136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:20]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni fór ég svona út og suður eins og margir hv. þingmenn hafa gert í sínum ræðum hér á undan. Við hv. þm. Bjarni Harðarson höfum greinilega sameiginlegan áhuga á því að Vatnajökulsþjóðgarður byggist upp og verði aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Ég get vissulega tekið undir það með hv. þingmanni að auðvitað færi best á því að þau störf sem búin eru til fyrir garðinn væru ekki í Reykjavík heldur við Vatnajökul. Þau störf sem komin eru hér í Reykjavík eru færanleg og ekki er víst að það verði endilega niðurstaðan. Þannig að við skulum sjá til. Ég veit ekki betur en að í svörum hæstv. umhverfisráðherra hafi komið fram að það sé einmitt hugmyndin þegar fram í sækir.