136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:36]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var vikið að fyrri ræðu minni í dag en sú ræða var nokkuð almenn. Það má vel vera að hv. þm. Bjarna Harðarsyni hafi þótt ég tala í hálfkveðnum vísum. Án þess að taka jafndjúpt í árinni og hv. þingmaður vil ég þó segja eins og krakkarnir í grunnskólunum segja: „Spegill“. Það þýðir í raun og veru að oft er það svo að stjórnarandstaðan talar í hálfkveðnum vísum. Í þessu tilfelli benti ég á að mér hefur fundist Framsóknarflokkurinn á umliðnum mánuðum stundum tala í hálfkveðnum vísum og kannast ekki við þau verk sem ýtt var af stað á síðasta kjörtímabili og endurspegluðust í fjárlögum og fjárlagafrumvarpi fyrir 2008. Ég er alls ekki að setja út á það.

Það eru fjölmörg verkefni, hvort sem það eru reiðhallir eða samgöngumannvirki eða einn og annar samningur sem ríkisstjórnin gerði, sem endurspeglast í þessu frumvarpi. Það var ekki neinn vilji til þess, hvorki af hálfu stjórnarmeirihluta né stjórnarandstöðu, til að taka þau út. Þau verk eru komin af stað hvort sem það eru fjárfestingarverk eða rekstrarverkefni. Það er það sem ég var að tala fyrir í minni frábæru ræðu fyrr í dag, þ.e. að mætti vera með öðrum hætti.

Ég boðaði, líkt og hv. þm. Bjarni Harðarson félagi minn, ákveðið samráð um þessa hluti og var alls ekki að setja út á eitt né neitt hjá stjórnarandstöðunni heldur fyrst og fremst að segja að menn þurfi að koma málefnalega að umræðunni og ýta svona talsmáta til hliðar. Niðurstaða mín, virðulegi forseti, er „spegill“ í þessum efnum.