136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:52]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það voru örfá atriði sem ég hefði viljað koma á framfæri hér í þessari umræðu um fjárlagafrumvarpið. Við höfum vakið athygli á því að forsendur þess voru þegar brostnar þegar það var lagt fram en engu að síður er þar þó á ferðinni pólitísk stefnumörkun, eða stefnumörkunarleysi, sem ég vil gera mjög alvarlegar athugasemdir við.

Það er talað um núna á þessum alvörutímum að menn eigi ekki að horfa til baka heldur fram á veginn. Ég er sammála því. Ég er sammála því, og legg áherslu á það, að ef við gerum það sem við þurfum að gera — að horfa fram á veginn — keyrum við ekki óbreytta stefnu. Þá keyrum við ekki óbreytta stefnu einkavæðingar og markaðsvæðingar, þá keyrum við ekki óbreytta stefnu frjálshyggju sem riðið hefur húsum í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í 17 ár. Hví segi ég þetta? Vegna þess að það sem einkennir frumvarpið er áframhaldandi stefna hvað varðar einkavæðingu.

Ég vil nefna heilbrigðismálin. Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir liðlega ári á fundi í Valhöll með félögum sínum í Reykjavík að það væri gott að vera kominn með Samfylkingunni í ríkisstjórn því að þá væri hægt að ganga mun lengra í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þess vegna er nú leitt inn nýtt hugtak um kostnaðarvitund, um að heilbrigðismál, sjúkdóma, eigi að meta sem tekjur eða gjöld — eins og formaður heilbrigðisnefndar, hv. þm. Ásta Möller, sagði í umræðunni um sjúkratryggingafrumvarpið svokallaða, innkaupastofnun sjúklinga, að það sé svo mikilvægt að koma inn gerbreyttri hugsun í fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Orðrétt sagði hún, með leyfi forseta:

„… þar sem í stað þess að horft sé á sjúkling sem leggst inn á stofnun sem kostnaðaraukningu fyrir stofnunina er litið á hann sem tekjulind þar sem umsamin greiðsla fyrir umsamda meðferð felur í sér greiðslu til viðkomandi stofnunar.“

Ég hef aldrei litið á sjúkdóm minn eða annarra eða þeirra sem verða veikir sem einhvern kostnaðarhlut eða tekjulind. Það er þessi markaðshugsjón sem verið er að leiða inn og þess vegna er verið að stofna þessa Sjúkratryggingastofnun. Þetta er sama stefna og hefur verið keyrð á undanförnum árum í einkavæðingu almannaþjónustunnar og á þessum tímum þurfum við einmitt að standa vörð um velferðarþjónustuna og ekki fara út í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Sama er með Íbúðalánasjóð. Þar stendur enn yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að honum skuli skipt upp, hann settur að hluta á markað, færður bönkunum. Er það þetta sem við viljum nú? Finnst okkur ekki nóg komið af því sem við höfum sett af almannaþjónustu undir verndarvæng bankanna?

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs krefjumst þess að staðinn verði vörður um Íbúðalánasjóð, hann verði ekki settur á markað. Það er eitt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til og Samfylkingin hækjast undan. Ég held að það verði engin sátt hjá þjóðinni um það ef fylgja á stefnu ríkisstjórnarinnar og kröfu Sjálfstæðisflokksins um að Íbúðalánasjóður verði settur að hluta undir almenna viðskiptabanka.

Maður sér líka, frú forseti, áherslur ríkisstjórnarinnar sem birtast bæði í fjárlagafrumvarpinu og í þingmálunum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Ég staldra við málalista sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Lögð var áhersla á það hér í umræðunni, og hæstv. forsætisráðherra gerði það meira að segja, hve mikilvægt væri að standa vörð um atvinnustigið í landinu. Eitt af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin lagði fram í vor, og tókst að stöðva þá, var hið illræmda matvælafrumvarp, sem svo var kallað, þ.e. heimild á innflutningi á hráu kjöti. Með samstilltu átaki tókst að stöðva það í vor. Nú er það sett aftur efst á lista yfir mál sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ætlar að flytja. Ég minnist ekki nokkurs máls sem hefur fengið eins mikla andstöðu alls staðar í samfélaginu. Í áliti frá samtökum afurðastöðva, vinnslustöðva í landbúnaði, sem var sent landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, var bent á að næði það frumvarp fram að ganga mundi það þýða stórkostlega fækkun fólks í matvælaiðnaði í landinu. Er það brýnasta mál af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurflytja frumvarpið um innflutning á hráu kjöti og stefna kjötvinnslu og innlendri matvælavinnslu í uppnám?

Samtímis lesum við fréttir um það að staða bænda hafi ekki verið verri í áraraðir. Við sem erum í nánu sambandi við bændur um allt land vitum að þeir standa frammi fyrir gríðarlegum fjárhagslegum erfiðleikum, hækkun á aðföngum, áburði, fóðurvörum, vöxtum, fjármagnskostnaði — og síðan þessi gengisþróun sem snertir þá sem eru með erlend lán. Við vitum að mörg bú standa á barmi þess að geta ekki starfað áfram, ná ekki í fjármagn. Ég hefði talið að það hefði staðið landbúnaðarráðherra nær að vera með númer 1 á sínum lista frumvarp sem tæki á og reyndi að koma til móts við hinn gríðarlega fjárhagsvanda sem er í íslenskum landbúnaði og reyndar líka hjá einyrkjum og minni fyrirtækjum í sjávarútvegi. Nei, veruleikafirring ríkisstjórnarinnar er því miður svo sorgleg að fyrsta mál sem sett er á lista af hálfu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er frumvarp um innflutning á hráu kjöti.

Þetta er ekki að horfa fram á veginn. Hagsmunir íslensku þjóðarinnar standa nú um að þjappa sér saman, þjappa sér saman um þau íslensku gæði sem við þegar höfum hönd á, íslenska matvælavinnslu, íslenskan landbúnað, íslenskan sjávarútveg, íslenska vinnslu í sjávarútvegi en ekki að vita hvernig við getum lamað þessa starfsemi.

Ég hefði líka viljað sjá frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hefði tekið á því að ekki væri verið að flytja óunninn gámafisk úr landi þannig að veiddur fiskur á Íslandsmiðum færi til vinnslu hér á landi og gerð yrðu úr honum eins mikil verðmæti og nokkur kostur væri til að tryggja sem mestan þjóðhagslegan ábata. Þetta tel ég mjög mikilvægt og við höfum flutt um það þingmál, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ekki er minnst á að endurskoða eigi kvótakerfið eða sjávarútvegsstefnuna og hæstv. forsætisráðherra sagði meira að segja í gær að ekki ætti að gera það — stendur þó í stjórnarsáttmálanum að það eigi að fara að minnsta kosti í vissa þætti þess. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp um að hún verði endurskoðuð þannig að fiskstofnarnir eflist, vinna út um allt land eflist með það allt að leiðarljósi.

Frú forseti. Við þurfum svo gjörsamlega að breyta um stefnu, snúa stefnunni inn á við, taka höndum saman um íslenska hagsmuni, um hagsmuni sem standa með okkur sem öflugri þjóð með öflugu atvinnulífi, góðri menntun, öflugu velferðarkerfi. Við verðum að snúa af þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað á undanförnum árum í einkavæðingu og (Forseti hringir.) frjálshyggju í íslensku atvinnulífi og þá munum við þingmenn Vinstri grænna taka á af fullu afli.