136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:26]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég tek nokkuð til mín þessa síðustu ádrepu forseta því ég er sjálfur sekur að því að hér glumdi minn farsími áðan. Var því nú þannig varið að ég hafði fengið mér kríu í síðdeginu og stillt vekjaraklukku en risið upp fyrr en ég ætlaði og gleymt að slökkva á henni; en nú hef ég slökkt á símanum.

Þótt ég hafi ekki verið í þingsalnum áðan hlýddi ég á ræðu hv. formanns fjárlaganefndar sem ég þakka fyrir. Margt var gott í þeirri ræðu en mig langar þó að koma sérstaklega að þeirri gagnrýni sem þar var á málflutning annarra ræðumanna. Fyrst vil ég segja að ég tel mjög miður í orðræðu sem þessari þegar talað er í hálfkveðnum vísum; þegar höfð er að fyrirmynd sú þula sem nóbelsskáldið setti einhvers staðar í sögu hjá sér: það sem sumir segja um suma þegar sumir eru hjá. Formaður fjárlaganefndar vék með óbeinum hætti að minni ræðu án þess þó að kveða upp úr með það fullum fetum að hann væri í rauninni að tala um mína ræðu. Ég tel miklu eðlilegra að við tölum skýrt og afdráttarlaust í slíkri orðræðu milli okkar og við séum menn að meiri fyrir það.

Þess vegna ætla ég að tala skýrt og afdráttarlaust um það sem hér var til umfjöllunar. Formaður fjárlaganefndar benti á að það væri mótsögn að tala samhliða fyrir ríkisútgjöldum og sparnaði, fjárfestingum og niðurskurði. Þarna gætir ákveðins misskilnings. Fjárlagafrumvarpið er frumvarp um það hvernig við eyðum skattfé almennings, hvernig við eyðum tekjum ríkissjóðs og jafnvel meira en þeim eins og nú er raunin. Viðfangsefnið, bæði hjá þeim sem semja frumvarpið og okkur sem fjöllum um það á síðari stigum í fjárlaganefnd og síðan í þingsölum, er samt sem áður fyrst og fremst hvernig megi takmarka eyðsluna. Þannig er þessu einfaldlega varið. Við höfum ekki bara skóflur til að moka út úr peningatankinum og þurfum ekkert að hugsa um það hvernig gullið lendir. Við þurfum að velta hverri einustu krónu fyrir okkur rétt eins og hin hagsýna húsmóðir sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir vék að áðan.

Vissulega er þörf á ráðum hinnar hagsýnu húsmóður nú um stundir. Það er þörf á almennri hagsýni og því að við veltum hverri krónu fyrir okkur. Jafnhliða því að við köllum eftir að ríkissjóður komi myndarlega inn í atvinnulífið þurfum við líka að gera þá kröfu að ríkissjóður gæti miklu meira aðhalds en hann hefur gert, vegna þess að það leggjum við á allt samfélagið. Það var það sem ég vék að í ræðu minni hérna áðan. Ég var ekki að tala um að við ættum að byggja upp hús eða fjárfestingar og láta þau síðan standa tóm af því við tímdum ekki að hafa þar starfsemi. Það er fráleitt að lesa það út úr málflutningi mínum.

Það sem ég var að tala um var það sama og ég vék að áðan í ræðupúlti. Í fjárlagafrumvarpinu sem liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir að ríkisstofnanir líði fyrir ástandið í efnahagsmálum. Þeim sem stýra ríkisstofnunum finnst kannski sanngjarnast og best að þeir séu ósnortnir af verðbólgunni og geti fengið hana bætta að fullu rétt eins og gengistryggðir sparifjáreigendur, eða lánveitendur öllu heldur, hafa getað.

Svona einfalt er þetta þó ekki vegna þess að það hlýtur að vera grundvallarkrafa að nokkurn veginn sami veruleiki sé inni í hinum hlýju stofum ríkisvaldsins og úti í samfélaginu sjálfu. Nú þegar virkilega herðir að bæði í rekstri heimila og fyrirtækja þurfa stofnanir líka að taka á með svipuðum hætti og beita ráðum hinnar hagsýnu húsmóður. Ég hef ekki verið að tala fyrir því að við höggvum ákveðnar fjárveitingar af. Ég er einfaldlega ekki kominn svo langt í lestri þessarar miklu bókar og alls þess sem henni fylgir að ég vilji kveða upp úr með það hvar ég vilji sérstaklega auka í og hvar ég vilji skera niður með einstakar framkvæmdir. Ég tel þó að 29 milljarða aukning á fjárframlögum sé beinlínis vegna verðbólgu en ekki vegna launaþátta, ef ég hef skilið frumvarpið rétt. Ég hef þegar kallað eftir skýringum ofan úr fjármálaráðuneyti þar sem kaflinn um þetta í fjárlagafrumvarpinu er svolítið óljós. Það er þó ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að 29 milljarðar séu beinlínis vegna verðbólgunnar að launaliðnum slepptum.

