136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:24]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni ræddi ég að það þyrfti að gæta aðhalds í ríkisrekstri. Ég tel reyndar að það þurfi ávallt að gæta aðhalds í ríkisrekstri og kannski er það enn nauðsynlegra nú þegar samdráttur er í tekjum en áður.

Svo ég tali nú eins og hagsýn húsmóðir þá gerist það auðvitað á heimilum í landinu að þegar tekjur til heimilisins dragast saman er reynt að skera niður og hagræða í heimilisrekstrinum. Það sama þarf að vera uppi á teningnum í ríkisrekstrinum.

Hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarð, sem við vorum að tala hér um áðan, geri ég fastlega ráð fyrir því að fleiri stöðugildi komi til garðsins þegar fram í sækir og umsvif þjóðgarðsins verða meiri. Þá skal ég leggja hv. þingmanni lið í baráttu fyrir því að þau stöðugildi fari á landsbyggðina. Vonandi verður það þannig, eins og ég sagði í fyrra svari mínu, að þótt þær tvær stöður sem búið er að ráða í séu í Reykjavík geti það breyst innan tíðar.