136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:44]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að ég geri ekki lítið úr þeim erfiðleikum sem steðja að í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar. Þau vandamál eru vissulega risavaxin, að því leyti má taka undir sjónarmið stjórnarandstöðunnar um að frumvarp til fjárlaga er lagt fram á miklum óvissutíma og raunar hefur hæstv. fjármálaráðherra undirstrikað það sjálfur. Frumvarpið kann því að taka miklum breytingum við meðferð í þinginu og með tilliti til þeirrar stöðu sem upp kann að koma á næstu vikum og allt fram til áramóta. Spár geta breyst, verðlag hækkað, skatttekjur dregist saman, gengi krónunnar er fallvalt og í rauninni getur enginn sagt til um hver staða ríkissjóðs kann að verða á komandi fjárlagaári.

Það hefur því ekki verið auðvelt verk að setja saman frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár en frumvarpið hefur verið lagt fram. Þar eru meginlínurnar dregnar og þær áherslur sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt upp með fyrir árið 2009. Sá kostur hefur verið valinn í meginatriðum að gera ráð fyrir tæplega 60 milljarða kr. halla og er það viðsnúningur frá síðasta ári upp á 100 milljarða. Það er með öðrum orðum meðvituð ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að leggja til að fjárlög verði afgreidd með halla sem þessu nemur, ekki síst með hliðsjón af því að vega upp á móti þeirri hjöðnun og samdrætti sem vofir yfir.

Sú viðspyrna sem þar er lagt upp með nær ekki eingöngu til aukinna framkvæmda og útgjalda í atvinnuskyni eða til verðmætasköpunar. Þá er ég kominn að því tilefni sem rekur mig hingað upp í ræðustól, virðulegur forseti, að vekja sérstaklega athygli á því að gert er ráð fyrir í frumvarpinu verulegri aukningu til félagslegrar velferðar sem kemur fram í hærri tölum og framlögum til málefna aldraðra og öryrkja og raunar fatlaðra. Það kemur fram í vaxta- og barnabótum, með hækkun á skattleysismörkum, með aukinni fyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs varðandi niðurgreiðslu á íbúðakaupum o.s.frv.

Í skjali sem fylgir með frumvarpi til fjárlaga, þar sem fjallað er um stefnur og horfur, segir um þetta á bls. 26, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja og leggur til tæplega 7 milljarða kr. hækkun á árinu 2009 sem fer upp í 8,7 milljarða í lok tímabilsins umfram núverandi framlög. Í heildina verður því varið um 38 milljörðum kr. meira til málaflokksins á tímabili rammafjárlaganna. Til viðbótar er áætlað fyrir hækkunum vegna fjölgunar með hliðsjón af mannfjöldaspá.

Af einstaka breytingum má nefna að gert er ráð fyrir átaki vegna uppbyggingar 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða auk þess sem einbýlum verður fjölgað. Stórlega hefur verið dregið úr tekjutengingu í almannatryggingum. Fylgt verður eftir tillögum um stóraukna starfsendurhæfingu og nýtt matskerfi, átak gert í búsetumálum geðfatlaðra og vaxandi hluta af tryggingagjaldi verður ráðstafað til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.“

Á tímum kaupmáttarrýrnunar og hækkandi verðlags eru það hinir tekjulægstu, bótaþegar og barnafólk, sem gjalda þyngst og verða sárast fyrir barðinu á verðbólgunni og verðlaginu. Það er skylda stjórnvalda undir slíkum kringumstæðum að standa vörð um þá sem minnst mega sín, sem lifa á bótum eða lágum launum, og gera þeim þannig kleift að standa þessa lífskjaraskerðingu af sér. Það hríðarveður sem nú hefur skollið á kemur niður á okkur öllum en misjafnlega þó og verst á þeim sem minnstar hafa tekjurnar og þeim sem eru að koma undir sig fótunum eða hafa sest í helgan stein vegna aldurs við rýran kost. Þennan hóp verður að verja hvað sem það kostar og á það reynir nú á þessum örlagatímum að við það verði staðið.

Í fjárlagafrumvarpinu er greinilegt að brugðist er við með jákvæðum hætti að mjög mörgu leyti eins og ég hef hér rakið. Ég tel fulla ástæðu til þess að vekja sérstaklega athygli á þeirri staðreynd að frumvarpið skýrir frá og felur í sér tillögu um að fjárframlög hins opinbera hækki í þeim málaflokki sem snýr að velferðarmálum og félagslegri þjónustu. Um það má alltaf deila hvort nóg sé að gert en hér eru að mínu mati stigin spor bæði fram á við og í rétta átt. Hér er lagt til að auknu fé sé varið til félagslegra þátta samfélagsins sem snýr að þeim einstaklingum og hópum sem ég nefndi áðan.

Hvað sem líður meðferð frumvarpsins hér í þinginu á næstu vikum treysti ég því að stefna ríkisstjórnarinnar, fyrirætlanir hennar í þessum málaflokki, verði studd og staðfest við samþykkt fjárlaga. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum almennt snúast sem sagt ekki um það eitt að bjarga bönkum og sparifé landsmanna, sem er auðvitað lykilatriði og mikil þungamiðja, heldur er hér verið að styrkja hið félagslega velferðarkerfi og veita þannig almannafé í þann farveg sem geri þessum þjóðfélagshópum ögn auðveldara að standa af sér fellibylinn sem nú gengur yfir og slotar vonandi um síðir. Frá þessari stefnu má ekki víkja hvað sem á dynur.