Ég hef aftur á móti ekki gagnrýnt að liðir sem lúta beint að því sem við höfum samið um í kjarasamningum hækki. Það sem ég vík að er á blaðsíðu 214 og 215, af því ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar tekur upp stóru bókina. Sú opna er mjög fróðleg, eins og reyndar allt plaggið.

Ég legg áherslu á þetta og kalla eftir ákveðinni samstöðu vegna þess að ég er sammála því mati hv. formanns fjárlaganefndar að við eigum að nota þennan þingsal, þessa umræðu og umræðuna í fjárlaganefnd til að leita lausna. Það er okkar hlutverk. Við eigum ekki að nota hana fyrst og fremst til að höggva hver í annan. Ég held að samstaða og samstarf sé mikilvægara og brýnna fyrir þessa þjóð núna en nokkru sinni. Þótt ekki verði að veruleika það sem seðlabankastjóri hafði að orði — og fór nú mikið fyrir brjóstið á einhverjum að hann skyldi enn þá hafa málfrelsi — að hér skyldi mynduð þjóðstjórn tel ég engu að síður mikilvægt að allir taki höndum saman. Ég tel að ráð væri að ríkisstjórnin gæfi þjóðinni skilaboð um að þrátt fyrir þá miklu gengislækkun sem er nú um stundir — og vissulega getur hún átt eftir að dýpka, það eru til efnahagsspekingar sem telja að vísitalan geti farið langt á þriðja hundraðið — en fólk sé samt fullvissað um að hún muni áður en lýkur fara upp fyrir þá tölu sem hún er nú.

Þetta er mjög mikilvægt til þess að menn telji ekki hag sínum best borgið með því að hamstra gjaldeyri eða liggja á honum. Skilaboðin til almennings ættu núna þvert á móti að vera þau að þeir sem eiga gjaldeyri hafi af því nokkurn hag að skipta honum yfir í íslenskar krónur. Þótt það sé lítið hjá hverjum og einum getur munað um slíkt. Það getur munað mjög mikið um ef ríkisstjórninni tekst þannig að tala samstöðu inn í þjóðina, róa ástandið með almennum orðum og fullvissa þjóðina með einhverjum hætti, betur en í eldhúsdagsumræðunni í gær, um að það verði gripið til aðgerða. Ég vil trúa að það verði gert. Þó að ég hafi gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir það sem liðið er og telji raunar forkastanlegt hvað hún hefur verið lengi að koma sér að verki vil ég ekki trúa öðru en það líði að því að við sjáum einhvern árangur af hennar vinnu og sjáum menn þar vakna. Það hefur verið verk okkar í meira en ár að reyna að vekja stjórnarmeirihlutann og kannski þurfti hrinan að ganga jafndjúpt niður og um síðustu helgi þegar einn af bönkum okkar var þjóðnýttur.

Það er líka mikilvægt að stjórnvöld fullvissi okkur og kveði niður allan orðróm um að nú sé ástæða til þess að menn óttist um hag hinna bankanna sem enn starfa. Ég vil trúa því að þar sé um of sagt. Við aðstæður eins og núna er í rauninni afskaplega ljótur leikur að ganga of langt í að hafa uppi hrakspá. Það er ekki bara vandasamt hlutverk að vera í stjórnarmeirihluta við aðstæður eins og þessar. Það er ekki síður vandasamt að vera í stjórnarandstöðu og gagnrýna án þess að ganga það langt að einhvers konar ástand skapist í samfélaginu sem getur gert illt mikið verra.

Ég kalla sérstaklega eftir því — af því að ég sé að formaður fjárlaganefndar er í salnum — hvort hann hafi þá sömu sýn á hlutina og ég, að það beri einnig að skera niður í hinum opinberu stofnunum og þær eigi að taka á sig eitthvað af þeim verðbólgukostnaði (Forseti hringir.) sem lendir nú á öllu samfélaginu.