öllum út á þeim tíma sem áætlað var þannig að þeir peningar yrðu að færast á milli ára núna.

Ég vil benda á það sérstaklega, virðulegur forseti, að það er ágætt að velta því fyrir sér hvar við værum stödd núna hefði Framsóknarflokkurinn, í samstilltu átaki í síðustu ríkisstjórn, ekki staðið að þeirri uppbyggingu í atvinnumálum í stóriðju sem orðin er. Það er mjög athyglisvert að skoða svar sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fékk frá iðnaðarráðherra við fyrirspurn sinni um þau mál. Þar kemur fram að í ár verður hlutfall álframleiðslu í útflutningstekjum rúmlega 30% af heildarútflutningstekjum. Þetta er mjög stór hluti.

Hvað eykst þessi hlutur mikið milli ára? Jú, árið 2008 er áætlað að útflutningur áls aukist um 70% að magni til, þannig að þetta er mikil aukning. Við bæði fáum inn miklar tekjur, nýjar tekjur, fyrir utan það að við sköpum hér afar mörg störf en nú eru samtals um 4.500 störf í þessum iðnaði, þ.e. bæði fastir starfsmenn og áætluð afleidd störf. Maður spyr sig því núna: Hefðum við ekki haft þrek til þess að fara í þá uppbyggingu, væri staðan miklu verri í dag en hún þó er, þó að hún sé alls ekki góð? Við framsóknarmenn höfum verið þess fylgjandi að við höldum áfram á þessari atvinnuuppbyggingarleið, við höldum áfram í uppbyggingu í m.a. stóriðju en að sjálfsögðu líka í ferðamálum og hátækniiðnaði og öllu því sem hægt er að tína til. En það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að misklíðin innan ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu í stóriðju hefur skaðað. Ég vona að menn beri gæfu til að snúa bökum saman í því árferði sem við horfum nú upp á og að þeirri misklíð linni.

Svo vil ég líka, virðulegur forseti, tiltaka að við þurfum að horfa til annarra atvinnugreina. Ég nefndi áðan ferðaþjónustuna, þar eru geysilega mörg sóknarfæri. Vegna gengismála kemur ferðaþjónustan frekar vel út þannig að það væri þess virði að setja verulegan kraft í hana. Það er ágætisgrein eftir Ólaf Hauksson í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann eggjar iðnaðarráðherra til að leggja meiri kraft í markaðsmálin um þessar mundir.

Virðulegur forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vona að fjárlagafrumvarpið fái góða umfjöllun í fjárlaganefnd þó að ég geri mér grein fyrir því að allar forsendur eru brostnar. (Forseti hringir.) Það verður geysilega mikið verk í nefndinni að ná þessu saman svo að eitthvert vit sé í miðað við núverandi aðstæður.